Bændablaðið - 26.01.2017, Side 26
26 Bændablaðið | Fimmtudagur 26. janúar 2017
Vilko á Blönduósi flutt yfir
í gamla mjólkursamlagið
– Nýtt og stærra húsnæði eykur möguleika á öflugri starfsemi
„Það er mikil ánægja með flutn-
inginn, nú höfum við komið okkur
fyrir í góðu húsnæði sem hentar
okkar starfsemi prýðilega og þá
heyrum við líka að margir hér eru
ánægðir með að þetta húsnæði er
loksins komið í gagnið á ný,“ segir
Kári Kárason, framkvæmdastjóri
Vilko á Blönduósi. Starfsemi fyr-
irtækisins var um nýliðin áramót
flutt í gamla mjólkursamlagshúsið
í bænum, en það hefur staðið autt
um árabil, eða frá því starfsemi
samlagsins var lögð niður um ára-
móti 2008 til 2009.
Mun meira pláss
Húsnæði samlagsins var notað sem
geymsla fyrir ónýttan búnað að sögn
Kára, þannig að heldur hefur lifnað
yfir eftir að Vilko flutti þangað starf-
semi sína. „Íbúar hér um slóðir eru
kátir yfir því að líf hefur á ný færst
í húsið.“ Vilko flutti úr 650 fermetra
húsnæði og yfir í 1.500 fermetra.
„Þetta er ansi mikil stækkun, við
höfum nú ríflega helmingi meira
pláss en áður og það eru viðbrigði.
Helstu kostir nýja húsnæðisins eru
þeir hversu auðvelt er að skilja starf-
semi á milli okkar deilda að.“
Kári segir að umfangsmiklar
endurbætur hafi verið gerðar á hús-
næðinu og var hafist handa við þær
í júlí í fyrrasumar. „Við höfum unnið
að lagfæringum og endurbótum síðan,
þeim lauk skömmu fyrir áramót og þá
byrjuðum við að flytja okkur yfir. Við
erum alveg himinlifandi yfir flutn-
ingunum, þetta húsnæði er umtals-
vert stærra en það sem við höfðum til
umráða áður, það er rýmra um okkur
hér þannig að við horfum nú til þess
að bæta heldur í,“ segir Kári.
Góður gangur í rekstrinum
Rekstur fyrirtækisins hefur gengið
vel undanfarin ár, „það hefur verið
góður gangur hjá okkur, mikill vöxtur
og útlitið fram undan er bjart,“ segir
Kári. „Við sjáum fjölmörg tækifæri
til framtíðar litið, m.a. í framleiðslu
á blautvörum og eins erum við með
augun opin fyrir nýjungum af ýmsu
tagi því við höfum svigrúm til að bæta
við okkur verkefnum. Í þeim efnum
erum við m.a. að skoða möguleika
varðandi vöruþróun, þar eru mörg
tækifæri fyrir hendi. Við munum
byggja á því vöruúrvali sem þegar er
fyrir hendi en með aukinni þróun á
okkar vörum sjáum við fram á að geta
aukið okkur. Þetta eru skemmtilegir
og spennandi tímar,“ segir hann.
Starfsemin flutt frá Kópavogi til
Blönduóss árið 1986
Fyrirtækið Vilko stendur á gömlum
grunni, var stofnað í Kópavogi árið
1969. Kaupfélag Húnvetninga keypti
félagið árið 1986 og flutti starfsem-
ina norður á Blönduós. Aldamótaárið
2000 var fyrirtækinu breytt í hlutafé-
lag og er það í eigu Ámundakinnar
ehf., Ó Johnson & Kaaber, sveitarfé-
laganna í Austur-Húnavatnssýslu auk
nokkurra starfsmanna og einstaklinga.
Stórbruni varð í fyrirtækinu árið
2004, en þá brann húsnæði fyrirtæk-
isins til kaldra kola, en tveimur árum
síðar var flutt í nýtt húsnæði og við það
var svo byggt árið 2008, en þá hafði
starfsemin aukist og búið að renna
fleiri stoðum undir reksturinn með
kaupum á félaginu Tindafelli sem átti
og rak pökkunarverksmiðju fyrir vöru-
merki sitt, Prima. Viðbótarhúsnæði
var nýtt undir starfsemi Prima krydda,
en Vilko ehf. á og rekur starfsemi í
kringum tvö vörumerki, Vilko og
Prima.
Kryddbærinn Blönduós
„Prima-kryddin eru þau mest seldu hér
á landi og hefur þeim verið virkilega
vel tekið meðal landsmanna. Salan
í fyrra nam um 383 þúsund glösum
og við erum ánægðir með þessar
góður viðtökur. Reyndar hefur aðeins
borið á því að menn halda að Prima
sé erlent vörumerki og framleiðslan
fari fram í útlöndum. Svo er aldeilis
ekki, við framleiðum allt okkar krydd
á Blönduósi og sífellt hefur um árin
verið að bætast við úrvalið,“ segir
Kári.
Vöxtur í sölu á Vilko-vörum
Vilko-vörulínan er hins vegar vel
þekkt meðal landsmanna enda stytt-
ist í að hálf öld verði liðin frá því þær
komu fyrst á markað. „Vöxturinn í
vörum okkar undir Vilko-merkinu
hefur verið jafn og stöðugur undan-
farin þrjú ár, salan hvert ár hefur
toppað það sem á undan fór, hvert
sölumetið á fætur öðru verið sett. Við
slíkar aðstæður er ekki annað hægt en
að vera ánægður,“ segir Kári. Undir
vörumerki Vilko má finna m.a. súpur
af ýmsu tagi, vöfflur og pönnukökur,
pitsubotna og fleira. Flestar Vilko-
vörur eiga það sammerkt að einungis
þarf að blanda vatni saman við hrá-
efnið og hræra það út áður en varan
er matreidd.
Eftirspurn eftir þjónustu
hylkjadeildar
Þriðja stoðin í rekstri Vilko er svo
hylkjadeildin sem svo er nefnd, en
Kári segir það verkefni hafa byrjað
sem aukaverkefni sem vaxið hafi
fiskur um hrygg og sé nú ekki síður
mikilvæg undirstaða í rekstri fyrirtæk-
isins en Vilko og Prima. „Við höfum
fjárfest töluvert undanfarin ár m.a. í
tækjum og búnaði til að hægt sé að
bjóða upp á þessa framleiðslu hér hjá
okkur,“ segir Kári, en fyrirtækið sér
m.a. um að framleiða fyrir fyrirtækin
Prótís og Iceherbs. „Það hafa einnig
komið til okkar nokkrir aðilar og feng-
ið að prufukeyra sín efni í hylkjadeild
okkar. Á þessu sviði eru fyrir hendi
möguleikar og við sjáum að eftirspurn
eftir okkar þjónustu á þessu sviði er
vaxandi.“
Kári segir að nú líti menn björtum
augum til framtíðar, nýtt, betra og
stærra húsnæði hvetji til þess að auka
starfsemina, fjölga starfsfólki og skapa
meiri vinnu í sveitarfélaginu. „Það
er mikil eftirspurn eftir þeim vörum
sem við bjóðum og eins eftir þeirri
starfsemi sem við bjóðum í hylkja-
deildinni,“ segir hann. Starfsmenn eru
nú 8 talsins en Kári segir ljóst að þeim
muni fjölga á árinu. „Markmiðið er
að hér verði starfræktur 10 manna
vinnustaður síðar á þessu ári.“
/MÞÞ
Vertu viðbúinn vetrinum
LÉTTAR – STERKAR – TRAUSTAR
SNJÓKEÐJUR
Hafðu samband og kynntu þér
vöruúrvalið og þjónustuna
Kári Kárason, framkvæmdastjóri Vilko á Blönduósi, segir að nýtt, betra og stærra húsnæði hvetji til þess að auka
starfsemina, fjölga starfsfólki og skapa meiri vinnu í sveitarfélaginu. Myndir Gunnar Tryggvin Halldórsson
Vilko á Blönduósi hefur flutt starfsemi sína í gamla mjólkursamlagshúsið, en það hefur staðið autt í tæpan áratug.
Vöxtur í vörum undir Vilko-merkinu
hefur verið jafn og stöðugur undan-
farin þrjú ár, salan hvert ár hefur
toppað það sem á undan fór, hvert
sölumetið á fætur öðru verið sett en
í vörulínunni má finna m.a. súpur af
ýmsu tagi, vöfflur og pönnukökur,
pitsubotna og fleira.