Bændablaðið - 11.01.2018, Qupperneq 12

Bændablaðið - 11.01.2018, Qupperneq 12
12 Bændablaðið | Fimmtudagur 11. janúar 2018 Árni Gunnarsson, fyrrverandi bóndi á Reykjum í Skagafirði og núverandi eftirlaunamaður, er með hugmyndir í þá veru að eldri borgurum verði boðin búsetuúrræði í sveit – nánar tiltekið í eins konar sambýlum þar sem rekinn væri tómstundabúskapur. Hann hefur áhuga á að stofna félagsskap utan um hugmyndir sínar og svo þyrfti sá félagsskapur aðstoð frá ríkinu í því að verða honum úti um jarðnæði. Einnig sér hann fyrir sér að aldraðir bændur sem þurfi að yfirgefa jarðir sínar bjóði þær til verkefnisins. Hráar hugmyndir Árni segir að hugmyndirnar séu ennþá svolítið hráar í útfærslu. „Skýringin er einfaldlega sú að þær hafa aldrei fengið neina umræðu og eru kyrrar þar sem þær fæddust – í kollinum á mér. En þær snúast einfaldlega um að komast yfir aðstöðu þar sem eldri borgarar gætu hreiðrað um sig og skipulagt eigin ævikvöld með sem mestri virkni og án skipulegs atbeina einhverra yfirstjórna á vegum ríkis og sveitarfélaga. Með þessu yrði unnt að gera endalokin notaleg og á forsendum hvers og eins eftir því sem aðstæður leyfðu,“ segir Árni. Sólheimar fyrirmynd Að sögn Árna er fyrirmynd að einhverju leyti í Sólheimum í Grímsnesi. Hann sér fyrir sér að ríkið gæti lagt til jarðir í þessi verkefni, en ríkið á jarðir úti um allt land. Það gætu verið eftir atvikum litlar eða stórar jarðir með húsnæði fyrir sjö til tíu einstaklinga. Það sé margt fólk einmana sem gæti vel hugsað sér að búa á stað þar sem hægt væri að hugsa um hesta, hunda, hænsni – og það gæti líka stundað garðyrkju. Eldra fólk hafi í mörgum tilvikum tengsl út í sveitirnar og hafi áhuga á að endurnýja kynnin við sveitalífið; fólk með ágæta hreyfigetu og kollinn í lagi. Eftirlaunafólki fjölgar Árni segir ljóst að að óbreyttu muni eftirlaunafólki fjölga verulega á næstu árum ásamt því að flestir leyfi sér að vænta seinkunar á slæmum öldrunareinkennum. „Þetta eykur þrýsting á ný búsetuúrræði. Hvað jarðnæði áhrærir búa aldraðir einyrkjar víða um land sem sjá fram á að þurfa að yfirgefa jarðir sínar og flytjast í þéttbýlið – jafnvel hálfnauðugir. Ekki er útilokað að einhverjir þeirra sjái í þessu tækifæri og bjóði jarðir sínar og aðstöðu til þessa nýja verkefnis og nýta sér þann kost að sitja kyrrir í tengslum við það öryggi sem þessu fylgir. En allt er þetta opið til umræðu og vissulega geta úrræðin orðið fjölbreytt. Við stefnum á að halda kynningar- og umræðufund í byrjun mars og stofna þá samtökin formlega ef áhugi reynist nægur,“ segir Árni. Hann hvetur alla þá sem áhuga hafa á málinu að hringja í síma 8207119 eða hafa samband í gegnum netfangið arnireykur@gmail.com. /smh Möguleg búsetuúrræði eftirlaunafólks: Sambýli í sveitum – Nóg af ríkisjörðum um allt land sem mætti nýta FRÉTTIR Hægt væri að hugsa um hesta, hunda, hænsni – og stunda garðyrkju á sveitasambýlunum. Mynd / smh Árni Gunnarsson fyrrverandi bóndi hefur áhuga á því að stofna félagsskap utan um hugmyndir sínar um ný búsætuúrræði fyrir eldri borgara til sveita. Frá Sólheimum sem Árni hugsar sér sem ákveðna fyrirmynd. Mynd / smh Óskað eftir þátttakendum í Terra Madre Nordic 2018 Terra Madre Nordic er norrænn viðburður sem haldinn verður í Kødbyen í Kaupmannahöfn dagana 27.–29. apríl 2018. Terra Madre er Slow Food verkefni sem hugsað var í beinu framhaldi af vinsældum Slow Food-hreyfingarinnar. Terra Madre felst í viðburðahaldi og mótun tengslanets þeirra sem starfa í anda Slow Food-hreyfingarinnar. Fyrsti Terra Madre viðburðurinn var haldinn á Ítalíu árið 2004 en frá árinu 2007 hafa sambærilegir viðburðir verið haldnir til dæmis á Írlandi, í Tansaníu, Brasilíu, Argentínu, Rússlandi og fleiri löndum. Alltaf er um að ræða sama form á Terra Madre viðburðum; sýningar (sala og kynning á afurðum), smiðjur og fyrirlestrar. Terra Madre í fyrsta skiptið á Norðurlöndunum Þetta er í fyrsta sinn sem Terra Madre viðburður er skipulagður á Norðurlöndunum. Slow Food- samtökin á Norðurlöndum ásamt samstarfsaðilum þeirra móta viðburðinn en í boði verða fyrirlestrar, smiðjur (workshops) og sölu- og kynningarbásar fyrir þátttökufyrirtæki sem starfa samkvæmt Slow Food- hugmyndafræðinni. Verkefnið hefur hlotið styrk frá Norrænu ráðherranefndinni, sem gildir um Ísland jafnt sem hinar Norðurlandaþjóðirnar. Styrkurinn nýtist til að setja upp og skipuleggja viðburðinn og greiða laun verkefnisstjóra en auk þess fær hvert land fjármagn til að standa undir hluta af kostnaði þátttakenda í Kaupmannahöfn; uppsetningu bása og fleira. Þátttakendur sjá hins vegar sjálfir um kostnað við ferðir, uppihald, og sendingar á vörum. Þrjú þemu verða lögð til grundvallar á viðburðinum: • Conservation through Consumption • Nordic Diversity: From Tradition to Innovation • Food Policy for a common future. Skilyrði fyrir þátttöku eru að aðilar starfi samkvæmt Slow Food- hugmyndafræðinni. Slow Food-samtökin á Íslandi munu svo velja þátttakendur úr innsendum umsóknum. Þeir sem hafa áhuga á þátttöku geta sent umsóknir á Dominique Plédel Jónsson (dominique@simnet.is) eða Dóru Svavarsdóttur (dora@culina. is) hjá Slow Food Reykjavík, þar sem frekari upplýsingar fást einnig. Umsóknarfrestur er til 20. janúar. Samstarfsaðilar verkefnisins eru Slow Food Reykjavík, Íslandsstofa og Matarauður Íslands. /smh Frá Terra Madre í Tórínó árið 2016. Mynd / smh Fyrirtæki tengd sjávarútvegi í Neskaupstað: Hafa styrkt heilbrigðisstofnanir um 150 milljónir á 6 árum Þrjú fyrirtæki í Neskaupstað, Síldarvinnslan, Samvinnufélag útgerðarmanna og Olíusamlag útvegsmanna hafa undanfarin 6 ár veitt styrki til heilbrigðismála í héraði, samtals ríflega 150 milljónir króna. Stuðningurinn er heilbrigðisstarfi eystra ómetanlegur. Fram kemur á heimasíðu Síldarvinnslunnar að félögin þrjú hefðu í tilefni af 60 ára afmæli Síldarvinnslunnar í desember síðastliðnum afhent Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 7 milljónir króna til kaupa á nýju sérhæfðu hjartaómskoðunartæki. Á öðrum og verri stað án styrkjanna Samvinnufélagið hefur árlega styrkt sjúkrahúsið með framlögum til kaupa á mikilvægum tækjum og búnaði og hið sama hefur Olíufélagið gert, m.a. veitti það styrk til kaupa á öllum sjúkrarúmum. Fram kemur í máli Guðjóns Haukssonar, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Austurlands, að styrkirnir séu algjörlega ómetanlegir, nyti styrkjanna ekki við væri heilbrigðisþjónusta á Austurlandi á öðrum og verri stað en raun ber vitni. Hann nefnir að samfélagið standi þétt við bak heilbrigðisþjónustunnar. „Það er auðvitað alltaf von okkar að þær fjárveitingar sem við fáum til reksturs heilbrigðisþjónustunnar dugi til tækjakaupa en hingað til hefur sú einfaldlega ekki verið raunin,“ segir Guðjón. Félögin þrjú hafa einnig lagt fram fjármuni til endurbóta á Norðfjarðarflugvelli, en hann skiptir afar miklu máli fyrir sjúkraflug og er fyrst og fremst notaður til slíks flugs. Styrkir félaganna hafa þannig stuðlað að stórauknu öryggi Austfirðinga og gert sjúkrahúsið hæfara til að sinna mikilvægu hlutverki sínu. Framlög Síldarvinnslunnar og Samvinnufélagsins til endurbóta á flugvellinum nema samtals um 50 milljónum króna, en að auki lögðu ríkið og sveitarfélagið í Fjarðabyggð sitt af mörkum.Ýmsir aðilar stóðu einnig straum af kostnaði við gerð flughlaðs. Framkvæmdum við völlinn lauk á liðnu sumri og var hann endurvígður í ágústmánuði. /MÞÞ

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.