Bændablaðið - 11.01.2018, Qupperneq 44
44 Bændablaðið | Fimmtudagur 11. janúar 2018
Áburðarkaup eru einn af stóru
kostnaðarliðum í rekstri kúa- og
sauðfjárbúa. Áburðarsalar hafa
nú (flestir) birt framboð og verð
á tilbúnum áburði. Framboð
er nokkuð áþekkt milli ára þó
nokkrar nýjar samsetningar sjáist
á listum áburðarsala. Verð hafa
hins vegar hækkað nokkuð milli
ára.
Mikilvægt er að bændur
skipuleggi áburðargjöf sem best til
þess að nýting fjármuna og aðfanga
sé góð. Besta leiðin til þess að halda
niðri áburðarkostnaði er, líkt og oft
hefur komið fram, góð og markviss
nýting á búfjáráburði. Í því felst að
vita magnið sem hægt er að nýta á
búinu, halda skrá yfir magn sem fer
á hverja spildu og hvenær borið er
á. Reikna þarf með áburðarefnum
úr búfjáráburði við gerð
áburðaráætlunar. Ráðunautar sem og
margir bændur nota Jörð.is til þess
að áætla áburðargjöf. Þar er hægt að
skrá dreifingu á búfjáráburði sem
og dreifingu sem áætlað er að verði
gerð síðar, t.d. í vor og áætla nýtingu
áburðarefna. Almennt er miðað við
slæma nýtingu áburðarefna á haust-
og vetrardreifingu en góða ef borið
er á í byrjun gróanda.
Í haust hafa margir
sauðfjárbændur rætt möguleika
á því að lækka kostnað við
heyframleiðslu með því að draga
úr kaupum á áburði. Í því sambandi
er vert að minna bændur á að
flokka ræktarlandið eftir ræktun
og uppskeruvæntingum. Gera
síðan vel við bestu túnin og draga
frekar úr áburðarmagni á gamlar
spildur í lélegri rækt. Nýræktuð
og uppskerumikil tún svara
áburðargjöf best og því mestur
ávinningur af því að bera vel á
þessar spildur. Einnig er rétt að
minna á að nýræktir þurfa mikinn
fosfór (P) fyrstu árin.
Ráðgjafarmiðstöð land búnaðar-
ins mun líkt og undanfarin ár gera
áburðaráætlanir fyrir þá bændur
sem panta þá þjónustu.
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins
Snorri Þorsteinsson
ráðunautur
í jarðrækt
snorri@rml.is
Áburðarkaup
Plöntuheilbrigði í íslenskri garðyrkju
Á nýliðnu ári komu upp óvenju
mörg tilfelli nýrra sjúkdóma
sem herja á plöntur í íslenskum
gróðurhúsum. Í tómatarækt
fundust hér árið 2017 tvær
tegundir veirusýkinga sem
ekki hafa sést hér áður og nú
rétt fyrir áramótin greindist
veirusjúkdómur í gúrkurækt á
tveimur garðyrkjustöðvum.
Íslenskir garðyrkjubændur hafa
lengi átt því láni að fagna að vera
lausir við margar af þeim plágum
sem herja á plöntur í öðrum löndum.
Það helgast fyrst og fremst af legu
landsins, einangrun frá öðrum
ræktunarsvæðum og tiltölulega
stuttri ræktunarsögu flestra tegunda
sem ræktaðar eru hér.
Plöntuheilbrigði er mjög
mikilvægur þáttur í fæðuöryggi
Þar sem ræktun plantna er undirstaða
fæðuframleiðslu er ljóst að
plöntuheilbrigði er mjög mikilvægur
þáttur í fæðuöryggi og efnahag alls
mannkyns. Margir skaðvaldar í
ræktun eru svæðisbundnir og hafa
menn reynt að takmarka útbreiðslu
þeirra með eftirliti og með því
að takmarka flutning plantna og
plöntuhluta milli svæða.
Aukið frelsi í viðskiptum milli
heimshluta eykur hættuna
Aukið frelsi í viðskiptum milli
fjarlægra heimshluta nær að hluta
yfir plöntur og plöntuhluta og
eykur þar með hættuna á því að
plöntusjúkdómar og meindýr berist
frá einum stað til annars. Þrátt fyrir
eftirlit og heilbrigðisvottorð hefur
víða reynst erfitt að koma í veg
fyrir að plágur í ræktun nemi land
á nýjum svæðum.
Svo virðist sem íslenskir
garðyrkjubændur séu nú að reyna
þessa óheillaþróun á eigin skinni.
Þó þessir sjúkdómar séu á engan
hátt skaðlegir heilsu manna valda
þeir alltaf búsifjum. Þeir leiða
til uppskerutaps í öllum tilfellum
og plöntudauða í þeim verstu.
Veirusjúkdómar í plöntum eru
þeirrar gerðar að ekki er til nein
lækning við þeim og eina leiðin til að
losna við þá er að rýma gróðurhúsin,
þrífa og sótthreinsa með tilheyrandi
kostnaði og tekjutapi. Smitefnið
sjálft er í mörgum tilfellum mjög
lífseigt, getur legið í dvala vikum,
mánuðum og jafnvel árum saman
og blossað upp aftur ef það kemst í
snertingu við plöntur.
Smitleiðirnar geta verið
margvvíslegar
Það liggur ljóst fyrir að allir
þessir sjúkdómar koma að utan
en smitleiðirnar geta verið
margvíslegar. Fólk, vélar og tæki
geta borið með sér sjúkdóma.
Plöntur, fræ og afurðirnar
sjálfar geta borið smit sem endar
inni í garðyrkjustöðvunum. Þannig
getur innfluttur tómatur, gúrka eða
melóna verið smitað af vírus, borist
á hendur eða fatnað neytandans,
og þaðan í plöntur i gróðurhúsi. Þó
þessi smitleið vírusanna inn í íslensk
gróðurhús sé lang líklegust, mega
garðyrkjubændur ekki falla í þá
gryfju að kenna eingöngu auknum
innflutningi á grænmeti og ávöxtum
um ástandið. Ef Íslendingar hefðu
aldrei flutt hingað nýjar plöntur
eða plöntuafurðir þyrftum við að
éta hvannarætur og hundasúrur til
að forðast skyrbjúg líkt og forfeður
okkar gerðu. Innflutningur á
tómötum, gúrkum, melónum og að
sjálfsögðu ávöxtum og grænmeti
almennt, hefur verið stundaður hér
svo lengi sem ég man. Þar er því
ekkert nýtt á ferðinni sem gæti skýrt
tíðni og útbreiðslu nýrra sjúkdóma.
Að hluta heimatilbúinn vandi
Þá er ég loksins vonandi að komast
að kjarna málsins og tilefni þessara
greinaskrifa. Ég er nefnilega þeirrar
skoðunar að aðsteðjandi vandi sé að
hluta til heimatilbúinn og vil ég færa
eftirfarandi rök fyrir þeirri skoðun:
• Smitvarnir á íslenskum
garðyrkjustöðvum hafa hingað
til verið ófullnægjandi í mörgum
tilvikum. Allt of algengt hefur
verið að fólk, vélar og tæki
fari milli stöðva án viðeigandi
varna. Fjölnota umbúðir í eigu
íslenskra garðyrkjubænda
standa í verslunum fullar
af innfluttu grænmeti og
ávöxtum og fara þaðan aftur
í garðyrkjustöðvarnar. Þó
kassarnir séu þvegnir og
sótthreinsaðir býður slíkt
fyrirkomulag að mínu mati upp
á mikla smithættu.
• Matvælastofnun hefur eftir-
lit með innflutningi og
plöntuheilbrigði. Sú stofnun
hefur hvorki fjármuni né
mannafla til að sinna því
hlutverki svo vel sé, þó þar á bæ
séu menn allir af vilja gerðir.
• Regluverk og opinber umgjörð
um plöntuheilbrigði er löngu
úrelt og þarfnast gagngerrar
endurskoðunar. Samband
garðyrkjubænda og fagaðilar
í stoðkerfi landbúnaðarins
hafa árum saman kallað eftir
umbótum, en án árangurs.
• Í þessari upptalningu ætla
ég ekki að undanskilja ráðu-
nautaþjónustuna og aðra aðila
í stoðkerfi atvinnugreinarinnar.
Ég viðurkenni fúslega að hægt
hefði verð að hrópa hærra og
benda á aðsteðjandi hættur, sem
hefði þá hugsanlega verið hægt
að afstýra.
Mikilvægt að allir sem málið
varðar bregðist fljótt við
Þó segja megi að skaðinn sé skeður
eigum við sem betur fer enn langt
í land með að flytja hingað alla þá
óværu sem getur skaðað íslenska
garðyrkju. Því er mikilvægt að allir
sem málið varðar bregðist fljótt við,
taki höndum saman og bæti úr því
sem augljóslega er ábótavant.
Efla þarf smitvarnir á
garðyrkjustöðvum
Efla þarf smitvarnir á garðyrkju-
stöðvum og upplýsa bændur
og starfsfólk um smitvarnir og
mikilvægi þeirra. Styrkja þarf
Matvælastofnun sem eftirlits- og
viðbragðsaðila og endurskoða
þarf opinbera umgjörð um
plöntuheilbrigði. Með samstilltu
átaki er hægt að lágmarka það
tjón sem þegar er orðið og vonandi
koma í veg fyrir útbreiðslu fleiri
nýrra skaðvalda.
Helgi Jóhannesson
garðyrkjuráðunautur
hjá RML
helgi@rml.is
Mynd / HKr.