Bændablaðið - 06.09.2018, Page 6
Bændablaðið | Fimmtudagur 6. september 20186
„Lífið er ekki bara súkkulaði og bíltúrar“
var amma mín vön að segja þegar
samferðafólk hennar vildi komast á
þægilegri hátt í gegnum amstur dagsins
og kvartaði yfir aðstæðum sínum. Gamla
konan hafði nokkuð til síns máls og var í
raun að segja: „Hættu að kvarta og haltu
áfram!“
Það er svo sannarlega þannig að menn
eiga alltaf að halda áfram, sækja fram, í
hverju því sem þeir taka sér fyrir hendur.
Þannig næst árangur og þannig þróum við og
bætum aðstæður okkar og umhverfi.
Íslenskur landbúnaður hefur verið í
gríðarlegri þróun síðastliðna áratugi, afurðir
hafa aukist, ræktun batnað og ekki síst
hefur aðbúnaður og velferð tekið miklum
framförum. Rannsóknir og nýsköpun eru
tveir lykilþættir þróunar og það er full ástæða
til að hafa áhyggjur af rannsóknarþættinum
í landbúnaði hér á landi. Hratt hefur dregið
úr landbúnaðartengdum rannsóknum
undanfarna áratugi. Tilraunastöðvar sem
áður iðuðu af lífi heyra nánast sögunni til
og búvélaprófanir, stórar búfjártilraunir og
vinnurannsóknir eru einnig hverfandi.
Nú er ég ekki að segja að það starf sem
hér var áður unnið ætti að vera enn í sömu
skorðum og áður var, alls ekki, en fyrr má
rota en dauðrota. Það sama virðist eiga við í
allri stjórnsýslu tengdri landbúnaðarmálum
hér á landi. Stjórnsýslan öll hefur dregist
saman undanfarna áratugi og nú er svo
komið að landbúnaðarhluti atvinnuvega- og
nýsköpunarráðuneytisins telur tvo til þrjá
fasta starfsmenn.
Landbúnaður á tímamótum
Á sama tíma stendur íslenskur landbúnaður
á miklum tímamótum sem kallar á að vel
sé haldið á málum. Afleiðingar niðurstöðu
EFTA-dómstólsins varðandi hráa kjötið
liggja ekki fyrir og samningur Íslands og
ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur
hefur öðlast gildi og munu innflutningskvótar
stigvaxa næstu þrjú ár til viðbótar. Einnig
hafa miklir þurrkar sett sitt mark á landbúnað
í Evrópu í sumar og mun það að öllum
líkindum endurspeglast í offramboði á kjöti
með tilheyrandi verðlækkunum á innfluttum
vörum sem og hærra fóðurverði um einhvern
tíma. Þá er endurskoðun búvörusamninga
handan við hornið. Það má því segja að það
séu mjög margir boltar sem þarf að halda á
lofti og mikilvægt að allir sem að landbúnaði
koma séu vel í stakk búnir til að sinna því.
Hagsmunafélög bænda eru því nú sem áður
gríðarlega mikilvæg fyrir greinina í heild.
Nýtt erfðaefni í holdanaut og
erfðamengisúrval handan við hornið
Ef litið er til nautgriparæktarinnar er vert
að nefna þá baráttu sem við sjáum nú glitta
í árangur af er varðar holdanautaræktun. Á
einangrunarstöð Nautís að Stóra-Ármóti
hafa nú fæðst tveir kálfar úr innfluttum
fósturvísum af Aberdeen Angus kyni frá
Noregi og von er á níu í viðbót á næstunni.
Þá verða settir upp þeir 42 fósturvísar sem til
eru nú í septembermánuði. Er þetta í fyrsta
sinn í 20 ár sem nýtt erfðaefni er flutt til
landsins og frá fyrsta fundi með stjórnvöldum
til fyrsta kálfs liðu tæp níu ár.
Á síðasta ári hófst vinna við undirbúning
að mögulegri innleiðingu á erfðamengisúrvali
í íslenskri nautgriparækt. Markmiðið er að
gera okkur kleift að spá fyrir um kynbótagildi
gripa á grundvelli arfgerðar þeirra, fljótlega
eftir að þeir koma í heiminn. Um er að
ræða eina mestu byltingu í kynbótastarfi
nautgriparæktarinnar frá því sæðingar
komu til sögunnar en með þessari aðferð
er vonast til að stytta megi ættliðabilið í
nautgriparæktinni verulega og auka þannig
árlegar erfðaframfarir sem því nemur.
Sýnasöfnun er lokið og nú í september hóf
doktorsnemi nám við háskólann í Árósum
og gert er ráð fyrir því að doktorsverkefnið
standi næstu fjögur ár. Í kjölfarið verður
hægt að innleiða erfðamengisúrval í íslenska
nautgriparækt.
Önnur nærtækari dæmi eru störf
verðlagsnefndar en nú 1. september hækkaði
lágmarksverð mjólkur til bænda um 3,52%,
úr 87,40 kr. í 90,48 kr.
Endurskoðun á næsta leiti
Fram undan eru stór verkefni. Atkvæða-
greiðsla meðal mjólkurframleiðenda um
framtíð kvótakerfis í mjólkurframleiðslu mun
eiga sér stað á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Til
þess að bændur geti tekið upplýsta ákvörðun
um framtíðina þarf að liggja fyrir og greina
hvaða leiðir eru í boði og hvað þær þýða fyrir
greinina. Vinna við slíka greiningu er komin
af stað og verður kynnt fyrir bændum áður
en að atkvæðagreiðslu kemur. Á næsta ári
verða búvörusamningar endurskoðaðir og þá
m.a. horft til þess hvernig framleiðslan hefur
þróast, bæði í mjólk og nautakjöti, hvaða
árangur hefur náðst og hvernig markmið
samningsins hafi gengið eftir. Ljóst er
að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar mun
hafa mikið um breytingar á samningnum
að segja. Eins er þörf á að bæta nokkur
ákvæði, meðal þess sem LK hefur bent á
er að fjárfestingarstuðningur þarf að vera
skilvirkari, t.d. með því að vera bundinn við
uppfyllingu aðbúnaðarreglugerða. Allt verður
þetta rætt á haustfundum LK sem stefnt er á
að hefjist um miðjan október.
Samstaðan hvað mikilvægust
Sá tími sem nú er liðinn frá því að ég tók við
sem formaður LK hefur verið reynslumikill
og áhugaverður. Miklar sviptingar hafa verið
í kringum landbúnaðinn og hagsmunagæslan
hefur bæði snúist um vörn og sókn. Það er
gott að sjá þegar bændur taka þátt og leggjast
á árarnar með þeim sem í framlínunni standa.
Ég hvet bændur til að hafa samband við sín
hagsmunafélög þegar spurningar vakna.
Skiptar skoðanir eru í nautgriparækt eins
og öðrum greinum og skoðanaskipti um hin
ýmsu mál eru jákvæð og eðlileg. Þannig ræðir
fólk sig til niðurstöðu sem endurspeglar hvað
flestar raddir. Það er gömul saga og ný að
saman erum við ávallt sterkari.
Höldum haus og sækjum fram, því megum
við aldrei hætta, lífið er ekki bara súkkulaði
og bíltúrar!
Bændablaðið kemur út 24 sinnum á ári. Því er dreift ókeypis á yfir 400 stöðum
á landinu og á öll lögbýli landsins.
Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim í pósti
gegn greiðslu. Árgangurinn kostar þá kr. 10.500 með vsk. (innheimt í tvennu lagi).
Ársáskrift fyrir eldri borgara kostar 5.250 með vsk.
Heimilisfang: Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík.
Sími: 563 0300 – Fax: 562 3058 – Kt: 631294–2279
Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. − Málgagn bænda og landsbyggðar −
SKOÐUN
Mikið hefur verið talað um að gengi
íslensku krónunnar sé höfuðorsök
þess að fjara taki undan fyrirtækjum
í ferðaþjónustu. Á þessu hefur verið
hamrað látlaust í allt sumar, en ekki er
þó allt sem sýnist í þeim efnum.
Gengi krónunnar er vissulega búið að
vera hátt skráð á tímabilum í tæplega tvö ár.
Sveiflur á gengi hafa þó verið talsvert miklar
og undanfarnar vikur virðast hreyfingar
benda til að töluverðar breytingar kunni að
vera í uppsiglingu. Þó verður að hafa í huga
að vegna óróa á alþjóðamarkaði eru miklar
sveiflur á milli gjaldmiðla eins og dollars
og evru. Erlendir gjaldmiðlar eru síðan langt
frá því að vera samstiga í sínum sveiflum
gagnvart íslensku krónunni.
Gengi evrunnar gagnvart krónu stóð í gær,
5. september 2018, í rúmlega 125,9 krónum
og Bandaríkjadollar kostaði þá 108,9 krónur
samkvæmt miðgengi Seðlabanka Íslands.
Þann 5. september 2017 kostaði evran 124,9
krónur og Bandaríkjadollar 104,9 krónur.
Sama dag árið 2016 var gengi evrunnar í
129,2 og Bandaríkjadollar kostaði 115,7
krónur. Gengi krónunnar gagnvart evru var
því um 3% hærra í gær en á sama tíma 2016
og um 6% hærra gagnvart dollar.
Þegar skoðuð er gengisstaðan miðað
við fréttir og upphrópanir á markaði, þá
var gengi krónunnar langsamlega hæst
á þessu ári í mars. Þá kostaði evran ekki
„nema“ 121.5 krónur og dollarinn var
á rétt tæplega 99 krónur. Staðan fyrir
útflutningsatvinnuvegina hefur því batnað
töluvert frá þeim tíma þvert á það sem ætla
mætti af umræðunni. Staðan er þó langt
frá því jafn góð fyrir útflutningsgreinarnar
eins og hún var í ársbyrjun 2016. Þá kostaði
evran 141,3 krónur og Bandaríkjadollar
131,2 krónur. Þá var sannkölluð gósentíð
fyrir útgerð og aðra sem seldu útlendingum
vörur og þjónustu.
Ári seinna, eða í janúar 2017, var orðin
gjörbreyting á stöðunni. Þá kostaði evran
ekki nema 118,3 krónur og dollarinn 113,3
krónur. Útflutningsgreinarnar fengu mun
minna fyrir sinn snúð, en innflytjendur og
Íslendingar sem vildu ferðast til útlanda
réðu sér vart fyrir kæti. Síðan þá hefur ríkt
hálfgert gullgrafaraæði í þessum efnum
og ferðamönnum til landsins hefur fjölgað
gríðarlega og varla til sá Íslendingur sem
ekki hefur farið til útlanda einu sinni eða
oftar yfir árið.
Gallinn við þessar sveiflur er þó
margþættur. Vöruútflytjendur og sér í
lagi ferðaþjónustuaðilar verða að selja
samkvæmt langtímaplani langt fram í
tímann. Verðlagningin getur því oft miðast
við stöðuna þegar gengi krónunnar var
lágt og ef gengið hækkar á sölutímabilinu,
þá fást færri krónur fyrir þann gjaldeyri
sem kemur í kassann. Gagnvart erlendum
ferðamönnum er staðan hins vegar afleit
þegar verð eru miðuð við þann tímapunkt
þegar krónan er í hæstu hæðum. Þá fá þeir
mun minna fyrir sinn snúð og upplifa hreint
okur í verðlagningu. Það er einmitt það sem
virðist hafa verið að gerast síðustu mánuði
og misseri.
Eftir því sem ferðamönnum hefur fjölgað
hefur þetta orðspor auðvitað dreifst mun
víðar um heiminn og það er ekki alltaf sérlega
fallegt. Slíkt orðspor getur orðið ansi lífseigt
og virkar þá mjög neikvætt til langs tíma
litið. Því hlýtur að vera mikilvægt að menn
hagi verðlagningu á vörum og þjónustu hér
innanlands samkvæmt einhverju meðalhófi,
en spenni það ekki í takt við hæstu toppa
og dýpstu lægðir í gengisskráningu.
Hafa verður í huga að ofsagræðgi og líka
ofsaauðmýkt í verðlagningu getur magnað
sveiflur stórlega gagnvart viðkvæmum
þjónustugreinum og skapað óþarfa
glundroða og fjárhagsvandræði. Það er
því ekki bara hægt að skella skuldinni á
gengissveiflur, menn mættu stundum líta
sér nær. Meðalhófið er alltaf best. /HKr.
Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: 563 0339 − Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is – Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður Már Harðarson
smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is – Auglýsingastjóri: Guðrún Hulda Pálsdóttir ghp@bondi.is – Sími: 563 0303 – Netfang auglýsinga: augl@bondi.is − Vefur blaðsins:
www.bbl.is − Netfang blaðsins: (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is
Frágangur fyrir prentun: Anna Kristín Ólafsdóttir – Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Dreifing: Landsprent og Íslandspóstur. ISSN 1025-5621
ÍSLAND ER LAND ÞITT
Horft af Kletthálsi við Kolviðarhjalla niður í Skálmarfjörð í Austur-Barðastrandarsýslu. Fjörðurinn gengur inn í Vestfjarðakjálkann úr Breiðafirði.
Innst klofnar fjörðurinn á Vattarnesi [hægra megin á myndinni] og heitir vestari botninn Vattarfjörður en þaðan lá þjóðvegurinn áður upp á
Þingmannaheiði. Innst í Skálmarfirði er Skálmardalur og má fara þaðan um Skálmardalsheiði yfir í Gervidal, eða Gjörvidal, í botni Ísafjarðar.
Þýskir verslunarstaðir voru áður fyrr á Langeyri og Sigurðareyri við Skálmarfjörð. Nú er öll byggð við fjörðinn komin í eyði. Mynd / HKr.
Meðalhófið er best „Súkkulaði og bíltúrar“
Arnar Árnason
formaður Landssambands kúabænda
arnar@naut.is