Bændablaðið - 08.03.2018, Page 2

Bændablaðið - 08.03.2018, Page 2
2 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. mars 2018 Á nýafstöðnum aðalfundi Sambands íslenskra loðdýra- bænda (SIL), sem haldinn var 24. febrúar, urðu þau tíðindi að Björn Halldórsson, loðdýrabóndi á Akri í Vopnafirði, lét af störfum formanns eftir nær 18 ára setu. Við keflinu tók þá Einar E. Einarsson, loðdýrabóndi á Syðra-Skörðugili í Skagafirði. Með Einari í stjórn eru Björn Harðarson, Holti í Árnessýslu og Þorbjörn Sigurðsson í Ásgerði í Árnessýslu. Framkvæmdastjóri SÍL er sem fyrr Árni V. Kristjánsson. Brekka að kljást við en vonar að úr rætist Einar sagðist í samtali við Bændablaðið enn hafa gaman af minkarækt og hafa fulla trú á greininni. „Það er þó brekka hjá okkur núna og þungur tími fyrir loðdýrabændur en nú hefur skinnaverðið verið í tvö ár 25–30% undir framleiðslukostnaði.“ Sagðist Einar vonast til að úr fari að rætast og að aðstæður á markaði fari að lagast og gengi krónunnar að gefa eftir. „Það var jákvætt á síðasta uppboði, nú í febrúar varð aðeins hækkun á skinnaverði í dollurum og það seldist allt sem í boði var. Þessi hækkun skilar sér þó ekki með nokkru móti hingað til lands. Í fyrsta lagi hefur dollarinn styrkst gagnvart dönsku krónunni sem þýðir lækkun í dönskum krónum. Svo hefur íslenska krónan verið að styrkjast þessa dagana líkt og á síðastliðnu vori, þannig að það leggst einhvern veginn allt gegn okkur. Íslenska krónan er of sterk, erlenda verðið er enn of lágt og dollarinn er óhagstæður gagnvart evru. Síðan eru innanlandshækkanir hér t.d. í formi vinnulauna, og háir vextir.“ Jákvæð afstaða stjórnvalda vegur þungt Loðdýrabændur horfa fram á að þurfa að skipta og/eða breyta búrum í búum sínum til að standast nýjar kröfur um dýravelferð og verður því verkefni að ljúka á næstu tveim árum. Þar er um stóran kostnaðarlið að ræða. Bót er þó í máli að samþykkt hefur verið að íslenska ríkið komi til móts við bændur til að mæta því sem nemur um þriðjungi af kostnaði. Þá mun Byggðastofnun að auki lána bændum, sem á annað borð leggja í að fara út í þær framkvæmdir, allt að sex milljónum króna. „Þetta er gríðarlega jákvætt fyrir þá sem hafa kjark og þor til að halda áfram.“ – Nú hættu fimm loðdýrabændur rekstri í haust, hvernig heyrist þér hljóðið vera í þeim sem eftir eru? „Á þessum nýafstaðna fundi, þar sem mikill meirihluti minkabænda kom saman, var allavega enginn sem sagðist ætla að hætta núna. Allir hafa þeir þó áhyggjur af stöðunni og eru allir að glíma við þungan taprekstur. Menn eru hins vegar að veðja á það að þessi lægð gangi yfir á þessu ári og þá fari þetta að snúast í hina áttina. En það er ljóst að verði árið í ár eins og tvö síðustu hafa verið, þá verður mikil fækkun næsta haust.“ Vantar enn 1.500 krónur á skinn Næsta skinnauppboð hjá Kopenhagen Fur hefst 17. mars. Á því uppboði og þeim sem á eftir koma í maí og júní gera menn sér vonir um að verðið hækki áfram en á þessu tímabili verður stærsti hlutinn af íslensku framleiðslunni frá 2017 seldur. Þessar hækkanir eru þó ekki í hendi en engu að síður munu þessi uppboð ráða úrslitum fyrir marga íslenska loðdýrabændur. „Þetta er bara þannig að á árunum 2016 og 2017 vantaði að lágmarki 2.000 krónur á hvert skinn til að endar nái saman. Einhvern vantar minna, en aðra kannski aðeins meira. Meðalverðið á skinnum síðustu tvö ár var tæplega 4.000 krónur. Síðasta uppboð gaf í raun sömu tölu þótt verðið í dollurum væri hærra.“ Einar segir að þegar skinnaverðið fór hæst árið 2013 og sló öll met hafi fengist rúmlega 12.000 krónur fyrir hvert skinn að meðaltali. Ef tekið er meðalverð síðustu fimm ára að 2013 meðtöldu er verðið 6.500 krónur. Verðfallið eftir 2013 var hins vegar mjög bratt og árið 2013 fer út úr 5 ára meðaltalinu verður mikil lækkun á því. Segir Einar að ef þetta fimm ára meðalverð væri það sem fengist í dag, þá væri staðan vel ásættanleg. „Ef það rætist ekki úr þessu á næstu mánuðum þá er ansi hætt við að bankar og bændur líka fari að verða þreyttir á afkomuleysinu. Það getur enginn unnið að þessu kauplaust til lengdar og ekki átt fyrir nema hluta rekstrarkostnaðarins. Þar sem öll skinn seldust á síðasta uppboði og hækkun var á heimsmarkaðsverðinu, þá lifa menn enn í voninni um að úr rætist. Sagan segir okkur líka að verðið mun fara upp, en menn hafa bara verið lengi að bíta úr nálinni með offramboðið sem varð á markaðnum 2014 eftir samfellda aukningu í framleiðslu árin þar á undan,“ segir Einar. Yfir 80 milljónir voru framleidd í heiminum árið 2013 en árið 2010 voru það um 50 milljónir skinna. Nú er gert ráð fyrir að ekki komi „nema“ 45 milljónir skinna til sölu á yfirstandandi ári en eitthvað meira er samt framleitt. Einar segir að mat á framboði sé þó háð tveim óvissuþáttum. Það eru tölur um skinnaframboð í Kína sem eru mjög á reiki og síðan birgðir sem spákaupmenn kunna að hafa keypt og komi þá inn á markað þegar verð fer að hækka. Það kunni mögulega að tefja viðsnúning á markaðnum. Það verður að taka á háum vöxtum á Íslandi „Að þessum óvissuþáttum frátöldum þá er ljóst að mikill samdráttur hefur orðið í framleiðslu skinna sem kemur til sölu í uppboðshúsunum. Það gefur manni tilefni til bjartsýni. Stóra málið er að við verðum að gera okkar grein, líkt og aðrar greinar í íslenskum landbúnaði, sem mest samkeppnishæfar í framleiðslukostnaði við þau lönd sem við erum að keppa við. Þar skiptir t.d. miklu máli að við erum að borga hærri vexti hér á landi en landbúnaður í öðrum löndum þarf að kljást við. Þetta er heimatilbúið vandamál sem á að vera hægt að leysa, ekki síst þar sem bankarnir eru að stærstum hluta í höndum ríkisins. Eins eru þessar miklu sveiflur á íslensku krónunni mjög erfiðar fyrir útflutningsgreinarnar í landinu ásamt því að hafa verulega truflandi og neikvæð áhrif á rekstrarumhverfið hér á landi. Það verður að taka á þessu og jafna betur rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja og þar með landbúnaðarins,“ segir Einar E. Einarsson. /HKr. FRÉTTIR Nýr formaður loðdýrabænda vonast til að staðan í greininni fari að skána: Síðasta skinnauppboð lofar góðu – en formaðurinn segir að þetta ár geti ráðið úrslitum í rekstri hjá mörgum loðdýrabændum Einar E. Einarsson, nýr formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda. Skinnauppboð hjá Kopenhagen Fur í Danmörku. Mynd / HKr. Mynd / HKr. Beint frá býli og lífrænir bændur aðilar að Bændasamtökunum Búnaðarþing 2018 samþykkti síðastliðinn þriðjudag aðildar- umsóknir að Bændasamtökum Íslands frá Beint frá býli og Verndun og ræktun (VOR), félagi framleiðenda í lífrænum búskap. Beint frá býli var stofnað 2008 og er tilgangur félagsins að hvetja til heimavinnslu og sölu beint frá bændum. Einnig að vinna að hagsmunum þeirra bænda sem stunda eða hyggjast stunda hvers konar framleiðslu og sölu á heimaunnum afurðum. Meginmarkmið félagsins er að tryggja neytendum gæðavörur þar sem öryggi og rekjanleiki vöru er í fyrirrúmi. Félagið skal einnig hvetja til varðveislu hefðbundinna framleiðsluaðferða og kynningar á svæðisbundnum hráefnum og hefðum í matargerð. VOR var stofnað 1993 og er hagsmunafélag framleiðenda sem stunda lífræna ræktun eða fullvinnslu lífrænna, íslenskra afurða. /smh Þorgrímur Einar Guðbjartsson er formaður Beint frá býli. Búnaðarþing 2018 samþykkti ályktun um innkaupastefnu ríksins. Beinir þingið því til fjármálaráðuneytis að endurskoða innkaupastefnu ríkisins og lög um opinber innkaup með það að markmiði að opinberar stofnanir skuli velja innlend matvæli þar sem því er við komið. Þannig er stutt við innlenda matvælaframleiðendur og jafnframt stuðlað að minni losun gróðurhúsalofttegunda sem til falla við flutning til landsins. Búnaðarþing telur einnig að ríkið skuli kaupa þær vörur sem hafa hvað minnst umhverfisfótspor. Í greinargerð með tillögunni sem samþykkt var segir að ætlað sé að opinberar stofnanir íslenska ríkisins noti um 150 milljarða í innkaup á hverju ári og 300 milljarða ef sveitarfélög eru meðtalin. Matvara er skráð sem fimmti hæsti flokkur í rammasamningum ríkisins (Ársskýrsla Ríkiskaupa 2013–2015). Þá er bent á að í innkaupastefnu ríkisins frá 2002 sé hnykkt á atriðum sem ályktunin fjallar m.a. um: „Við innkaup skal tekið tillit til umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar og gæða. Ef vörur eru sambærilegar að öðru leyti ber að velja þá tegund sem telst síður skaðleg umhverfinu.“ Árið 2017 voru flutt inn 722 kg af matvælum á hvern Íslending. Kolefnisspor þessa flutnings veldur svipaðri losun gróðurhúsalofttegunda og öll starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur eða um 41.000 tonn af CO2 á ári (samantekt Bændablaðsins 11. janúar 2018). Þá á eftir að taka inn í myndina kolefnisspor vörunnar utan flutningsins til Íslands, þ.e. við framleiðslu og flutning fram að umskipun til Íslands. Framleiðslukostnaður matvæla er nokkuð hár hér á landi, meðal annars vegna sívaxandi launakostnaðar og þar af leiðandi kostnaðar á aðföngum bænda og ýmiss konar þjónustu svo sem eftirlits og dýralæknaþjónustu. Með nýjum tollasamningi við Evrópusambandið er opnað á mjög aukinn innflutning á matvöru næstu 4 árin og eru innfluttar vörur framleiddar undir öðrum og oftar en ekki kostnaðarminni kringumstæðum en við búum við hér á landi. Með aukinni áherslu á innlend matvæli í innkaupastefnu ríkisins er samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar styrkt. Ríkisstjórn Íslands tekur í sama streng Landbúnaðar ráð- herra kom inn á þessi mál í ræðu sinni við setningu Búnaðarþings. Þar sagði hann m.a.: „Þá er einnig ánægjulegt að greina frá því hér í dag að í síðasta mánuði var samþykkt í ríkisstjórn sú tillaga mín að setja á fót starfshóp sem fær það verkefni að móta tillögur að innkaupastefnu opinberra stofnana á sviði matvæla. Markmiðið er að lágmarka kolefnisspor matvæla og styrkja með þeim hætti innlenda framleiðslu. Með þessu eru íslensk stjórnvöld að sýna gott fordæmi og sýna í verki vilja til að stuðla að sjálfbærri matvælaframleiðslu.“ /HKr. Búnaðarþing 2018 samþykkti ályktun um innkaupastefnu ríkisins: Stefnan styðji við innlenda framleiðslu og lágmarki losun gróðurhúsalofttegunda Júlíusson.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.