Bændablaðið - 08.03.2018, Síða 26
26 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. mars 2018
Jóna Björg Hlöðversdóttir var
kjörin nýr formaður Samtaka
ungra bænda á aðalfundi 24.
febrúar síðastliðinn. Hún tekur við
af Einari Frey Elínarsyni, sem gaf
ekki kost á sér til endurkjörs.
Jóna Björg er fædd og
uppalin á bænum Björgum, rétt
vestan við Húsavík, stúdent frá
Menntaskólanum á Akureyri,
með BS-gráðu í búvísindum
frá Landbúnaðarháskólanum á
Hvanneyri og er fimmta kynslóð
bænda á bænum.
Hefðbundin og nútímaleg
hlunnindi
Að sögn Jónu Bjargar er á bænum,
sem er ysta jörð í Kinn, rekið
blandað bú; mjólkurframleiðsla og
sauðfjárrækt. „Þar eru einnig talsverð
hlunnindi eins og silungsveiði,
dúntekja og reki. Einnig má nefna
ísklifur, sem er nokkurs konar
nútíma hlunnindi, en um fimm
kílómetra klettaveggur út að sjó er
með eftirsóttustu ísklifursvæðum í
heiminum,“ segir Jóna Björg.
Kom inn í búreksturinn
um áramótin
Jóna Björg og systir hennar, Þóra
Magnea, ásamt manni hennar, Arnóri
Orra, komu inn í búreksturinn um
síðustu áramót við stofnun félagsbús
en þær höfðu í fjölda ára starfað á
búinu. Félagsbúið er nú rekið af
þeim systrum og foreldrum þeirra,
Hlöðveri Pétri og Kornínu Björgu.
„Fyrsta skrefið er alltaf erfiðast, að
verða bóndi, að eignast hlut í búskap.
Það hefur verið mesta sáluhjálpin
sem berst frá Samtökum ungra
bænda, hitta annað ungt fólk sem
stendur í sömu sporum eða hefur
verið í sömu sporum og getur veitt
góð ráð. Að því leyti hef ég alltaf
verið þakklát fyrir að þessi samtök
voru stofnuð á sínum tíma. Það er
alltaf stór hópur fólks sem er í sömu
stöðu og ég var búin að vera í í mörg
ár, að starfa sem bóndi – eða vilja
starfa við búskap – en eiga ekki
inngönguleið í félagsskap eins og
Bændasamtökin.
Það er svo gaman að vinna
við það sem stendur manni næst,
náttúruna sjálfa. Það er hlutverk
okkar bænda að skila landinu betra
af okkur en þegar við tökum við því.
Það gerir nær alla daga skemmtilega
í vinnunni.“
Hlutirnir gerast við
morgunverðarborðið
„Þeir sem þekkja okkur á Björgum
vita að hlutirnir gerast við
morgunverðarborðið, það er tíminn
þar sem málin eru rædd, teknar
ákvarðanir hvað sé fram undan. Það
hafa ekki allir sömu skoðanir, yngri
kynslóðin eða sú eldri. En við erum
öll sammála um að efla búskapinn,
bæta vinnuaðstöðuna, bæði okkar og
gripanna, efla skógrækt, endurheimta
votlendi og græða upp landið,“ segir
Jóna Björg um búskapinn á Björgum.
Rödd ungbænda þarf að heyrast
Samtök ungra bænda fagna 10 ára
afmæli á næsta ári og segir Jóna
Björg að samtökin hafi unnið
að ýmsum málum frá stofnun
samtakanna. „Þau mál sem hvað
mestu máli hafa skipt fyrir samtökin
er nýr nýliðunarstuðningur sem getur
breytt og eflt íslenskan landbúnað.
Annað stórt mál er að koma rödd
ungbænda að í umræðunni og að til
þeirra sé leitað í málum sem snerta
ungbændur – því málin eru mörg. Það
hefur því valdið ungbændum miklum
vonbrigðum þegar nýr sjávarútvegs-
og landbúnaðarráðherra skipaði
nýjan samráðshóp um endurskoðun
búvörusamninga og gengið fram
hjá ungbændum við skipun hópsins.
Þar hafði orðið breyting frá fyrri
ráðherrum sem töldu mikilvægt að
rödd ungbænda heyrðist, enda ungir
bændur þeir sem hvað lengst munu
starfa eftir nýjum búvörusamningum.
Margt sem brennur
á ungum bændum
„Það er margt sem brennur á ungum
bændum,“ segir Jóna Björg. „Þeir
erfa landið og vilja vera sem best
búnir fyrir það. Þar skiptir menntun
og umgjörð hennar gríðarlega miklu
máli. Ungir bændur vilja geta sótt
sér öfluga menntun í öfluga stofnun.
Landbúnaðarháskóli Íslands hefur
verið í miklu fjársvelti undanfarin ár
og nú er svo komið að hætt er við
manneklu þar sem eðlileg endurnýjun
hefur varla orðið á starfsfólki við
skólann. Jafnframt kom það skýrt
fram á liðnum aðalfundi hversu
mikilvægur búrekstur er við skólann,
til verklegrar kennslu og rannsókna.
Jafnframt var ályktað á fundinum
að mikilvægt væri að ungir bændur
kæmu að framtíðarstefnumörkun
fyrir íslenskan landbúnað með
það að markmiði að gera hann
umhverfisvænni, þar er horft til
landnýtingar, breytingar á þeim og ekki
síst skógrækt, sem eru stærstu þættirnir
gagnvart losun gróðurhúsalofttegunda.
Það er mikilvægt að íslenskir
bændur taki þátt í að minnka losun
gróðurhúsalofttegunda og að
uppfylla skyldur okkar í alþjóðlegum
samningum. Ungum bændum stendur
heldur ekki á sama um þá vá sem
lýðheilsu landans og búfjárkynjum
landsins gæti stafað af óheftum
innflutningi á hráum vörum eins og
kjöti og eggjum. Sýklalyfjaónæmi er
vaxandi vandamál og það er skylda
okkar að standa fast í fæturna gegn
þessari vá.“
Betra samtal við neytendur
„Neytendur kalla eftir meira af
lífrænum vörum og það er mikilvægt
fyrir okkur bændur að svara því kalli
og í framhaldi af því, að ná betra
samtali við okkar neytendur, hvað
þeir vilja og hvernig við getum
svarað þeim óskum. Það er í raun
eitt stærsta viðfangsefni okkar
bænda í dag. Hvernig við náum
betur sambandi við okkar neytendur
sem hafa jafnvel aldrei komið í sveit.
Við fundum það vel með snapchat-
verkefninu okkar (ungurbondi) að
fólk hefur áhuga. Það er því undir
okkur sjálfum komið að vinna betur
að þessum málum. Það er nefnilega
þannig að það mun enginn tala við
neytendur fyrir okkar hönd, allra síst
verslunin.
Það liggur fyrir að samtökin þurfa
að móta sér stefnu um hvert þau
vilji að verði stefnt í styrkjamálum
í landbúnaði og hvernig skuli haga
framleiðslustýringu, eða hvort hún
eigi hreinlega rétt á sér. Það eru
gríðarlega mörg verkefni sem liggja
fyrir íslenskum landbúnaði, en ég er
tilbúin að leggja mitt af mörkum, þar
sem krafta ungra bænda er óskað,“
segir Jóna Björg ungur bóndi á
Björgum og nýkjörinn formaður
Samtaka ungra bænda.
/smh
Jóna Björg Hlöðversdóttir, nýr formaður Samtaka ungra bænda, heima á Björgum. Mynd / Johannes Mair
Kýrin Skúta Kistudóttir og Ógöngufjall í bakgrunni. Mynd / Jóna Björg
Bjargir baðaðar í norðurljósum. Mynd / Johannes Mair
Jóna Björg er nýr formaður Samtaka ungra bænda:
Vilja koma að stefnumótun fyrir íslenskan landbúnað