Bændablaðið - 08.03.2018, Qupperneq 33
33Bændablaðið | Fimmtudagur 8. mars 2018
Kristján Þór Júlíusson,
sjávarútvegs- og land búnaða r-
ráðherra, veitti Land búnaðar-
verðlaunin 2018. Bændur á
tveimur bæjum hlutu verðlaunin;
Hofdalabændur á Syðri-Hofdölum
í Skagafirði og bændur í Nesi í
Höfðahverfi, Grýtubakkahreppi.
Í ræðu ráðherra kom fram
að verðlaunin væru þakklætis-
og virðingarvottur frá
landbúnaðarráðherra til bænda og
íslensks landbúnaðar. Þau hafa verið
veitt í 20 ár og alltaf við setningu
Búnaðarþings. „Verðlaunin hafa alla
tíð verið hugsuð sem viðurkenning til
aðila sem hafa með verkum sínum,
áræðni og dugnaði verið öðrum
til fyrirmyndar jafnt hvað varðar
umhirðu og góðan rekstur en jafnframt
og ekki síður hvað ytra umhverfi og
ásýnd búsins varðar. […]
Val á verðlaunaþegum er bæði
auðvelt og snúið. Fjölmargir eiga
verðlaunin skilið en fáir eru útvaldir
í hvert skipti. Samt hefur svo til tekist
að allir hafa verið sammála um að
viðkomandi verðlaunaþegar hafi átt
viðurkenninguna skilið.
Verðlaunagripirnir í ár – eins
og undanfarið – eru hannaðir og
unnir af listakonunni Sigríði Helgu
Olgeirsdóttur, steinleirsskúlptúr á
stöpli úr íslenskum þini.
Unnið er með þá hugmynd að fræið
sé eins konar tákn um upphaf einhvers
sem getur vaxið og dafnað, fái það
réttar aðstæður. Í því samhengi getur
verkið vísað út fyrir hinn hefðbundna
ramma ræktunar og staðið fyrir hvers
kyns frumkvöðlastarf og nýbreytni,“
sagði ráðherra í ræðu sinni.
Nes í Höfðahverfi
Í umsögn sem ráðuneytið hefur tekið
saman um Nes segir:
„Nes í Höfðahverfi er við
austanverðan Eyjafjörð, ríflega
30 km frá Akureyri, og tilheyrir
Grýtubakkahreppi. Ekki sést heim að
bænum frá aðalvegi en hann stendur
á sjávarbakka um 80 m frá fjörunni.
Landið liggur að sjó á milli
Fnjóskár og Hólsár. Jörðin er um 480
ha öll á láglendi, mesta hæð yfir sjó
er 32 m, og er að miklu leyti vaxin
fjalldrapa og víði.
Framan við bæinn eru miklar
grynningar og leirur; Laufásgrunn,
sem sjór fellur af á stórstraumsfjöru
og er kjöraðstaða fyrir fugla enda er
í Nesi mikið og fjölbreytt fuglalíf.
Frá bænum er víðsýnt og fjöllin
við Eyjafjörð mynda samfelldan
fjallahring.
Árið 1928 keyptu Grímur Laxdal
og Sigurdís, afi og amma Ara, Nes, en
þau höfðu áður búið sem leiguliðar á
Gautsstöðum á Svalbarðsströnd.
Jón Laxdal, sonur þeirra, fór í
bændaskólann á Hólum og hann,
ásamt konu sinni, Snjólaugu Aradóttur
frá Grýtubakka, tóku við jörðinni og
bjuggu þar til 1995.
Þá tók við búinu Ari, sonur þeirra,
sem nú býr á jörðinni ásamt Sigurlaugu
Sigurðardóttur frá Brúnastöðum í
Lýtingsstaðahreppi.
Árið 2002 var stofnað
einkahlutafélag, Helguhóll, um
rekstur búsins og er nafnið dregið af
hól sem er hæsti punktur í Neslandi.
Framan af var lengi blandað bú í
Nesi – kindur og kýr – en 1995 var
sauðfjárrækt hætt og síðan hefur verið
eingöngu kúabú í Nesi. Þá voru kýrnar
um 50 og framleiðslurétturinn um
180 þúsund lítrar. Nú eru um 90 kýr í
Nesi og framleiðslurétturinn um 550
þúsund lítrar en framleiðslan hefur
verið nokkru meiri.
Árið 1960 var byggt fjós sem tók
um 25 kýr. 1985 var fjósið stækkað í
50 bása og byggður mjaltabás og 2002
var fjósið endurbyggt í legubásafjós
fyrir 90 kýr og tekinn í notkun
mjaltaróbót og síðan annar 2008.
• Á síðasta ári var tekið í
notkun nýtt 720 fermetra
geldneytafjós með 150
legubásum.
• Á bænum eru 6 hestar,
aðallega til ánægju.
• Í Nesi eru nokkur hlunnindi
af æðarvarpi.
• Á árunum upp úr 2000
var plantað skógi í um 50
hektara í Norðurlands-
skógaverkefninu og er
sá skógur nú orðinn vel
sýnilegur, á sama tíma
var plantað talsverðu af
skjólbeltum.
• Öllum byggingum í
Nesi er vel við haldið
og snyrtimennska í allri
umgengni er til fyrirmyndar.
Framhald á næstu síðu.
Syðri-Hofdalir og Nes hlutu
Landbúnaðarverðlaunin 2018
BÚNAÐARÞING 2018
Handhafar Landbúnaðarverðlaunanna 2018. Hofdalabændur til vinstri og bændurnir frá Nesi hægra megin með
Kristjáni Þór Júlíussyni ráðherra. Mynd / HKr.
» TOLLAMÁL
Markmið
Búnaðarþing 2018 krefst
þess að ríkisstjórn Íslands og
Alþingi taki stöðu með innlendri
matvælaframleiðslu með því
að styrkja tollvernd íslensks
landbúnaðar.
Framganga og leiðir
Magntollar á búvörur verði
uppreiknaðir til verðlags dagsins
í dag. Þá verði samningum við
ESB um tollfrjálsa kvóta fyrir
landbúnaðarafurðir frá 2007 og
2015 sagt upp með vísan til breyttra
forsenda.
Enn fremur verði leitað allra
leiða til að nýta heimildir til að
leggja tolla á innfluttar búvörur sem
einnig eru framleiddar hér á landi.
Þá verði innflutt kjöt umreiknað
í ígildi kjöts með beini þegar um
beinlausar og unnar afurðir er að
ræða, við útreikninga á nýtingu
gildandi tollkvóta.
» UMHVERFISSTEFNA
LANDBÚNAÐARINS
Markmið
• Að greina stöðu umhverfismála
í íslenskum landbúnaði og setja í
framhaldinu markmiðssetta stefnu
í umhverfismálum til næstu ára.
• Að umhverfisstefnan verði
leiðarljós einstakra bænda og
búgreina sem og landbúnaðarins
alls í umhverfismálum.
• Að umhverfisstefnan verði
lifandi sáttmáli sem taki
reglulegri endurskoðun.
• Að umhverfisstefnan verði
mikilvægt verkfæri við
endurskoðun búvörusamninga
og framtíðarsamninga ríkis og
bænda.
• Að umhverfisstefnan verði
mikilvægt verkfæri til
markaðssóknar landbúnaðarvara
á íslenskum markaði.
Leiðir
Skipa starfshóp bænda úr ólíkum
búgreinum undir forystu BÍ með
aðkomu sérfræðinga og ráðgjafa
sem haldi áfram þeirri vinnu sem
starfshópur sem skipaður var á
síðasta Búnaðarþingi hefur unnið að.
» SKÓGRÆKT TIL
FRAMTÍÐAR
Markmið
Að Ísland verði sjálfbært um
timbur, og skógrækt verði stöndug
atvinnugrein sem stuðli að eflingu
alls landbúnaðar. Skógrækt er
árangursrík leið til bindingar kolefnis
úr andrúmsloftinu.
Leiðir og framgangur
Nýta má fjármagn strax í dag t.d. við
undirbúning lands, umhirðu skóga
og skipulagningu. Með fjórfaldri
aukningu fjármagns til skógræktar er
hægt að koma til móts við alþjóðlega
loftslagssamninga, efla atvinnu og
styrkja búsetu á landsbyggðinni og
verða sjálfbær um viðarframleiðslu.
Bændasamtök Íslands (BÍ), ásamt
Landssamtökum skógareigenda
(LSE), hefji viðræður við
landbúnaðarráðherra um að stórauka
skógrækt á lögbýlum á Íslandi.
» RANNSÓKNIR Á LOSUN
OG BINDINGU KOLEFNIS Í
ÍSLENSKRI NÁTTÚRU
Markmið
Auka þekkingu á kolefnisbindingu og
losun í íslenskri náttúru.
Leiðir og framgangur
Að auka innlendar rannsóknir í
málaflokknum þannig að þau markmið
um kolefnisbindingu sem stefnt er að
náist á sem hagkvæmastan hátt. Stjórn
BÍ er falið að vinna að framgangi
málsins í samvinnu við stjórnvöld.