Bændablaðið - 08.03.2018, Page 38
38 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. mars 2018
AUÐLINDIR&UMHVERFISMÁL
Heimajarðgerð:
Besta mold sem völ er á
Ánamaðkar eru bestu vinir garðeigandans.
Áhugi á jarðgerð hefur aukist
mikið og margir garð- og
sumarhúsalóðaeigendur eru með
safnhaug í þeim tilgangi að nýta
lífrænan úrgang sem fellur til úr
eldhúsinu og garðinum.
Góð safnhaugamold er besta
mold sem hægt er að fá og fólk ætti
hiklaust að stunda jarðgerð ef það
hefur aðstöðu til.
Ýmsar aðferðir eru þekktar þegar
kemur að jarðgerð og mismunandi
hver þeirra hentar á hverjum stað.
Algengast er að garðeigendur komi
sér upp einum eða fleiri kössum fyrir
lífrænan úrgang og hann sé látinn
jarðgerast í þeim. Hægt er að velja
á milli þess að kassinn sé einfaldur,
eða lokaður og einangraður.
Jarðgerð í einföldum kassa kallast
köld jarðgerð en heit í lokuðum og
einangruðum kassa og gengur sú
mun hraðar fyrir sig.
Staðsetning jarðgerðar
Staðsetning safnkassa ræðst
af skipulagi garðsins en koma
þarf kassanum fyrir á hlýjum og
skjólgóðum stað þar sem auðvelt er
að komast að honum. Kassinn þarf
að standa á möl eða moldarjarðvegi
og gott er að setja greinar í botninn
þannig að jarðvegsdýr eigi auðveldan
aðgang upp í hann.
Hvað má og má ekki fara í
kassann?
Til jarðgerðar í opnum kassa má nota
flest sem fellur til úr garðinum, fyrir
utan rótarillgresi eins og húsapunt,
skriðsóley og túnfífil, eða illgresi
eins og krossfífil og dúnurtir
sem hæglega geta þroskað fræ í
safnhaugnum. Nýslegið gras, ekki
meira en 20%, lauf, smáar greinar,
barr, visnuð blóm og þurrt hey má
allt fara í safnhauginn.
Lokuð jarðgerðartunna hentar
betur fyrir úrgang úr eldhúsinu
í tunnuna má setja salat og kál,
rótargrænmeti, hýði af ávöxtum
og kartöflum, eggjaskurn, brauð,
te- og kaffikorg, eldhúspappír,
fisk- og kjötafganga. Varast skal að
setja fisk- og kjötafganga í opinn
safnhaug þar sem slíkt getur laðað
að sér óæskileg nagdýr.
Best að blanda öllu saman
Þegar lagt er af stað með jarðgerð er
gott að setja um 15 sentímetra lag
af misgrófum greinum í botninn á
kassanum og mikið af þurru efni, til
dæmis heyi, í neðsta lagið. Best er
að hafa úrganginn sem fer í kassann
sem smágerðastan og hræra öllu vel
saman. Ef ekki er hægt að hræra í
kassanum þarf að fylla á hann í
þunnum lögum og gott er að setja
mold eða þurran garðaúrgang á milli
laga.
Auka má loftun í kassanum
með því að stinga í hann með
stungugaffli af og til. Til að flýta
fyrir jarðgerðinni er gott að sáldra
gamalli, fíngerðri moltu eða þurru
hænsnadriti á milli laga.
Þumalfingursreglan segir að ef
sett sé í kassann ein fata af grænmeti
skuli setja með 1/3 af þurru efni, til
dæmis heyi. Komi sterk rotnunarlykt
úr kassanum er efnið í honum líklega
of blautt. Yfirleitt er nóg að blanda
þurru heyi eða sagi í innihald hans
til að laga þetta.
Við aðstæður sem þessar ætti
jarðgerðin að taka 8 til 10 mánuði
í lokuðum einangruðum kassa
en nokkrum mánuðum lengur í
einföldum óeinangruðum kassa
eða tunnu.
Lífið í jarðgerðinni
Til þess að jarðgerðin eigi sér stað
er þrennt sem þarf að koma til.
Vatn, súrefni og hiti. Örverurnar
sem umbreyta efninu í kassanum
í jarðveg þurfa vatn svo að
lífsstarfsemi þeirra sé eðlileg. Of
mikið vatn getur aftur á móti hægt
á starfseminni þar sem það dregur
úr súrefni sem er einnig nauðsynlegt
svo að niðurbrot geti átt sér stað. Við
jarðgerðina myndast hiti og hann
örvar niðurbrotið enn frekar.
Hæfilegt rakastig í kassanum
er þegar efnið er eins og blautur
svampur viðkomu eða með 50 til
60% raka. Fari rakastigið niður fyrir
30% stöðvast starfsemi örveranna og
jarðgerðin hættir.
Ef vel tekst til við jarðgerðina
safnast í kassann ógrynni af
jarðvegslífverum, ánamaðkar,
járnsmiðir, þúsundfætlur og
grápöddur sem aðstoða við og flýta
fyrir niðurbrotinu.
Besta mold í heimi
Vel heppnuð safnhaugamold er
besta mold sem hægt er að hugsa
sér. Hún er iðandi af lífi, full af
næringarefnum og lífrænum efnum
á mismunandi stigi moltnunar.
Nota má safnhaugamold til að
auka frjósemi garðsins með
því að dreifa henni yfir beð eða
grasflötina í þunnu lagi. Hún er
einnig tilvalin með þegar settar eru
niður hvers konar plöntur. Í öllum
tilvikum verður að blanda moltu eða
safnhaugamold saman við moldina
sem fyrir er. /VH
Jarðgerð
• Komið jarðgerðarkassanum fyrir á skjólgóðum stað. Undirlagið
á að vera gras eða möl svo að ánamaðkar eigi greiða leið upp
í kassann.
• Aðgengi að jarðgerðarkassanum þarf að vera gott svo auðvelt
sé að setja í hann lífrænar leifar. Einnig þarf að vera þægilegt
að tæma kassann.
• Setja þarf gróft efni eins og greinar í botninn til að auka loft-
streymi.
• Lífrænar leifar eiga að vera eins sundurtættar,marðar og
smágerðar og kostur er og blanda þarf efninu eins vel saman
og mögulegt er.
• Súrefni er forsenda niðurbrots og því nauðsynlegt að lofta um
safnkassann reglulega.
• Til að auka loftstreymi er gott hræra við honum af og til með
stungugaffli.
• Ekki setja kjöt- eða fiskúrgang í opna safnkassann. Það dregur
að mýs og rottur.
• Jarðgerð getur tekið nokkra mánuði og upp í ár, allt eftir
aðstæðum.
Lífverur í jarðvegi
• Ánamaðkar, járnsmiðir og margfætlur eru líklega þær jarðvegs-
lífverur sem flestir þekkja. Í jarðvegi er fjöldi annarra smásærra
lífvera eins og stökkmor og þráðormar. Mestur fjöldi lífvera er í
efstu 5 til 10 sentímetrunum. Auk sveppa og baktería sjá þessar
lífverur um að brjóta niður lífrænan úrgang og stuðla þannig að
aukinni frjósemi jarðvegsins.
Þriggja hólfa opin jarðgerð.
Trékassi með garðaúrgangi.
Einföld jarðgerðartunna úr plasti.