Bændablaðið - 08.03.2018, Page 48
48 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. mars 2018
Gin- og klaufaveiki hafa flestir
heyrt um og mörgum er í fersku
minni gífurlega stór faraldur
veikinnar í Bretlandi árið 2001.
- En hvers konar sjúkdómur
er þetta og af hverju er svona
mikilvægt að verjast honum?
Gin- og klaufaveiki er
veirusjúkdómur sem leggst á
klaufdýr, t.d. nautgripi, svín, sauðfé
og geitur. Sjúkdómseinkenni eru
blöðrur og sár í munni, nösum,
spenum og fótum.
Sjúkdómurinn er bráðsmitandi
þannig að mörg dýr veikjast. Aftur
á móti veldur sjúkdómurinn oftast
ekki dauða nema hjá ungviði. En
dýrin þjást mikið í þá 8-15 daga
sem einkennin vara. Þau eiga erfitt
með að éta og geta því horast niður,
nyt fellur og hætta er á ýmsum
fylgikvillum, svo sem júgurbólgu
og fósturláti. Sjúkdómurinn hefur
því alvarleg áhrif á dýravelferð
og veldur dýraeigendum jafnframt
miklu fjárhagslegu tjóni.
Mörg lönd í heiminum eru
laus við gin- og klaufaveiki og til
að halda þeirri stöðu er gripið til
niðurskurðar þegar sjúkdómurinn
kemur upp. Aðgerðir til upprætingar
sjúkdómsins geta verið gífurlega
kostnaðarsamar vegna þess hversu
hratt sjúkdómurinn breiðist út.
Alvarlegustu fjárhagslegu
afleiðingar sjúkdómsins fyrir lönd
sem byggja mikið á útflutningi
landbúnaðarafurða er lokun
útflutningsmarkaða.
Smitleiðir gin- og klaufa-
veikiveirunnar eru margvíslegar.
Veiran er harðger og getur
auðveldlega borist milli landa með
lifandi dýrum, búfjárafurðum, fólki
og ýmis konar varningi. Þegar
sjúkdómurinn hefur komið upp í
landi þar sem hann hefur ekki verið
áður til staðar eða verið útrýmt, er
algengt að smitið sé rakið til þess að
dýr hafi verið fóðruð með matvælum
sem ekki hafa fengið fullnægjandi
hitameðhöndlun.
Námskeið EuFMD
Ísland er aðili að undirstofnun
Matvæla öryggisstofnunar Sam-
einuðu þjóðanna (FAO) sem nefnist
EuFMD (European Commission
for the control of Foot-and-Mouth
Disease). Hún var stofnuð árið
1954 í því skyni að útrýma gin-
og klaufaveiki í Evrópu. Nú er
staðan sú að af Evrópulöndum er
sjúkdómurinn aðeins landlægur í
Tyrklandi og Rússlandi, en hann er
aftur á móti til staðar víða í Asíu
og Afríku.
Megináherslur stofnunarinnar nú
eru því að aðstoða Evrópulönd við
að viðhalda stöðunni og jafnframt að
aðstoða önnur lönd í heiminum við
að stemma stigu við sjúkdómnum
eða útrýma honum. Það er gert með
ýmsu móti, m.a. rannsóknum og
öflugu fræðslustarfi.
Sem aðildarríki að EuFMD, gefst
Íslandi tækifæri á að senda fagfólk á
námskeið stofnunarinnar. Í nóvember
síðastliðnum tók undirrituð þátt í
námskeiði sem haldið var í Kenía.
Á námskeiðinu var áhersla lögð á
þjálfun í aldursgreiningu einkenna,
sem er mjög mikilvægur liður í að
áætla hvenær smitið barst fyrst á
búið. Jafnframt var farið ítarlega í
þjálfun í smitvörnum, sem og öflun
og úrvinnslu faraldsfræðilegra
upplýsinga.
Á kúabúinu sem heimsótt var
voru um 180 gripir og um 20%
þeirra voru veikir. Þegar einkennin
uppgötvuðust fyrst var gripið til
þess ráðs að bólusetja alla gripina
og aðskilja þá sem voru veikir frá
hinum. Flestir gripir ná sér á innan
við tveimur vikum en sömu gripir
geta sýkst aftur síðar og bólusetning
dugar ekki nema í sex mánuði. Það
er því mikils um vert að koma í veg
fyrir að smitið berist inn á búið á ný,
en til þess þarf samstillt átak allra
búfjáreigenda í nágrenninu.
Smitvarnir á námskeiðinu í
Kenía voru miklar. Allt sem ekki
var hægt að þvo með sápuvatni og
sótthreinsa í sítrónusýrublöndu, var
skilið eftir á búinu. Myndirnar sem
fylgja þessari grein voru teknar á
vatnshelda myndavél sem var þvegin
og sótthreinsuð á þennan hátt og
þeir símar sem teknir voru inn á
búið voru í vatnsheldum hulstrum.
Myndir voru teknar af þeim blöðum
sem upplýsingar voru skrifaðar á
og blöðin síðan skilin eftir á búinu.
Þegar heim á hótelið var komið voru
öll föt sett í sítrónusýrublöndu og
síðan í þvott, og öllum var skylt
að fara í sturtu. Þetta er talið upp
hér í þeim tilgangi að varpa ljósi á
hversu margt þarf að hugsa út í við
smitvarnir, sér í lagi þegar um svo
harðgera veiru er að ræða.
Staðan hér á landi
Gin- og klaufaveiki hefur aldrei
komið upp á Íslandi en veiran
getur auðveldlega borist til
landsins og því er mjög mikilvægt
að ýtrustu smitvarna sé gætt á
öllum vígstöðvum. Annars vegar
þarf reyna að koma í veg fyrir að
smitefnið berist með fólki og vörum
frá löndum þar sem sjúkdómurinn
er til staðar, og hins vegar þurfa
bændur að tryggja eins og kostur
er að smit berist ekki inn á þeirra
bú. Við búum svo vel hér á landi
að bannað er að flytja inn lifandi
dýr, sem væri annars áhættusamasti
innflutningurinn hvað þetta smitefni
varðar, sem fjölmörg önnur.
Búfjárafurðir eru líka varasamar,
sér í lagi óhitameðhöndlaðar, svo og
ýmis konar notuð landbúnaðartæki
og búnaður. Fólk getur líka borið
veiruna með sér á eigin líkama og
fatnaði.
Aldrei verður hægt að tryggja
fullkomlega að gin- og klaufaveiki
berist ekki til landsins og því
þurfa allir sem að málum koma
að vera viðbúnir því að bregðast
rétt við ef það gerist. Aðalatriði
er að dýraeigendur og dýralæknar
séu vakandi fyrir einkennum
og tilkynni án tafar um grun til
Matvælastofnunar. Stofnunin vinnur
þá eftir viðbragðsáætlun sem er hluti
af gæðahandbók og allir geta kynnt
sér á heimasíðu stofnunarinnar
www.mast.is.
Auður Lilja Arnþórsdóttir,
sóttvarnadýralæknir hjá
Matvælastofnun.
...frá heilbrigði til hollustu
Gin- og klaufaveiki
Veik kýr. Blöðrur og sár í kjafti.
Sár á spena.
Sýnatökur.
Smitvarnir.