Bændablaðið - 08.03.2018, Blaðsíða 49
49Bændablaðið | Fimmtudagur 8. mars 2018
SKÓGRÆKT&LANDGRÆÐSLA
Skógrækt er mikilvægur hluti af
framlagi Íslands til loftslagsmála
Í síðasta tölublaði Bændablaðsins
velti Anna Guðrún Þórhallsdóttir,
prófessor við Landbúnaðar-
háskóla Íslands, þeirri spurningu
upp hvort skógrækt væri rétt
framlag Íslands til loftslagsmála.
Þar snertir hún ýmsa áhugaverða
þætti og undirstrikar hversu
mikilvægt sé að horfa heildstætt
á skógrækt sem loftslagsaðgerð.
Þetta er hverju orði sannara enda
hafa allar breytingar á landnotkun
í för með sér loftslagsáhrif og afar
mikilvægt að einblína ekki á einn
þátt heldur kanna heildaráhrifin.
Samanlögð áhrif skóga á náttúru
jarðar og lofthjúpinn þarf einmitt að
skoða í samhengi loftslagsmálanna.
Bæði þarf að minnka losun og binda
sem mest af því kolefni sem við
höfum þegar losað út í andrúmsloftið.
Gögn úr verkefninu Íslenskri
skógarúttekt sýna að ræktaðir skógar
á Íslandi binda árlega að meðaltali
nálægt tíu tonnum af koltvísýringi á
hverjum hektara í trjám og jarðvegi.
Skógur sem ræktaður er á snauðu
landi, rofnu landi, framræstu landi
eða auðnum stöðvar auk þess þá
losun sem stafaði af landinu áður en
skógræktin hófst. Skógurinn eykur
almenna grósku og eflir lífríki. Þau
áhrif ná langt út fyrir skóginn.
Mælingar sýna að nytjaskógur
hefur mun meiri jákvæð loftslagsáhrif
en friðaður skógur. Ef skógur í
vexti er friðaður bindur hann mikinn
koltvísýring allt þar til hann hefur
náð ákveðnum aldri. Þegar trén verða
gömul hægir á vextinum, tré taka að
drepast og á endanum verður jafnvægi
milli lífs og dauða, jafnmikið losnar
við rotnun og binst við ljóstillífun.
Í sjálfbærum nytjaskógi er stöðug
binding og loftslagsáhrifin eru
tvíþætt. Kolefni binst í nýjum viði
sem myndast og ef nytjaviðurinn er
nýttur í stað ósjálfbærra jarðefna úr
olíu og kolum dregur úr nettólosun.
Í því lífhagkerfi sem senn tekur við
af olíuhagkerfinu er hverri þjóð
dýrmætt að eiga nægilega mikið af
aðalhráefni lífhagkerfisins, timbri.
Það verður notað í allt sem olía er
notuð í nú en einnig í stórauknum
mæli við mannvirkjagerð, til dæmis
í háhýsi framtíðarinnar.
Rannsóknir á endurskini sólarljóss
En víkjum þá að meginefni greinar
Önnu Guðrúnar, endurskini sólarljóss
frá landi. Einn þeirra þátta sem taka
þarf með í reikninginn þegar opnu
landi er breytt í skóg er einmitt
endurskin (e: albedo) sem er
mælikvarði á getu tiltekins yfirborðs
til að endurkasta geislum sólar. Líkt og
Anna Guðrún bendir á hafa á síðustu
árum birst nokkrar vísindagreinar sem
benda til að skógrækt á norðlægum
breiddargráðum (norðan við 40°N)
geti aukið á hlýnun jarðar á þann
hátt að dökkt yfirborð skóga gleypi
í sig meiri varma en skóglaus svæði.
Hér er einkum litið til vetrarins og
vísað til svæða sem þá væru hulin
snjó.
Vert er að benda á að flestar
þessar rannsóknir byggjast á notkun
hermilíkana en eru ekki raunverulegar
mælingar á endurskini.4 Hermilíkön
byggjast á settum forsendum. Þegar
skoðaðar eru forsendur þeirra
líkana sem hér um ræðir sést að í
flestum þeirra er gert ráð fyrir því
að snjóþekja sé samfelld frá því
snemma að hausti og talsvert fram
á sumar auk þess sem horft er á
mjög stóra, samfellda og einsleita
skóga á norðlægum breiddargráðum.
Mikilvægt er að velta fyrir sér hvort
þessar forsendur gildi um Ísland.
Hafrænt loftslag, stopul snjóþekja
á láglendi og hlutfallslega lítil og
dreifð skógarþekja bendir ekki
til þess að hægt sé að yfirfæra
forsendur umræddra hermilíkana
beint á íslenskar aðstæður. Á vef
Veðurstofunnar má sjá að í Reykjavík
eru að meðaltali 275 dagar á ári
alauðir og á Akureyri eru þeir 219.
Snjóhulan er mest í febrúarmánuði
í Reykjavík en í janúar á Akureyri.
Þessa tvo mánuði er inngeislun sólar
einmitt lítil hér á landi.
Inngeislun frá sólinni er
drifkraftur þeirra ferla sem eiga
sér stað í vistkerfinu og er beinn
mælikvarði á endurskin yfirborðs.
Á okkar norðlægu breiddargráðu er
inngeislun mest að vori og fram eftir
sumri en aftur á móti lítil að hausti og
enn minni yfir háveturinn en það er
einmitt sá tími sem við getum gert ráð
fyrir að snjór sé á jörðu. Þetta gerir
að verkum að tímabilin vor og sumar
skipta mestu máli þegar skoðað er
endurskin á Íslandi.
Lítið sem ekkert er til af
mælingum á endurskini hér á
landi. Á Fagráðstefnu skógræktar
í Hörpu í mars 2017 voru
kynntar frumniðurstöður úr
rannsóknarverkefni um endurskin en
verkefnið hófst árið 2012 og var unnið
í samstarfi nokkurra ríkisstofnana.
Markmið verkefnis ins var að mæla
endurskinshæfni fjögurra ólíkra
gróðurlenda (sandauðna, uppgrædds
lands, náttúrulegra birkiskóga og
gróðursettra barrskóga) og leggja
um leið mat á kolefnisbindingu
þessara svæða með það markmið
að skoða heildarloftslagsáhrifin. Í
öllum gróðurlendunum vex gróður
við svipuð veðurfarsskilyrði sem
tryggir að þau séu samanburðarhæf.
Sandauðnir „verstar“ fyrir
loftslagið
Rannsóknin fór fram á Suðurlandi, í
Þjórsárdal, og mælingar á endurskini
stóðu yfir frá 2012 til ársins 2017.
Nú er unnið úr gögnunum og
von á niðurstöðum innan tíðar.
Frumniðurstöður gefa þó til kynna
að yfir hásumarið hafi sandauðnin
lægsta endurskinið, drekki í sig
mesta hitann. Að vori og hausti
hefur graslendið lægsta endurskinið
en að vetri er endurskinið lægst
frá náttúrulega birkiskóginum. Í
heild má því draga þá ályktun að
skógarvistkerfin tvö hafi lægsta
endurskinið að vetri til, en hin tvö
vistkerfin hafi lægra endurskin á
vorin, sumrin og haustin.
Þegar kolefnisbinding þessara
svæða er tekin með í dæmið er
greinilegt að svartar sandauðnir á
Íslandi bæði gleypa í sig mikinn
hita yfir sumarið og þar verður engin
kolefnisbinding. Þær hafa því í raun
tvöföld neikvæð áhrif á hlýnun jarðar
og það að láta þær standa óhreyfðar
hefur sennilega „verstu“ áhrifin
á hlýnun jarðar. Á öllum hinum
svæðunum fer fram kolefnisbinding
um vaxtartímann, með jákvæðum
loftslagsáhrifum.
Losun vegna jarðvinnslu
skammvinn
Í grein sinni fjallar Anna Guðrún um
losun koltvísýrings vegna jarðrasks
við undirbúning lands til skógræktar.
Fullyrt er að skógræktarsvæði losi
í raun koltvísýring fyrstu 10-30
árin og eftir það megi fyrst tala
um eiginlega kolefnisbindingu.
Í því sambandi er rétt að benda
á tölur úr rannsóknarverkefni
sem unnið var á árunum 2003-
2006. Iðufylgnimælingar á
kolefnisjöfnuði ungs lerkiskógar
á Austurlandi sýndu að einungis
ellefu árum eftir jarðvinnslu og
gróðursetningu nam bindingin í
vistkerfinu 7,2 tonnum CO2/ha á
ári.
Önnur innlend iðufylgni-
rannsókn sýndi einnig jákvæðan
kolefnisjöfnuð í sjö ára gömlum
asparskógi á Suðurlandi. Þar
reyndist bindingin í vistkerfinu
vera 3,7 tonn CO2/ha á ári. Þessar
innlendu niðurstöður benda ekki til
þess að eiginlegt kolefnistap verði
nema allra fyrstu árin eftir jarðrask
og gróðursetningu. Svo virðist vera
sem losun vegna jarðvinnslu sé fljótt
jöfnuð út með þeirri bindingu sem
verður bæði í jarðvegi, botngróðri
og trjám. Þegar land er tekið til
skógræktar hérlendis felur það í
flestum tilfellum í sér beitarfriðun
sem þýðir að lífmassi botngróðurs,
og þar með kolefnisbinding hans,
eykst fyrstu árin. Eftir því sem
trén vaxa upp minnkar hlutdeild
botngróðursins en kolefnisbinding
trjánna eykst. Þessar niðurstöður
eru í góðu samræmi við margar
aðrar erlendar niðurstöður.
Í ljósi frumniðurstaðna
endurskins mælinga hérlendis er
óhætt að fullyrða að skógrækt á
Íslandi sé góð og skilvirk leið til að
vinna gegn loftslagsbreytingum. Í
raun ætti keppikefli okkar að vera
að breyta sem mestu af svörtu
sandauðnunum okkar í skóg,
bæði til að auka endurskin og
kolefnisbindingu. Um leið og við
bindum kolefni, aukum endurskin
og drögum úr sandfoki byggjum
við upp auðlind sem getur með
tímanum minnkað innflutning
á timbri, olíu og ýmsum öðrum
mengunarvöldum og bætt með því
hagvarnir þjóðarinnar. Svarið er
því: Já, skógrækt er rétt framlag
Íslands til loftslagsmála.
1. Arnór Snorrason, óbirt gögn
2. Lundmark m.fl., Forests
(2014), 5(4): 557-578
3. Braun m.fl., Carbon
Management (2016) 7,5-6:
271-283
4. Bala m.fl., PNAS 104 (16),
6550-6555 (2007)
5. Lee m.fl., Nature 479: 384-
387 (2011)
6. Mykleby m.fl., Geophys. Res.
Lett., 44: 2493-2501 (2017)
7. 7 www.vedur.is
8. Brynhildur Bjarnadóttir
og Bjarni D. Sigurðsson,
erindi á Fagráðstefnu
2017. http://www.skogur.
is/media/fagradstefna-
skograektar-2017/
Brynhildur-Bjarndottir.pdf
9. Brynhildur Bjarnadóttir,
óbirt gögn
10. Bjarnadóttir m.fl., Tellus
(2007), 59B, 891-899
11. Bjarnadóttir m.fl.,
Biogeosciences (2009), 6,
2895-2906
12. Valentini m.fl., Nature
(2000), 404 (6780): 861-5
13. Hyvönen m.fl., New Phytol.
(2007), 173, 463-480
Dr. Brynhildur Bjarnadóttir,
lektor við Háskólann á Akureyri
Dr. Aðalsteinn Sigurgeirsson,
fagmálastjóri Skógræktarinnar
Pétur Halldórsson,
kynningarstjóri Skógræktarinnar
Skógur sem ræktaður er á snauðu landi, rofnu landi, framræstu landi eða auðnum stöðvar þá losun sem stafaði
af landinu áður en skógræktin hófst. Jafnvel þótt stundum sé jarðunnið fyrir gróðursetningu trjáplantna eru
loftslagsáhrif jarðvinnslunnar skammvinn og mælingar á 11 ára lerkiskógi á Héraði hafa sýnt að þá var bindingin
/ha á ári.
LAND TIL RÆKTUNAR
Landgræðsla ríkisins auglýsir til leigu óbrotið
land til ræktunar í Gunnarsholti í Rangárþingi ytra.
Leiguverð er samkvæmt gjaldskrá Landgræðslunnar.
Umsóknir skal senda á netfangið reynir@land.is og er
umsóknarfrestur til 10. apríl næstkomandi.
Nánari upplýsingar veita Reynir Þorsteinsson, í síma 892-1347
eða hjá reynir@land.is.
Dr. Brynhildur Bjarnadóttir. Dr. Aðalsteinn Sigurgeirsson. Pétur Halldórsson.