Fréttablaðið - 21.05.2020, Blaðsíða 12
Ísland hefur gengið undir ýmsum nöfnum í gegnum tíðina. Rúmlega þrjú hundruð árum fyrir Krist sigldi norður í höf gríski land-könnuðurinn Þýþeas og kom hann að landi sem umlukið var hafís og gaf því nafnið Thule. Þótt ekki sé sannað að um Ísland hafi
verið að ræða breiddist nafnið Thule út og má finna
það á ýmsum Íslandskortum frá miðöldum. Síðar
komu hingað til lands írskir einsetumenn, Papar, en
hvaða nafn þeir gáfu Íslandi hefur ekki varðveist í
heimildum. Landnámsmaðurinn Naddoddur kom til
Austfjarða frá Færeyjum og sá snævi þakin föll. Hann
sneri aftur og gaf landinu nafnið Snæland. Næstur
mætti til landsins hinn sænski Garðar Svavarsson og
sigldi í kringum landið áður en hann hafði vetursetu
á Húsavík. Einnig hann fékk heimþrá og í Svíþjóð
kallaði hann landið Garðarshólma í höfuðið á sjálfum
sér. Hinn norski Flóki Vilgerðarson fékk síðar fregnir
af þessum Íslandsferðum kollega sinna. Hann notaði
hrafna til þess að finna landið og fékk því viðurnefnið
Hrafna-Flóki. Settist hann að í Vatnsfirði á sunnan-
verðum Vestfjörðum. Þar reyndist veiði frábær um
sumarið og gleymdi hann því að sinna heyskap.
Veturinn reyndist kaldur og drápust allar skepnur
hans. Gekk hann þá í þungum þönkum upp á nálægt
og formfagurt fjall, Lómfell (752 m) en það liggur upp
af Vatnsfirði og kalla margir heimamenn það Lónfell.
Sá hann þá ofan í Arnarfjörð fullan af ísjökum, og
nefndi því landið Ísland, nafn sem átti eftir að festast
í sessi. Lómfell er því sannkallaður skírnarfontur
Íslands. Vonsvikinn sneri Hrafna-Flóki aftur til
Noregs og taldi hann að nafngiftin Ísland ætti eftir að
verða öðrum víti til varnaðar – ósk sem ekki átti eftir
að rætast.
Ganga á Lómfell er frábær upplifun, enda útsýnið
af hátindinum frábært. Þar sést yfir Arnarfjörð og
stóran hluta Vestfjarðakjálkans, en einnig Vatns-
fjörð og eyjarnar á Breiðafirði. Í fjarska blasir síðan
gjörvallt Snæfellsnesið við með Ljósufjöllum, Hel-
grindum og sjálfum Snæfellsjökli. Þetta er hvorki
löng ganga né erfið en frá veginum milli Vatns- og
Arnarfjarðar liggur merkt gönguleið á tindinn. Tekur
innan við tvær klukkustundir að ná tindinum
en efst er stórgrýtt. Þetta er einnig frábær
fjallaskíðaleið síðla vors þegar vegurinn
upp úr Vatnsfirði yfir Dynjandisheiði
hefur verið opnaður. Í sömu ferð má
ganga á Hornatær, en þær eru hinum
megin við veginn í suðvestur og ekki
síður tilkomumiklar en brattari en
Lómfell.
Skírnarfontur
Íslands
Ofan af Lómfelli er frábært útsýni. Hér er horft í suður yfir Vatnsfjörð og eyjarnar á Breiðafirði. Í baksýn sést í fjöllin á Snæfellsnesi. MYND/ÓMB
Lómfell séð af
Ýsufelli sem er
nyrst Hornatáa.
Dýjamosi í for-
grunni. MYND/TG
Lómfell er fagurt fjall sem sést víða að. Það er skiljanlegt að Hrafna-Flóki hafi valið það sem útsýnisstað. MYND/TG
Tómas
Guðbjartsson
hjartaskurð-
læknir og
náttúruunnandi
og Ólafur Már
Björnsson
augnlæknir og
ljósmyndari.
2 1 . M A Í 2 0 2 0 F I M M T U D A G U R12 F R É T T I R ∙ F R É T T A B L A Ð I Ð