Spássían - 2011, Blaðsíða 5
5
Háskóli Íslands Háskólatorgi S. 570 0777 - Háskólinn í Reykjavík Sólinni Nauthólsvík S. 599 6469 boksala@boksala.is
www.boksala.is
Handrit í kistli
Eftir Helgu Birgisdóttur
SAGA Franskrar svítu eftir Iréne Némirovsky er jafn
spennandi og skáldsagan sjálf. Némirovsky var úkraínsk
að uppruna en bjó lengi í París frá 1919, þar sem hún gat
sér gott orð sem skáldsagnahöfundur. Hún var gyðingur
og þurfti í seinna stríði að flýja borgina ásamt fjölskyldu
sinni og settist að í litlu frönsku þorpi. Þar skrifaði hún
Franska svítu með agnarsmáu letri í litlar minniskompur.
Þann 13. júlí árið 1942 var Irène Némirovsky handtekin.
Hún var síðan flutt til Auschwitz þar sem hún lést 17. ágúst
sama ár. Minniskompurnar rötuðu í ferðakistla dætra
Némirovsky, þeirra Denise og Élisabeth. Þarna lúrði sagan
áratugum saman og það var ekki fyrr en Denise var orðin
fullorðin sem hún vélritaði síðasta verk móður sinnar og
skáldsagan kom út á frummálinu, frönsku, árið 2004.
Frönsk svíta átti að vera sagnabálkur og innihalda fimm
sögur. Némirovsky náði þó aðeins að klára tvær, Júnístorm
og Blíðu, og þessar sögur lýsa ástandinu í Frakklandi um
og eftir innrás Þjóðverja sumarið 1940. Júnístormur hefst
4. júní 1940, þegar þýskar hersveitir undirbúa innrás í
París og seinni sögunni lýkur 1. júlí 1941 þegar flestar
hersveitir Þjóðverja yfirgáfu Frakkland til að ganga til liðs
við þær sveitir sem hugðust ráðast á Sovétríkin.
Í Júnístormi leggja Parísarbúar á flótta. Í borginni ríkir
ringulreið, ótti og örvænting. Lestir eru troðfullar og það
er skortur á bæði bensíni og mat. Némirovsky fer þá leið
að segja sögu Parísarbúa með því að einblína á nokkra
ákaflega ólíka einstaklinga og sjónarhornið færist á milli
þeirra. Í einum kafla sjá lesendur meira að segja tilveruna
út frá sjónarhorni heimiliskattar. Undir lok sögu gefast
Frakkar upp fyrir Þjóðverjum og þeir Parísarbúar sem
geta og vilja hökta heim þar sem þeirra bíður útlendur
her og erfiður vetur.
Í Blíðu er lýst hersetu Þjóðverja í þorpinu Bussy. Þar eru
allir ungir menn horfnir – ýmist dánir eða í fangelsi. Eftir er
gamalt fólk, konur og börn og það er þetta fólk sem þarf
að taka á móti þýsku hermönnunum og láta þeim heimili
sín eftir. Tilfinningar togast á í brjóstum íbúa þorpsins sem
sakna hins gamla lífs en neyðast þó til að aðlagast nýjum
og breyttum veruleika. Sögunni lýkur þegar hermennirnir
leggja af stað til Moskvu.
Frönsk svíta er tæplega hálfklárað verk og því margir
endar sem á eftir að hnýta, margar spurningar sem enn
brenna á lesendum. Það er margt ógert en það sem er
gert er gott þótt stíllinn sé helst til orðmargur og sums
staðar mætti skera niður. Sagan minnir á hinar stóru miklu
rússnesku skáldsögu nítjándu aldar enda hafði Némirovsky
gert sér í hugarlund að Frönsk svíta yrði eins konar Stríð
og friður hennar tíma. Það er vel þess virði að lesa Franska
svítu. Það er þó líklega ekki síður saga rithöfundarins og
handritsins sem heillar, en í formála bókarinnar er hægt
að fræðast um ævi, störf og örlög höfundar og í viðauka
eru athugasemdir Némirovsky úr minnisbókum hennar, svo
og bréfaskriftir.
Hátæknilegir
rafmagnsflugnaspaðar
og friður á jörð
Bryndís Björgvinsdóttir. Flugan sem stöðvaði stríðið.
Fróðleg bók um húsflugur og stríð fyrir stórar manneskjur
og litlar. Vaka-Helgafell. 2011.
Eftir Helgu Birgisdóttur
FLUGAN sem stöðvaði stríðið er 27. bókin sem hlýtur
Íslensku barnabókaverðlaunin og flytur, eins og svo til allar
verðlaunabækurnar, fallegan boðskap og mikilvægan
lærdóm til ungra lesenda. Langflestar þessara bóka
fjalla um mennsk börn þótt ýmsar furðuskepnur dansi
um síður sumra bókanna. Ég held mér sé þó óhætt að
fullyrða að Flugan sem stöðvaði stríðið sé fyrsta íslenska
verðlaunabókin sem hefur ósköp venjulegar húsflugur að
aðalsögupersónum.
Húsflugurnar Kolkex, Hermann Súkker og Flugan eru
aðalflugur bókarinnar. Þær dreymir um að koma á friði
meðal manna og dýra og tekst hið, að því er virðist,
óframkvæmanlega: Að stöðva stríðið í Assambad.
Upphaf alls þessa má rekja til þess að manneskjurnar í
húsinu þar sem flugurnar bjuggu fjárfestu í hátæknilegum
rafmagnsflugnaspaða sem er „bráðdrepandi
tryllingstæki“ að mati flugnanna. Þessi fjárfesting verður
til þess að flugurnar halda alla leið til munkanna í Nepal,
en samkvæmt heimildamyndaþætti í sjónvarpinu elska
þeir flugur og allt sem kvikt er.
Á leið til Nepal koma Kolkex, Hermann Súkker og
Flugan við í Assambad og eignast þar góða vini. Þar ríkir
mikill ófriður og búist er við að stríð muni brjótast út á
hverri stundu. Flugurnar halda svo áfram til Nepal þar
sem friður ríkir og notalegt er að vera. Félagarnir geta
þó ekki hætt að hugsa um nýju vini sína og ákveða því
að yfirgefa klaustrið og munkana og stöðva stríðið – sem
þær og gera, ótrúlegt en satt.
Flugan sem stöðvaði stríðið er bók með fallegan
boðskap, bók sem fjallar um þann draum að það komi
sá tími að allir, menn og flugur, geti búið saman í friði og
spekt og eins og segir í bókinni er þessi ósk „ævaforn
og ný í senn“ (108). Svona bók gæti auðveldlega orðið
afskaplega væmin en saga flugnanna er það aldrei.
Til þess er sjónarhornið of óvenjulegt og frásögnin sjálf
of skondin. Það er ekki aðeins skemmtilegt að sjá lífið
út frá sjónarhorni flugna heldur er líka áhugavert að sjá
menninguna eða okkur sjálf með þeirra augum. Það er
ágæt tilbreyting að sjá að veröldin snýst um annað og
meira en mannskepnuna.
GAGNRÝNI
Iréne Némirovsky. Frönsk svíta.
Friðrik Rafnsson íslenskaði.
JPV útgáfa. 2011.