Spássían - 2011, Side 22
22
sett á Mozart eða Beethoven. Þetta er
eitthvað sem maður finnur bara. Við
þekkjum hana þótt við getum ekki fest
hendur á henni. En hún er voðalega
falleg og yndisleg.“
SKÁLDABEKKURINN
En þótt ég mígi ekki í mig úr hlátri, að
minnsta kosti ekki á meðan mér er alvara
í hug, þá veit ég að ég á eftir að ganga
um borgina þeirra Nínu og mömmu,
þar sem ljóssins undrakraftur er vonandi
ennþá svo mikill að gamlir símastaurar
syngja í sólskininu, eins og segir í ljóði
skáldsins sem situr þar einsamalt á
skáldabekk, eða sat þar síðast þegar
mamma vissi. Það höfðu einhverjar konur
sagt henni það sem komu hingað inn með
síðustu hópunum, hún sá aldrei þær konur
aftur, hvorki fyrr né síðar og þorði ekki
að spyrjast fyrir um þær. Vissi að þær
fóru óvarlega, töluðu of hátt, töluðu of
mikið, fyrirgerðu rétti sínum ef þær höfðu
þá nokkurn. Lentu strax illa í varðmönnum
og hundum á leiðinni í ráðhúskjallarann.
Hún hefði varla getað horft á aðfarirnar
og satt að segja gerði hún ráð fyrir að
þeim hefði verið komið fyrir í kórhúsi
tilgangslausra, þetta voru víst allt saman
skáldkonur, Nína mín, skáldkonur sem
vildu óðar og uppvægar fá sér sæti á
bekknum hjá skáldinu, sagði hún þá og
ég man að ég hugsaði að trúlega hefði
hún nafna mín ekki migið í sig úr hlátri
hefði hún vitað það. (Trúir þú á töfra?,
155-156)
Í Trúir þú á töfra? má finna tvo skálda-
bekki þar sem konur og ungar stúlkur
freistast stundum til að tylla sér með
misalvarlegum afleiðingum. Annar
þeirra er í Reykjavík og vísar greinilega
til atburðarásar sem hófst árið 2006
þegar um þrjátíu skáldkonur stungu
upp á því að reist yrði útilistaverk
eða minnisvarði um rithöfundinn
Svövu Jakobsdóttur, þar sem engir
minnisvarðar um skáldkonur væru til í
Reykjavík. Af því varð aldrei. Tveimur
árum síðar, eftir að ákveðið hafði verið
að halda samkeppni um styttu af Tómasi
Guðmundssyni, kom fram í Lesbók
Morgunblaðsins að meðal upphaflegu
hugmynda að minnisvarða um Svövu
hefði verið „sæti fyrir vegfarendur á
bekk við hlið skáldkonunnar“, til dæmis
á bakka Tjarnarinnar.1 Skáldkonurnar
rifjuðu svo enn upp þessar tillögur
sínar í grein í Fréttablaðinu árið 20102
þegar ákveðið hafði verið að setja upp
bekk við Tjörnina þar sem hægt væri
að tylla sér við hliðina á styttu - af
borgarskáldinu Tómasi.
„Fagra veröld!“ segir Vigdís þegar
minnst er á þetta mál og virðist um
stund orða vant. „Þetta hefur auðvitað
ekkert með Tómas að gera í sjálfu sér.
Þetta var bara hugmynd sem vaknaði
hjá okkur. Þeir sem þekkja þá sögu
geta tengt við hana þegar þeir lesa
bókina en annars getur þetta bara verið
einhver skáldabekkur sem einhverjar
kerlingar langar svo að sitja á,“ bætir
hún við kankvís. „Þá eru þær mögulega
drepnar. Í sögunni, það er að segja.“
Umræðan um skáldkonur og stöðu
kvenna í rithöfundastétt hefur einmitt
verið áberandi undanfarið, en líka
mótþrói gegn því að ræða hana. „Það
er óþægilegt,“ segir Vigdís. „Og það
eru svo miklar öfgar, það má aldrei tala
um þetta í einhverju eðlilegu samhengi.
Umræðan verður hins vegar í gangi
þar til þetta verður komið í lag. Og
það er ekki eins og leiðin sé einhver
þrautaganga þar sem konurnar eru
allar grenjandi í halarófu. Við megum
ekki láta eins og þetta sé einhver væll.
Ég skil ekki af hverju það þarf alltaf að
mála það þannig. Það þarf að einfalda
þetta: Við erum hérna og við viljum að
okkar verk séu metin til jafns við önnur.
Það tekur langan tíma, við erum ekki
svo vitlausar að halda að það gerist á
morgun. En þegar búinn er til bekkur,
eigum við þá ekki næst að setja á hann
fugl og sjá hvað hann kvakar?“
VÆNDIÐ OG UMRÆÐA Í SKÖTULÍKI
Á enginu gula í austri búa líka hórurnar
okkar, Rósurnar átta, í háu hvítu húsi með
grænni verönd og þær kunna að njóta
kórsöngsins þegar þeim gefst stund milli
stríða, þær kunna að velta sér í grasi,
kyrra huga sinn og njóta fagurra tóna,
en það sem meira er, þær kunna líka að
kyrra líkama sinn og kenna öðrum að
njóta. (Trúir þú á töfra?, 14)
Í hinu fasíska þorpi í skálduðum dal
Vigdísar gegna allir fyrirfram ákveðnu
hlutverki sem sagt er í þágu fjöldans,
líka hórurnar. Starf þeirra er álitið jafn
nauðsynlegt og ræstingar og hjúkrun,
en þetta er viðhorf sem hefur einmitt
heyrst á Íslandi undanfarið. Talið um
umræðu í skötulíki leiðir jafnframt
hugann að nýlegri uppákomu Stóru
systur, aðgerðahóps gegn vændi, þar
sem umræðan leiddist út um víðan
völl og snerist ekki síst um fötin sem
aðgerðasinnarnir klæddust. Vigdís segir
framtakið nauðsynlegt og gott en of
mikil áhersla hafi verið á formið. „Þegar
þú ert að setja upp leikrit verður þú að
passa þig á því að áhorfendur séu ekki
alltaf að hugsa um leikstjórann. Þarna
„Það kom upp gífurleg reiði; ég fékk ótrúleg
bréf, bíllinn minn var eyðilagður. Af því ég var
að segja eitthvað sem kom illa við einhverja,
um þetta fallega og góða land þar sem allir
eru svo hamingjusamir og það er engin
spilling og ekkert vændi auðvitað.“