Spássían - 2011, Side 24
24
getur líka verið meðvitað. „Ef maður
les ævisögu Katherine Hepburn, sem
er skrifuð eftir hennar daga, þá blasir
við að æviminningar hennar sjálfrar eru
aldeilis sérstakar. Hver einasta minning
sem hún átti var endurgerð, tilbúningur
sem var leikstýrt með harðri hendi. Hún
var miklu verri en draumaverksmiðjan.
Kannski gerum við þetta öll.“
Í bókinni bætast svo við utanað-
komandi afskipti þeirra sem reyna að
stjórna því hvað eða hvernig fólk man.
„Já, án þess að þetta fari beint út í
ofsóknarbrjálæði, þá höfum við kannski
ekki aðgang að öllu því frelsi sem við
höldum. Ég held að frelsi okkar sé ekkert
meira en sagnfræðingsins sem ætlar
að skrifa um einhverja sögulega stund.
Hann fer strax að velja hvaða heimildir
hann ætlar að nota. Þannig er okkar líf,
því er mikið stjórnað. Það er náttúrlega
miklu auðveldara á svona stað eins og
í sögunni, í lokuðu rými. En reyndar er
heimurinn voða lokað rými.“
ÞURFUM AÐ PASSA UPP Á
FASISMANN
Og svo segir mamma eitthvað um
endalausar tengingar skáldskaparins sem
ég eigi eftir að kynnast þegar ég komist
héðan, ef ég komist héðan og sjái hvernig
öllu er raunverulega á botninn hvolft.
(Trúir þú á töfra?, 89)
Tengingarnar við önnur skáldverk virðast
óteljandi í sögunni og Vigdís segir áhrif
sem síast inn af öllu sem maður sér,
heyrir og les koma meira og minna af
sjálfu sér. „En það á ekki að þurfa að
þekkja neinar tilvísanir til þess að geta
notið þessarar bókar - eða ekki notið
hennar. Þú þarft ekki einu sinni að vera
neitt verseruð í skáldskapnum hennar
Nínu til þess að geta lesið þessa bók. En
það væri náttúrulega voða gaman fyrir
okkur Nínu, að bókin mín kveikti í fólki
svo það segði: „Æ, ég las aldrei Nínu
Björk og Svartan hest í myrkrinu, ég þarf
að fara að lesa hana.““
Núna liggur leið mín í undirgöngin;
inn í boðin, bönnin og feluleikina;
inn í leyndardómana,
núna er ekki tími til að sakna,
ekki tími til að þjást,
ekki tími til að minnast,
ekki tími til að skapa;
Núna er tími til að leita og tími til að finna
þótt myrk og þung skýin í brjósti mér
hrannist upp í kringum mig hvar sem ég
fer og hvernig sem ég læt.
Núna er kominn tími til að vakna. (Trúir þú
á töfra?, 248)
Fyrir utan beinar ljóðavísanir í allar
áttir er bókin einnig gædd þeim
eiginleika að vekja stöðugt upp
óbein hugrenningatengsl við önnur
bókmenntaverk. Við lesturinn hvarflar
hugurinn oftar en ekki að öðrum
dystópíum, hrollvekjandi framtíðarsýnum
af ýmsu tagi, því þetta er að
einhverju leyti bók um kúgun, ekki síst
skoðanakúgun, og yfir söguheiminum
hvílir mikil ógn. Á móti er teflt frelsisþránni
og ímynduninni. Það er freistandi að
tengja þetta eftirhrunssamfélaginu,
en Vigdís segir bókina ekki endilega
spegla sýn hennar á samtímann. Hins
vegar finnist henni ógnvænlegt til þess
að hugsa að mögulega gæti ógn af
þessu tagi verið yfirvofandi. „Ég held að
það verði að passa vel upp á fasismann
í heiminum. Hann kemur alltaf aftan að
fólki. Hann er kannski þarna í bókinni
í sinni ömurlegustu mynd - en hann er
alltaf ömurlegur. Það er allt í lagi að
skrifa um það hvað gæti hugsanlega
orðið ef fasisminn fær að búa til sitt
leikrit í litlu kúluþorpi í einhverjum firði.
Það getur orðið ógurlega vont leikrit.“
ÞJÓÐERNISHYGGJAN HÆTTULEG
[...] þeir heppnu lentu í kórhúsi til þess
eins að verða brotnir niður dag eftir
dag, viku eftir viku, ár eftir ár, til að
mega syngja þennan kórsöng sáttfýsi og
niðurlægingar. Nei, það létti engu okkar
við það.
Enn þann dag í dag er kórhús
útlendinga og ranghugmyndamanna
fjölmennasta kórhúsið okkar í austrinu og
stendur á enginu gula við hliðina á kórhúsi
tilgangslausra manna og gönguspöl frá
kórhúsi gamalla og sjúkra.
Í kórhúsi útlendinga og ranghugmynda-
manna mynda níu manneskjur kórinn og
hann er ungur og kröftugur og æfingarnar
ganga rösklega og einarðlega og
einhvern veginn finnst mér alltaf einsog
textinn sé þessu fólki tamari en þeim í
hinum húsunum. (Trúir þú á töfra?, 183)
Söguheimur Vigdísar er öðrum þræði
lýsing á undarlegri tilvist mannkynsins,
sem reynir að þrauka við þrúgandi
skilyrði án þess að hafa hugmynd
um tilganginn með öllu saman. En
kúluþorpið einangraða getur líka vel
staðið fyrir Ísland í huga lesanda og
Vigdís telur að eitt af því sem helst
beri að varast um þessar mundir sé
þjóðernishyggja. „Þegar Hitler byrjaði
var fyrsta viðbragðið að leyfa honum
bara að hamast í kommúnistunum. Það
sáu fáir fyrir að nasisminn kæmist á
í öllu sínu veldi – þótt Þórbergur hafi
reyndar strax séð hvað var að gerast.
En við þurfum að hafa varann á og þó
það sé klisja að við þurfum að læra af
sögunni þá held ég að við ættum að
gera það. Þegar það verður svona hrun,
og draumur litla mannsins sem varð ríkur
hrynur, þá er svo mikil hætta á of mikilli
þjóðernishyggju. Og tilhneigingu til að
gleypa við alls konar svona gylliboðum.
Menn verða að vera gætnir.“
Í bók Vigdísar hljóma við og við
kunnuglegir frasar um gömlu gildin
og afturhvarf til fortíðar. Þótt margir
höfundar hafi leitað í þá átt undanfarið
fer hún sjálf í hina áttina, inn í framtíðina
og spáir í afleiðingarnar: „Ekki fara í
rembuna hinum megin frá, hún var nógu
slæm hinsegin. Hún getur orðið ennþá
verri í fortíðardýrkuninni og ástinni á
torfkofunum. Jafnvel þeir sem vilja best
„Bókin er einfaldlega beiðni um
það að einhver í heiminum taki
hana í hendurnar, opni hana og
njóti hennar. Hún er kaffiboð.“