Spássían - 2011, Síða 25
25
vilja fara aftur í sauðskinnsskóna sem þeir
prófuðu aldrei og gengu aldrei í blautir
og kalnir á fótunum. Svo er þessi hugsun
að enginn megi koma inn í landið. Það
slær því miður í alltof mörgum, en við
erum samt voðalega feimin við að segja
það undir eigin nafni, að við viljum hafa
þetta land hreint. Eins og það er mikið
pláss hérna. Það er svo mikið til hérna.
Það er svo margt fólk sem er alveg eins
og við; sem þarf það sem við höfum
nóg af og allt of mikið af. En nei, þá
kemur rasisminn; óttinn við blöndunina,
um hreina kynstofninn. Niður með það!
Ég held að það séu ákveðin atriði sem
manneskjan verður að hugsa upp á nýtt.
Það hlýtur að vera til leið til að bjóða
fleira fólk velkomið í heimsókn. Og ef
það vill búa hérna þá hlýtur að vera
leið til þess að skaffa þeim land. Nóg er
af því. En þá segir alltaf einhver: „Við
getum ekki bara opnað allt upp á gátt.“
Nei, lokum þá bara? Eða: „Það er alveg
nóg að það komi hingað 20 útlendingar
á ári. Það er eðlilegt að það sé erfitt að
gefa þeim ríkisborgararétt.“ Allt þetta
sem við eigum að hugsa, hugsum við - af
því að þess er krafist af okkur.“
KAFFIBOÐ Í STJÖRNUÞOKU
Í söguheimi Vigdísar er einmitt allt lokað
og harðlæst og menn verða að fylgja
fyrirfram ákveðnum reglum um það
hvernig þeir meta fólk og aðstæður.
Þeir sem falla utan skilgreininga fara í
kórhús þeirra sem eru án markmiðs og
tilgangs – en í þann flokk falla m.a.
skáldkonurnar sem ekki þykir pláss
fyrir á skáldabekknum. Vigdís bendir
hins vegar á að auðvitað sé nóg pláss
á þeim bekk fyrir okkur öll. „Allt sem
gerir það ómögulegt er ekki gott. Við
eigum endilega að láta hann ná hringinn
í kringum heiminn þess vegna. Þetta
kemur alltaf að því sama: Að njóta þess
að hafa jafnrétti og gaman.“
Enda gefur hún lítið fyrir tal um
samkeppni milli höfunda. „Það er
náttúrlega bara bull. Ég hef ekki kynnst
þeim höfundum. Maður getur í hæsta
lagi verið svo asnalegur að keppa við
sjálfan sig. En kannski ættu allir höfundar
að gefa hver öðrum stjörnur“, segir
Vigdís og hláturinn sýður í henni. „Og
líka gagnrýnendum. Þá myndi maður
gera lista sem væri ekkert nema stjörnur
sem höfundar gefa gagnrýnendum
og gagnrýnendur höfundum svo úr
verður algjör stjörnuþoka! Og endilega
sem mest af kvenlegri ljóðrænu. Og
karlmennsku. Við þurfum ekki að velja
annað hvort. Fólk er alætur. Þú getur
alveg eins borðað ristað brauð með
osti og með sultu, það er bara val. Ef
þú hefur gaman af krimmum geturðu
líka haft gaman af einhverju sem kallast
fagurbókmenntir. Þær eru bara eins og
fólk, þessar bækur, við getum alveg sett
saman sköllótta, fólk með tíkarspena og
konur með skegg – þetta er allt sama
fólkið. Bækur eru bara samtal á milli
þess sem les og þess sem skrifar. Og
þegar það tekst vel er það gaman og
þegar það tekst illa er það sárt. Bókin
er einfaldlega beiðni um það að einhver
í heiminum taki hana í hendurnar, opni
hana og njóti hennar. Hún er kaffiboð.
Og það er misjafnt hvað boðið er
upp á. Ég hef ógurlega mikla trú á
bókmenntum, og allri sköpun, mér er
sama hvaða nafni hún nefnist, að þar sé
leiðin í átt til einhvers konar frelsis.“
Í lok bókarinnar Trúir þú á töfra?
umbreytist textinn smám saman yfir í
hálfgert ljóð; rennur út úr henni „eins
og lækur“, eins og Vigdís orðar það.
Þar eru ferðbúnir tveir hestar úr ljóðum
kvenna sem borið geta söguhetjuna í átt
til frelsis; Svartur hestur Nínu Bjarkar og
Blóðhófnir Gerðar Kristnýjar. „Hún er
með hesta lífsins“, segir Vigdís. „Og svo
er þarna maður í svörtum kufli, Þorsteinn
frá Hamri. Þá erum við bara komin með
þetta. Við komumst þetta.“
Að hlaupa langan veg til að sjá hið
forboðna til að gefa því ljóð svo gleðin
megi vakna, kannski að það sé einmitt
það sem ég er að gera núna svona löngu
seinna, færandi minningar til nútíðarinnar.
(Trúir þú á töfra?, 126)
ÞRÍLEIKIR OG KVIKMYNDAKEÐJUR hafa verið áberandi
undanfarin ár, sérstaklega þær sem gera út á fantasíu og stíla
upp á ungan áhorfendahóp. Lord of the Rings, Harry Potter og
Twilight myndirnar eru kannski ólíkar innbyrðis en eiga það
sameiginlegt að hópur eldheitra aðdáenda sem telur milljónir
stendur við bakið á þeim og tryggðu hverri og einni fádæma
vinsældir þegar þær voru sýndar. En allar hafa þær lokið sögu
sinni, a.m.k. í bili, og stóra spurningin hvað tekur við. Margir
vilja veðja á að það verði Hungurleikarnir – eða The Hunger
Games - en fyrsta myndin af þremur kemur í kvikmyndahús í
mars 2012. Bókin sem hún byggir á kemur út hjá JPV nú fyrir
jól í þýðingu Magneu J. Matthíasdóttur.
The Hunger Games þríleikurinn eftir Suzanne Collins er
bókaflokkur ætlaður unglingum og hefur notið gífurlegra
vinsælda. Fyrsta bókin, sem ber nafn þríleiksins, kom út árið
2008 og framhaldið Catching Fire og Mockingjay á næstu
tveimur árum. Sagan gerist einhvern tímann í framtíðinni,
eftir að stríð og náttúruhamfarir hafa gjörbylt þeirri
samfélagsgerð sem við þekkjum í dag. Þar sem áður voru
lönd Norður-Ameríku er nú ríkið Panem sem skiptist í 12
umdæmi og eina höfuðborg, Capitol. Umdæmunum er stýrt
með harðri hendi af ráðamönnum í höfuðborginni, fátækt er
mikil og hungursneyð daglegt brauð. Til að árétta vald sitt
enn frekar heldur Capitol leika á hverju ári þar sem ein stúlka
og einn drengur, á aldrinum 12-18 ára, eru valin úr hverju
héraði fyrir sig og öll 24 eru látin berjast þar til aðeins einn
sigurvegari stendur eftir og á lífi. Leikunum er sjónvarpað til
allra umdæmanna, bæði sem afþreyingarefni og sem vopni til
að halda uppreisnaröflum í skefjum.
Söguþráðurinn virðist við fyrstu sýn vera sambland af japönsku
kvikmyndinni Battle Royale og bandarísku raunveruleika-
seríunni Survivor og stendur eflaust í þakkarskuld við sögur
á borð við The Long Walk eftir Stephen King og, ekki síst,
The Lottery eftir Shirley Jackson. En bækurnar eru vel
skrifaðar og heimurinn sem settur er fram í senn óhugnanlega
framandi og ískyggilega kunnuglegur. Krakkarnir sem taka
þátt í hungurleikjunum þurfa ekki aðeins að kljást hvert við
annað heldur einnig að koma sér í mjúkinn hjá fjársterkum
aðilum sem geta haft áhrif á framvindu þeirra í leikjunum.
Vinsældakosningar upp á líf og dauða.
Lífið lagt að veði
Jennifer Lawrence fer með hlutverk hinnar sextán ára Katniss
Everdeen sem býður sig fram í stað yngri systur sinnar til að
taka þátt í leikum upp á líf og dauða.
The Hunger Games
er fyrsta myndin í nýrri
kvikmyndaseríu og
væntanleg í vor
1 Sigurbjörg Þrastardóttir, „Tómas, Svava
og tíuþúsundkallinn“, Lesbók Morgunblaðsins,
4. október 2008. 2 „Sestu hérna hjá mér“,
Fréttablaðið, 27. janúar 2010.