Spássían - 2011, Page 28

Spássían - 2011, Page 28
 28 Ljósmynda- og textabókin Selfoss eftir Gunnar Marel Hinriksson er ekki dæmigerð glansmyndabók. Höfundurinn teflir saman svarthvítum myndum af Selfossi sem hann hefur tekið sjálfur og textum um svæðið sem hann velur héðan og þaðan og stillir upp við hlið myndanna, án frekari útskýringa. Yfirlýstur tilgangur er enginn, umgjörðin aðeins stuttur formáli eftir Pál Sigurðsson sem byrjar á setningunni „Ég vakna oft í skurði þegar mig dreymir Selfoss“ og tengir Selfoss við fortíðina, náttúruna, Kardimommubæinn, lestarstöð og kortabækur. Um framhaldið segir einungis: „Hér eru gráar myndir af Selfossi, einsog hann er, þegar búið er að ljósmynda hann einsog landslag. Ef til vill snertir það einhverjar taugar í hjarta lesandans, hvort sem hann kannast við Selfoss eða ekki.“ Myndir Gunnars Marels fanga bæinn á óvenjulega hlutlausan hátt. Yfirleitt er ekki hægt að sjá tilraun til að draga fram fegurðina í umhverfinu eða undirstrika ljótleika. Þótt mótsagnakennt megi virðast er það einmitt þetta sem gefur bókinni sjarma, gerir hana sérstaka og hnýsilega. Sjónarhornið virðist oft næstum tilviljunarkennt, mótífið ekkert sérstakt, aðeins smellt af yfir bæinn en samt er eitthvað aðdráttarafl í þeim. Textabrotin skírskota til myndanna við hlið þeirra á ýmsan hátt en eiga það eitt sameiginlegt að tengjast Selfossi; þarna er allt frá lýsingum Íslendingasagna á landnámi í Ölfusi til skilgreininga erlendra bloggara á hugtökunum hnakki og skinka. Útkoman verður bráðskemmtileg; fróðleg, angurvær, kaldhæðin, hranaleg og smellin samsuða sem fær mann til að velta fyrir sér staðnum og fyrirbærinu Selfoss í nýju ljósi. „Hér eru gráar myndir af Selfossi ...“ LESSTOFAN lesstofan@lesstofan.is Angantýr - sagan sem mátti ekki segja - „[...] einn af gull- molum íslenskra bókmennta.“ Guðrún Helgadóttir rithöfundur „Þú mátt engum lána hana því það er engum að treysta.“ Fyrrum starfsstúlka Elínar Fátt er betur til þess fallið að skapa stemningu fyrir ljúfsárt afturlit en flutningur Lay Low á ljóðum kvenskálda á plötunni Brostinn strengur. Fyrir nostalgíukastið Fyrsta ljóðabók Unnar Guttormsdóttur, Það kviknar í vestrinu, dregur upp stuttar svipmyndir af sumardvöl borgarbarns í sveitinni um miðja síðustu öld. Ljóðin eru dæmi um það hvernig fortíðin getur lifnað við með réttu orðunum og orðið næstum raunverulegri en nútíðin. Bresku þættirnir Downton Abbey hafa notið mikilla vinsælda. Sögusviðið er Bretland í byrjun 20. aldar og skipið Titanic er nýsokkið sem dregur dilk á eftir sér fyrir hefðarfjölskyldu eina og þjónustufólk hennar. Ástir og örlög og umtalsverð sápa í stífpressuðu umhverfi. Ævintýri Tinna: Leyndarmál Einhyrningsins. Ekki minni maður en Steven Spielberg deilir nostalgískri upplifun sinni af þessum vinsælu teiknimyndabókum í formi nýrrar kvikmyndar um hárfagra blaðamanninn.

x

Spássían

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.