Spássían - 2011, Side 29
29
ÚLFHILDUR DAGSDÓTTIR hefur
um árabil fjallað um bókmenntir á
ýmsum vettvangi, meðal annars í
magasínþáttum Ríkissjónvarpsins og
á vef Borgarbókasafnsins. Hún er
hressileg rödd, hvort sem maður er
alltaf sammála eða ekki, og karlveldinu
gjarnan óþægur ljár í þúfu, þúfan sú
er í eigu vel valinna karla og hana á
að umgangast með lotningu og þögn.
Úlfhildur hefur verið ötul fræðikona,
kennt við Listaháskólann og H.Í. og
skrifað esseyjur um allt milli himins og
jarðar, oft með áherslu á sjónræna
þætti menningarinnar.
Úlfhildur var að senda frá sér mikla
bók og hefur sjaldan verið mikilvægari
íslenskri menningu, enda fara skrif
hennar heldur meira fyrir brjóstið á
fólki en áður, ef eitthvað er. Í ritinu Af
marxisma sem Nýhil gaf út árið 2009
er þannig að finna grein eftir Önnu
Björk Einarsdóttur sem ómögulegt er
að túlka öðruvísi en sem svo að einn
helsti forkólfur hugsunarháttar íslensku
útrásarinnar sé Úlfhildur Dagsdóttir.
Svo er að sjá sem í mannlegum fræðum
megi gera jafnvel banölustu forsendu
góða og gilda með hugtakafimi, góðum
heimildatilvísunum og stofnanamáli – og
eftir að sú hugmynd að kapítalisminn
kristallist í bókaverði hefur verið skreytt
með fræðilegu jólaskrauti virkar hún
hreint ekki eins fráleit og hún er í raun
og veru. Að baki býr nokkuð algengt
prógramm sem gengur í sem skemmstu
máli út á að endurvekja gömlu, góðu
marxistafrasana frá árum Fylkingarinnar,
taka upp þráðinn frá sjöunda áratugnum
eins og ekkert hafi í skorist. Til þess að
þetta sé gerlegt þarf gleymsku, það
þarf að sníða burt alla róttæka hugsun
sem komið hefur fram eftir hrun múrsins
(með hugrenningatengslum við útrásina
ef ekki vill betur). En að minni hyggju er
tómahljóð í róttækni sem afneitar sögu
sinni.
Einu sinni var mannskepnan firrt.
Það merkti að hún var framandi í
framleiðsluferlinu, sat innan um vélar
og tæki, slitin úr samhengi, og sá aldrei
upphaf og endi færibandsins. Þegar
fram liðu stundir var maðurinn ekki
bara firrtur í gamaldags marxískum
skilningi heldur tók að renna sífellt
meira saman við vélarnar. Chaplin í
Nútímanum er ekki aðeins skilningssljór
gagnvart tækjum nýs tíma heldur rennur
hann eftir tannhjólunum þar til hann
virðist hluti vélavirkisins. Til varð þrálát
hugmynd um mennskt vélmenni, blöndu
af mannveru og vél, hugmynd sem á sér
djúpar rætur eins og rakið er í bókinni
Sæborgin. Úlfhildur hefur lengi fjallað
um þessa hugmynd og hennar mörgu
birtingarmyndir, mig minnir að hún sé
höfundur orðsins „sæborg“ sem er bein
hljóðþýðing á hugtakinu „cyborg“ –
sem merkir mannveru sem hefur verið
blönduð raftækjum, eða öfugt. Það
er ekki skrýtið að slík sýn sé miðlæg í
huga þeirra sem vilja slaufa nokkrum
liðum hugmyndasögunnar. Hugmyndin
um sæborg gengur nefnilega þvert
gegn húmanismanum sem afturhaldssöm
róttækni hvílir á. Með sæborginni missir
maðurinn sína heildstæðu mynd og sína
einstöku mennsku, grunnstoðir margra
einfaldra og þægilegra heimsmynda,
ekki síst er húmanismi mikilvægur
í hugmyndakerfum hægrimanna. Í
menningu og veruleika koma upp sífellt
fleiri þemu þar sem vél og mennska
renna saman með margslungnum hætti,
vélin hefur hug á að gerast mennsk og
öðlast tilfinningar, mannveran fjarar
út í vél, vélin verður eðlilegt framhald
af manneskjunni og tekur jafnvel yfir
drjúgan hluta af sálarlífi hennar (eins og
allir notendur Facebook ættu að kannast
við þegar kemur að sambandinu sem sá
miðill skapar milli fingra og lyklaborðs,
félagslífs og tækis, hugar og tjáningar).
Sæborgin hefur ólíkar birtingarmyndir,
í bók sinni kemur Úlfhildur víða við, jafnt
í mesta pölpi sem hámenningu: Hún
greinir ekki beinlínis milli æðri lista og
afþreyingarefnis en gerir greinarmun
á drasli og góðu stöffi – sem er annað.
Í fyrstu var ég hálf efins um útlit
bókarinnar. Það er vísvitandi draslkennt,
margar myndir prýða bókina og
uppsetning þeirra er ágeng, leturgerðir
og –stærðir eru margar og sundurgerð
nokkur; en svo venst þetta og bókin
verður mjög læsileg, bæði hvað útlit og
innihald snertir. Ritið skiptist í þrjá hluta,
sá fyrsti nefnist „Skáldskapur“, annar
„Fræði“ og sá síðasti „Sæborgin á
Íslandi“ en hlutarnir skiptast í undirkafla
sem sjálfir skiptast í undirkafla. Aftast
fylgir rækileg heimildaskrá, nafnaskrá
og annað sem fræðiriti hæfir. Raunar
er sjaldgæft að út komi bækur sem eru
svo þaulunnar og á svo löngum tíma:
Mikill lestur liggur hér að baki. Úlfhildur
byrjar leikinn á að kynna til sögunnar
sinn helsta fræðimann, fræðikonu að
nafni Donna Haraway, og rekja sögu
sæborgarinnar, sem nær býsna langt
aftur, áður en haldið er í greiningu
sæborga í bókmenntum. Grundvallarrit
þessara fræða eru Frankenstein eftir
Mary Shelley og The Island of Dr. Moreau
eftir H.G. Wells. Ákveðin (neikvæð) ára
festist við sæborgina með Frankenstein
sem vísindaskáldsagnahöfundurinn
Isac Asimov vinnur síðan gegn
í sínum framtíðarsögum. Á eftir
bókmenntakaflanum tekur við kafli um
myndmál sæborgarinnar og nefndar
eru til sögunnar ótal kvikmyndir, Star
Wars, Blade Runner, RoboCop og
fleiri (ég þekki hvorki haus né sporð
á mörgum þeirra og ekki hef ég lesið
stafkrók eftir Donnu Haraway), áður
en haldið er út í fræðakaflann þar sem
bæði skáldskapur og kvikmyndir og
önnur form koma við sögu. Reyndar má
nefna að Úlfhildi hefur eins og mörgum
öðrum yfirsést eitt mesta stórvirki
vísindaskáldsögunnar, bók sem kölluð
hefur verið fullkomin, bók sem hefur haft
lúmsk áhrif ekki aðeins á bókmenntir
heldur einnig á ýmislegt afþreyingarefni
Keisarinn
er með gangráð Úlfhildur Dagsdóttir. Sæborgin: stefnumót líkama og tækni í ævintýri og veruleika.
Bókmennta- og listfræðastofnun
Háskóla Íslands. 2011.Eftir Hermann Stefánsson
„Hún hafnar tæknifóbíu og tæknidýrkun til
jafns, en leitar að frjóa, skapandi, róttæka
femíníska fletinum á þróun manns í átt að
sæborg, bæði í listum og veruleika.“
GAGNRÝNI