Spássían - 2011, Page 36
36
Það hefur ekki verið nein sérstök gróska í smásagnagerð
á undanförnum árum. Þau má telja á fingrum annarrar
handar, smásagnasöfnin sem getið er í Bókatíðindum ár
hvert. Þó hafa nokkur þeirra náð í gegn: Sagnasveigur
Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Aldingarðurinn (2006),
hreppti Íslensku bókmenntaverðlaunin og fyrir
smásagnasafnið Milli trjánna (2009) var Gyrðir Elíasson
sæmdur Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs.
Vonandi hvetur það íslenska höfunda til að sinna þessu
eðla bókmenntaformi.
Ekki er heldur hægt að segja að mikil nýsköpun hafi
átt sér stað í smásagnagerð á síðustu árum. Hið klassíska
form smásögunnar heldur velli og lítið er um róttæka
tilraunastarfsemi. Samt sem áður leynast fagrir fuglar
innan um, og hér hef ég tínt til nokkrar athyglisverðar
sögur sem hafa komið út á bók á undanförnum fimm
árum. Þær bera ekki nein sameiginleg einkenni
önnur en þau að þar tekst höfundunum að skapa
eftirtektarverðan merkingarheim í vandasömu formi.
– staldrað við nokkrar
smásögur frá liðnum
árum
Smáfuglar
fagrir Eftir Rúnar Helga Vignisson
SAGNASVEIGUR Ólafs Jóhanns Ólafssonar,
Aldingarðurinn, hefur að geyma sögur sem
bera nöfn mánaðanna tólf og fjalla allar um
samskipti. Þarna eru margar haglega fléttaðar
sögur en hér verður staldrað við febrúarsöguna.
Einar og Hildur búa á Manhattan en þegar
sagan hefst eru þau stödd í sumarhúsi sínu á Long
Island þótt þau séu ekki vön að fara þangað á
veturna. Þau eru þarna ein, hafa ekki reynt að
fá börnin með í þetta sinn, krákur sveima yfir
gráum ökrunum og allt er lokað. „Ráðgjafinn
sem þau leituðu til hafði hvatt þau til að fara
saman í frí“ (32–33) og það er ekki liðinn
nema hálfur mánuður síðan „ósköpin dundu
yfir“ (33). Þannig leiðir höfundur okkur smátt og
smátt að viðfangsefni sögunnar; framhjáhaldi
eiginmannsins. Ekki nýstárlegt viðfangsefni en
Ólafur Jóhann býður upp á listilega fléttu í
seinni hluta sögunnar.
Sagan er byggð á klassískan hátt eins
og allar sögurnar í bókinni. Höfundur kemur
persónunum fyrir í ákveðnum atburði, staldrar
síðan við og gefur okkur svolitla forsögu áður
en hann heldur áfram með atburðarásina. Mál
æxlast þannig í „Febrúar“ að Hildur fær Einar
til þess að aka með sig í gegnum Queens-
hverfið á leiðinni heim. Hann virðist hafa sagt
henni að viðhaldið búi þar og henni finnst hún
þurfi að sjá íbúðina hennar til þess að þau geti
haldið áfram að „fara í leikhús aftur“ (41). Með
semingi fellst hann á það og þau leggja af stað
í snjókomu og þæfingi. Hann fer með hana í
götu í Queens en virðist eitthvað óöruggur og
endar á því að keyra inn í blindgötu á leiðinni
frá íbúð hjásvæfunnar. Í ljós kemur að Einar
er kominn í blindgötu í fleiri en einum skilningi.
Hann neyðist til að viðurkenna að viðhaldið búi
ekki í Queens heldur „á hæðinni fyrir neðan
okkur“ (45). Þar með stígur Hildur út úr bílnum
og hverfur út í febrúarbylinn.
Fyrir utan svolítið klossað endurlit er sagan
vel riðin og fléttan kemur hinu ósagða vel
til skila. Höfundi tekst prýðilega að miðla
spennunni í sambandi hjónanna og gerir það
bæði með samtölum og andrúmslofti. Og lygin í
lokin, sem er að hluta til vegna þrýstings Hildar,
kemur brestunum í sambandinu til skila á afar
snjallan hátt.