Spássían - 2011, Side 44

Spássían - 2011, Side 44
 44 DENNIS KELLY hittir greinilega í mark hjá okkur Íslendingum þessi árin. Eins og með Jim Cartwright forðum er hvert leikritið af öðru eftir Kelly sett upp af ýmsum hópum og stofnanaleikhúsum nú um stundir. Af því sem ég hef séð ber Munaðarlaus af, sem frjáls leikhópur setti upp í Norræna húsinu í hitteðfyrra. Eiginlega hápunktur leikhúsferða minna það leikárið. Kelly er flinkur höfundur með nokkuð einarðan fókus á svartnættið í sálum mannanna og hve stutt er í villidýrið í okkur. Stíll þessara verka er áþekkur, últranatúralísk og hröð samtöl þar sem afstaða, ætlan og fortíð persónanna afhjúpast smám saman og atburðarásin hlykkjast áfram með skörpum sveigjum sem halda áhorfandanum spenntum. Eins og áður kom fram tókst þetta talsvert betur í Munaðarlaus en í Eftir lokin. Þó verður því ekki haldið fram að þetta misheppnist hér. Höfundi og leikhópi tekst dável að halda manni spenntum og forvitnum um örlög þeirra Markúsar og Lísu sem virðast þurfa að þreyja ævina á enda í neðanjarðarbyrgi þess fyrrnefnda eftir að kjarnorkusprengja hefur grandað lífinu ofanjarðar. Fortíð þeirra og afstöðu er lipurlega lýst í fyrsta hluta verksins þar sem við lærum að þau tilheyra sama vinahóp þó Markús hafi klárlega verið á jaðri hans en Lísa í honum miðjum. Þannig sjáum við Lísu reyna næstum með handafli að stilla sinn nýja status af, verandi algerlega upp á Markús kominn. En það tekst henni ekki, og valdataflið fer af stað fyrir alvöru. Það er ekki sanngjarnt að ljóstra frekar upp um hver gangur verksins er – nóg að geta þess að eins og Kelly er von og vísa tekst nokkrum sinnum að kippa teppinu undan fótum grandalausra áhorfenda og stefna atbuðarásinni í óvænta átt. Þau Sveinn og Lilja Nótt hafa býsna gott vald á viðfangsefninu. Sem er eins gott því nálægðin er mikil og miskunnarlaus í Tjarnarbíói í þessari sýningu, á örlitlum leikfletinum með áhorfendur allt í kring. Það er kraftur, öryggi og hraði í sýningunni og hún gengur augljóslega nærri leikendunum tilfinningalega, enda ekki annað hægt. Sveinn teiknar lúserinn Markús skilmerkilega og Lilja er kannski mögnuðust í óvæntu lokaatriðinu. Nálægðin er miskunnarlaus og natúralisminn í textanum líka. Á tveimur stöðum þvældist þetta þannig fyrir þessum áhorfanda að rof varð í innlifuninni. Í þessu litla rými gekk mér illa að trúa því að hin kröftuga Lísa sætti sig svona auðveldlega við að vera neitað um matarskammtinn sinn. Reyndar styður textinn lögnina á „sultarkaflanum“ ágætlega, en það var engu að síður erfitt að sætta sig við áreynsluleysið í því stríði. Hitt var síðan algerlega ósannfærandi þegar Lísa tekur völdin með því að ógna Markúsi með hnífi. Það var því miður ekki nokkur leið að trúa á þann bardaga á þeim raunsæisforsendum sem stíll verksins og leiklausnir kröfðust. Þarna hefði leikstjórinn að mínu mati þurft að finna betri leið. Eftir lokin er flottur tryllir. Það er ekki endilega djúpskreitt, þó svo ramminn sé lífið eftir heimsendi er það ekki viðfangsefni höfundar. Hann er að skoða eitt af öngstrætum mannlegra samskipta, honum er áreiðanlega fyrst og fremst í mun að heilla áhorfendur með spennandi sögu, rugla þá svolítið í rýminu og sá kannski smá efasemdum um að siðferði okkar og siðmenning sé jafn rótföst og við höldum og vonum. Þetta tekst ágætlega hjá honum, sem og öllum aðstandendum sýningarinnar sem að fyrrnefndum ágöllum frátöldum skila lýtalausu verki. Eftir lokin Höfundur: Dennis Kelly Þýðing: Stefán Hallur Stefánsson og Lilja Nótt Þórarinsdóttir Leikstjórn: Stefán Hallur Stefánsson Leikarar: Lilja Nótt Þórarinsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson Lýsing: Stefán Benedikt Vilhelmsson Eftir Þorgeir Tryggvason GAGNRÝNI Brjótumþað sem brotnar

x

Spássían

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.