Spássían - 2011, Blaðsíða 47
47
við myndlist. Ég endaði í fagurfræði og þóttist hafa fundið
rétta tækið til að takast á við myndlistina. Mér fannst ekki nóg
að láta segja mér hvaða verk ég ætti að láta mér líka við, ég
varð að fá að vita hvers vegna. Menntunin sem ég varð mér
úti um varð hins vegar vandamál þegar ég fór síðar að vinna
á Listasafni Íslands. Þar giltu önnur viðmið en sú sjálfstæða
hugsun sem ég hafði lært að tileinka mér. Ég hafði brennandi
áhuga á hugmyndasögu, hugtökum og samtímalist, en hafði
ekki sinnt því að kynna mér íslenska listasögu sérstaklega.
Þegar ég byrjaði á safninu og þurfti að kynna mér söguna
voru góð ráð dýr. Ég náði engu sambandi við skrifin í útgáfum
safnsins. Formgreiningarnar stóðu í mér og ég velti því fyrir
mér hvort listasagan þyrfti nauðsynlega að vera sögð á
þurru máli. Mér fannst safnið ekki vera í neinu sambandi við
samtímann og því þarf ekki orðlengja það að starfstími minn
þar varð óhjákvæmlega stuttur.
***
Tíminn sem ég starfaði á Listasafninu reyndist mér engu að síður
dýrmætur því hann opnaði fyrir spurningar um hvernig saga
íslenskrar myndlistar er sögð. Hvernig gat sagan til dæmis
byrjaði árið 1900 eins og upp úr þurru? Hvað gat skýrt það
að strákar – og stelpur – sem samkvæmt þessu höfðu alist upp
í myndlistarlausum sveitum og sjávarþorpum, fengu þá flugu
í höfuðið að hægt væri að læra eitthvað sem hét myndlist?
Varla kviknaði sú löngun af sjálfu sér? Ekki fannst mér skipta
minna máli að skilja hvað gerði þau móttækileg fyrir nýjum
viðhorfum sem voru að leggja undir sig evrópska samtímalist.
Mér fannst vanta fleiri sjónarhorn á frásögnina. Ég skildi ekki
heldur, þegar ég kom frá Frakklandi, hvernig hægt var að
segja frá verkum íslensku listamannanna án þess að tengja
þau erlendum verkum og gera grein fyrir þeim hugmyndalegu
breytingum sem átt höfðu sér stað í Evrópu.
Nú á ég ekki við að íslensk myndlist hafi aldrei verið sett í
samhengi við strauma og stefnur í myndlist á meginlandinu. Ég
á við að ef ætlunin er að skilja upphaf íslenskrar listasögu - sem
sumir vilja nú meina að eigi sér ekkert upphaf því myndlist hafi
alltaf verið iðkuð í landinu - sé mikilvægt að átta sig á hvað
gerðist á 19. öldinni. Listasafn Íslands var stofnað á síðari hluta
þeirrar aldar, utan um gjöf á erlendum listaverkum. Markmiðið
með stofnun safnsins var að gefa Íslendingum tækifæri til að
kynnast evrópskri málaralist milliliðalaust. Upphaflega átti
safnið því ekki að safna íslenskri myndlist sérstaklega, enda
var myndlistarlífið í sögulegri lægð framan af 19. öldinni og
fátt sem hægt var að kaupa. Hlutverk Listasafnsins, líkt og
Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Þjóðleikhússins síðar, var að
búa í haginn fyrir listrænt uppeldi þjóðar sem stefndi hraðbyri
í átt að sjálfstæði.
Starfsemi Listasafns Íslands þróaðist hins vegar með öðrum
hætti en til stóð, enda mun erfiðara að koma sér upp erlendri
safneign en setja upp erlend leikverk í Þjóðleikhúsinu eða
flytja erlendar sinfóníur. Gildi frummyndarinnar í myndlistinni
og áhrif hennar á hreyfanleika og verð verka gerði safninu
einfaldlega óhægt um vik að halda áfram að safna erlendum
verkum. Hlutverk Listasafns Íslands þróaðist í þá átt að safna
íslenskum málverkum í geymslur og halda stopular sýningar á
innlendri nútímalist í listsögulegu tómarúmi. Það vekur enda
athygli, að þegar íslensk listasaga 20. aldar er sögð, fellur
forskeytið „nútími“ brott. Öllum sem til listasögu þekkja má
þó ljóst vera að íslensk listasaga er nútímalistasaga, þar sem
frásögnin er knúin áfram af „nútímanum“ og hugmyndalegum
áhrifum hans, m.a. á stöðu listamannsins sem sjálfstætt starfandi
og aðgreiningu listhugtaksins frá handverki og nytjalistum.
Í listsögulegum skilningi á nútímalist sér upphaf sem vísar til
rofs er verður í sögu myndlistar undir lok 19. aldar, eftir að
hópur franskra listamanna rís upp gegn viðhorfum klassískrar
hefðar í eftirmála frönsku byltingarinnar og segir skilið við
Listaakademíuna. Það var langt frá því að allir franskir
listamenn tækju þátt í uppreisninni gegn akademíunni, enda
hefði þá ekki orðið nein togstreita og ekkert rof. Margir
starfandi listamenn á 19. öld vildu halda í hefðina, enda var
hún lykillinn að velgengni þeirra. Þessir listamenn hétu nöfnum
á borð við Baudry, Gérôme, Cabanel og Bouguereau. Þeir
eru hluti af franskri listasögu þótt nöfn þeirra beri, eðli málsins
samkvæmt, sjaldnast á góma í ritum sem fjalla um sögu
nútímalistar á Vesturlöndum. Þar hafa þeir orðið að víkja fyrir
nöfnum hinna, sem börðust fyrir því að myndlistin fengi að fjalla
um samtímann. Skilgreiningin nútímalist afmarkast því við list
sem tekst á við samtímann með nýjum aðferðum og listamenn
sem eru sér meðvitaðir um stöðu sína í ferli endurnýjunarinnar.
Meðal listamanna sem gerðu þá kröfu að fá að fjalla um
samtímann voru Courbet, Manet, Monet og Cézanne, sem
var ekki aðeins óþekktur öllum almenningi stóran hluta lífsins,
heldur naut framan af lítillar hylli starfsbræðra sinna. Þessi
útlagi útlaganna er nú talinn áhrifamestur impressjónistanna.
Nafn hans er táknrænt fyrir leiðarstef í listasögu nútímans,
sem nær yfir heila öld. Það hefur nært ímyndina um misskilda
snillinginn og knúið áfram hugmyndina um framúrstefnuna.
***
Á 19. öld voru engar stofnanir á Íslandi sem hægt var að
hafna, eins og glöggt kemur fram í skrifum Þóru Kristjánsdóttur
um tímabilið í Sögu Íslands. Í upphafi 19. aldar var engan
starfsvettvang að finna fyrir íslenska listamenn og því
hverfur myndlistin úr menningarlífinu. Fram að því var
listsköpun í landinu nokkuð blómleg miðað við aðstæður, eins
og kemur fram í riti Þóru Mynd á þili, sem fjallar íslenska
myndlist frá 16., 17. og 18. öld. Það var sem sagt búin til
myndlist á Íslandi á þessu myrka tímabili í sögu landsins
sem nýlendu. Í ritinu tekst Þóra á við það verkefni að finna
þessum myndverkum höfunda og höfundum verk, eflaust til
að færa þá nær okkur. En það er á vissan hátt tímaskekkja
Jean Honoré Fragonard (1732-1806), Rólan, 1767.
Erótískur undirtónn málverka Fragonard öfluðu honum
velgengni og vinsælda í því frjálslynda andrúmslofti sem ríkti
hjá frönskum aðli undir lok einveldisins.