Spássían - 2011, Page 54

Spássían - 2011, Page 54
 54 PETER ENGVIST kann greinilega vel við sig á Sögulofti Landnámsseturs í Borgarnesi. Og sennilega á nálægðin og afslöppuð stemningin sinn þátt í að sýningar hans heppnast svona vel þarna. Þessi áreynslulausi leikur með tengslin við áhorfendur, tilgerðarlaus notkun á látbragðsleik, næstum kæruleysislegt samband við salinn. Ef marka má Mr. Skallagrímsson og Blótgoða núna þá er þetta formúla sem getur ekki klikkað. Auðvitað getur hún samt klikkað. Ef efniviðurinn er rýr, handritin slöpp, leikararnir ekki vandanum vaxnir. Og vandinn er ærinn, ekki síst sá að dylja það hvað þetta krefst þrátt fyrir allt mikillar orku, ísmeygilegrar tækni. Það sem ég á við er að formúlan, hr. Engkvist og leikarar hans hafa ekki klikkað enn. Ég hef mikið dálæti á einleikjum. Hvergi í leikhúsi afhjúpast einn mikilvægasti eðliseiginleiki þess betur. Trúnaðarsambandið við áhorfendur. Þetta samsæri. Leikarar í „venjulegum“ leikritum geta falið sig bak við trúnaðarsambandið við hina leikarana og talið sér trú um að áhorfendur séu með í leiknum. En einleikari er ... ja, einn. Með gestum sínum. Blótgoðar fjallar um kristnitökuna. Eða eiginlega frekar um heiðnina sem vék fyrir hinum nýja sið. Við fylgjumst með atganginum á Alþingi þennan örlagaríka sólarhring, þegar Þorgeir skríður undir feldinn, og flestir sem við kynnumst eru úr heiðna liðinu. Þór Tulinius er bæði leikari sýningarinnar og handritshöfundur eins og Benedikt Erlingsson áður, og Brynhildur Guðjónsdóttir að einleiknum um Brák sem ég sé alltaf meira og meira eftir að hafa ekki séð, svo gaman sem væri að bera efnistök og aðferð þeirrar sýningar saman við það sem Engkvist og félagar gera. Höldum okkur samt við Blótgoða og aðstandendur þess verks. Ef við byrjum á handritshöfundinum þá er rétt að óska honum til hamingju. Þó verkið sé vissulega í frásagnarformi í grunninn þá er það nú glettilega dramatískt samansett, með spennandi framvindu og skrautlegu persónugalleríi; fjölkunnugum Finnum, Hávamálafróðum þrælum, montnum og lötum Mývetningum, auk nafnkenndra kappa úr Kristni Sögu. Þráðurinn sem snýst um líkneski eitt sem fannst í Aðalstrætinu í Reykjavík er sniðuglega þræddur saman við allt hitt og vangaveltur um muninn á vísindalegum vinkli á tilveruna og þeim trúarlega eru skemmtilegar í samhenginu og breyta aldrei leikhúsupplifuninni í fyrirlestur. Ég man hvað mér fundust tengingarnar milli seiðmennsku eða „Shamanisma“ og veru Þorgeirs undir feldinum skrítnar og tilgerðarlegar þegar ég heyrði fyrst um þær, en núna sannfærðist ég. Sennilega var það barkasöngur leikarans sem gerði útslagið. Svona var þetta – eða ekki, en sagan er góð. Kannski má finna að því að örlítið slaknar á frásagnarkraftinum síðasta korterið og fyrir vikið virkar endirinn dálítið snubbóttur, þó rökréttur sé. Viðprjónanir höfundar við það litla sem skráð er um atburði eru skemmtilegar og þó hann ræði í upphafi dálítið um þann vanda þá hættir það fljótlega að skipta nokkru máli hvað er frá Ara, hvað úr öðrum ritum og hvað úr huga Þórs. Við göngum sögumanni á vald. Þannig á það líka að vera á Sögulofti. Þór Tulinius er mikill öndvegisleikari. Væri hægt að fara fram á það að hann og þeir sem stjórna svoleiðis hlutum kæmu honum oftar upp á svið á almannafæri, takk? Hann reiðir sviðssjarmann í þverpokum og dylur tæknivopnabúrið svo vel að við lítum á hann sem einn af okkur. Og það er fullt af tækni, sniðugum og eðlilegum tæmingum og áreynslulausum og stælalausum raddbeitingar- og líkamsmálsbreytingum til að draga persónugalleríið í dilka. Allt ýkjulaust, allt mjúkt, allt úthugsað og áhrifaríkt. Útlitið er flott, leikmyndin (sem þrátt fyrir að vera lítil er svo sannarlega til staðar og gegnir sínu hlutverki) er sterk, sem og sniðugur búningurinn. Heildaráhrifin eru kannski fyrst og fremst gleði. Gleði yfir að hafa verið á svona ljómandi skemmtilegri leiksýningu þar sem var unnið á svona heiðarlegan og fallegan hátt úr efniviði sem svo auðveldlega hefði getað kallað á rembing. Gleði yfir að það sé hægt að nálgast goðsögurnar okkar (þá meina ég kristnitökuna frekar en ásatrúna) með svona miklum ferskleika án þess að markmiðið sé að ráðast gegn einhverju sem mætti kannski kalla viðtekið viðhorf og hefðbundna söguskoðun. Blótgoðar í Borgarnesi er þroskuð leiksýning. Hún notar enga tækni aðra en einfaldasta og naktasta formið til að skoða grundvallaratriði í því hvernig við erum. Hverju við trúum, bæði í trúarbragðaskilningi og þeim sagnfræðilega. Jafnframt er hún mikil skemmtun og gefur áhorfandanum tilfinningu fyrir að hafa verið nálægur, verið þátttakandi en ekki neytandi. Hún gefur okkur tilfinningu fyrir að hafa verið undir feldinum. Upp‘ á lofti undir feldi Blótgoðar – uppistand um heiðingja Sögulofti Landnámsseturs Höfundur og leikari: Þór Tulinius Leikstjóri: Peter Engkvist Leikmynd og búningar: Beate Stormo Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson vonandi skemmtið‘ ykkur Eftir Þorgeir Tryggvason GAGNRÝNI

x

Spássían

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.