Morgunblaðið - 28.04.2020, Page 5

Morgunblaðið - 28.04.2020, Page 5
Laun lögreglumanna þau sömu og þau voru árið 2002 Við lögreglumenn höfum reynt að eiga raunverulegar samræður við ríkið um kjör okkar í mörg ár. Samningur sá sem við vinnum eftir í dag rann út fyrir meira en ári síðan. Við sitjum enn við samningaborðið án nokkurs árangurs. Lögreglumenn hafa ekki verkfallsrétt og það hefur ríkið nýtt sér til þess að framlengja löngu úrelta samninga. Við skulum rifja upp örfá atriði með þeim. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í fréttum RÚV árið 2017: „Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að ríkið leggi áherslu á að í kjaraviðræðum sýni hópar fram á það með gögnum að þeir hafi dregist aftur úr sínum samanburðarhópum í launum“ - Fréttir RÚV 3. júlí 2017- Með vísan í ofangreint er rétt að minna hæstvirtan fjármálaráðherra á innihald svars hans við fyrirspurn Bjarkeyjar Olsen, núverandi þingflokksformanns VG, og spyrja sig hvort að það sé ekki máli okkar til stuðnings: „Laun lögreglumanna á raunvirði eru í dag svipuð því sem var árið 2002. Hafa þau lækkað um tæplega 9% síðan þau voru hæst árið 2005. Þetta kemur fram í skriflegu svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra.“ – Mbl.is 15. mars 2016- Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, í umræðu um löggæslumál á Alþingi þann 15. október 2015: „Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess að hér liggur fyrir frumvarp þriggja þingmanna og jafnvel fleiri, um að lögreglumenn fái verkfallsrétt eins og aðrar stéttir: Styður hæstv. ráðherra það? Ef ekki, er þá ekki enn brýnni þörf á að koma til móts við kröfur lögreglumanna þannig að hér verði tryggður stöðugleiki og öryggi almennings?“ Þá er rétt að minna hæstvirtan forsætisráðherra á ályktun frá landsfundi VG í október 2019: „Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18. – 20. október 2019 tekur undir kröfur lögreglumanna um að þeir hafi verkfallsrétt.“ Að lokum er rétt að minna Sigurð Inga Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formann Framsóknarflokksins á ályktanir flokksþings Framsóknarflokksins frá árinu 2016: „Það er ein af grunnskyldum ríkisins að tryggja öryggi borgaranna. Forsenda þess er öflug löggæsla. Tryggja þarf lögreglu nægilega góð starfsskilyrði til að hún geti sinnt þeim fjölmörgu verkefnum sem að henni snúa um land allt, allan ársins hring.“ Kæru landsmenn. Við lögreglumenn höfum verið án kjarasamnings í meira en ár en stöndum samt okkar vakt. Þetta ástand getur ekki gengið lengur. Við verðum að sjá til þess að stjórnvöld standi sína vakt. Stjórn Landssambands lögreglumanna.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.