Morgunblaðið - 28.04.2020, Page 15
15
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 28. APRÍL 2020
Á erfiðum tímum í sögu
þjóðarinnar hefur lögreglan
ætíð stigið fram til þjónustu
og öryggisgæslu fyrir þjóð-
ina. Skemmst er að minnast
frammistöðu lögreglunnar á
þeim dimmu mánuðum sem
við upplifðum fyrstu mánuði
og misseri eftir hrun þegar
lögreglumenn og -konur
lögðu líf sitt í hættu við að
verja Alþingi og aðrar stofn-
anir ríkisins. Man ekki eftir að þeim hafi
verið þakkað að verðleikum af stjórnvöldum.
Lögreglufólkið okkar gengur til starfa alla
daga árið um kring hvernig sem á stendur.
Þau leitast við að þjóna okkur sem best og
tryggja öryggi okkar og nærumhverfis okk-
ar á hverjum stað af kostgæfni og þekkingu.
Málefni lögreglunnar hafa verið í nokkr-
um ólestri undanfarin ár. Skipulagsbreyting-
ar hafa verið tíðar og virðast oftast fram-
kvæmdar án mikillar framsýnar, með lítilli
yfirsýn og að mestu án heildarhugsunar.
Ríkislögreglustjóraembættið var sett á fót
og stækkaði og efldist óáreitt meðan önnur
lögregluembætti áttu mörg hver
og eiga enn í miklum erfiðleikum
vegna vanfjármögnunar og mann-
eklu. Lögregluskólinn var lagður
af nánast á einni nóttu án þess að
viðeigandi ný úrræði væru tilbúin.
Varð þetta til þess að tvo heila ár-
ganga vantar í lögregluliðið og
mun taka nokkur ár að rétta þann
halla af. Undanfarin tuttugu ár
hefur fækkað mjög í lögregluliðinu
og blasir það við til dæmis á höfuð-
borgarsvæðinu þar sem 80 manns
vantar í liðið til þess að sama þjón-
usta sé veitt nú og var við síðustu
aldamót. Síðan þá hefur íbúum fjölgað mjög,
ferðamönnum hefur fjölgað þar til nú nýlega
en vænta má að þeir snúi aftur að einhverju
marki þegar farsóttinni linnir. Lögregluliðið
er nú betur menntað en áður og betur þjálf-
að.
Nú er lögreglufólkið okkar í framlínunni
við afar erfiðar aðstæður sem kalla á ár-
vekni og mikið álag. Covid-fárið virðist vera
í rénun í bili allavega en efnahagserfiðleik-
arnir munu fylgja okkur næstu misseri. Þá
eykst álag á lögregluliðið eins og áður hefur
sýnt sig.
Við þessar aðstæður hefur ríkisvaldið
leyft sér að koma fram af fádæma hörku og
ósanngirni í kjaraviðræðum sem nú standa
yfir. Lögreglufólkið okkar hefur verið án
samnings í heilt ár. Ríkið hefur ekki haft
neitt nýtt fram að færa í samningaviðræð-
unum og neitar að ræða álitamál sem lengi
hafa beðið úrlausnar. Hugsanlega fer ríkis-
stjórn Katrínar Jakobsdóttur svona fram
gegn lögregluliðinu vegna þess að það hefur
ekki verkfallsrétt. Samt hafa Vinstri græn
lýst stuðningi við að lögreglufólk fái þann
rétt. Eins og stundum áður fara ekki saman
orð og efndir úr þeim herbúðum. Þessi
framkoma ríkisstjórnar Katrínar Jakobs-
dóttur í garð lögreglunnar er skammarleg.
Dómsmálaráðherra virðist forðast að blanda
sér í deiluna eða að hafa uppi minnstu til-
burði til að stíga þar inn af nauðsynlegri
festu og sýna áhuga og frumkvæði til að
leysa málið.
Miðflokkurinn hefur við hver fjárlög frá
árinu 2017 lagt fram skýrar fjármagnaðar
tillögur til að styrkja löggæslu einkum á
landamærum svo og almenna löggæslu ekki
síst á höfuðborgarsvæðinu. Þær góðu til-
lögur hafa ekki fengið brautargengi hjá rík-
isstjórnarmeirihlutanum fremur en tillögur
flokksins í öðrum málaflokkum sem hafa
verið jafn skynsamlegar og fjármagnaðar.
Pistilritari er stoltur og glaður að hafa átt
þess kost að vinna með lögreglunni í rúman
áratug og vera þannig góðkunningi lögregl-
unnar í besta skilningi þeirra orða. Á þeim
tíma varð pistilritari vitni að fagmennsku
lögregluliðsins, hugarró við erfiðar að-
stæður, áræði, hugrekki og nauðsynlegri lip-
urð í mannlegum samskiptum þegar fólk á
um sárt að binda. Þess verður að krefjast að
nú þegar verði farið að mæta lögreglu-
mönnum á samningafundum af sanngirni og
ábyrgð. Sá „góðkunningi“ sem hér ritar mun
berjast fyrir bættum og réttlátum kjörum
lögreglumanna af öllu afli þar til ríkisstjórn
Katrínar Jakobsdóttur fer að sýna þá sann-
girni sem þau sem gæta öryggis okkar eiga
skilið.
Eftir Þorstein
Sæmundsson » Þessi framkoma ríkis-
stjórnar Katrínar Jakobs-
dóttur í garð lögreglunnar er
skammarleg.
Þorsteinn Sæmundsson
„Góðkunningi lögreglunnar“
Höfundur er þingmaður Miðflokksins
í Reykjavíkurkjördæmi suður.
thorsteinns@althingi.is
„Ég er hér til að bjarga
ykkur,“ sagði forseti Banda-
ríkjanna á blaðamannafundi
sem haldinn var í Hvíta húsinu
vegna veirufaraldursins. Vin-
sældir forsetans hafa aldrei
verið meiri þrátt fyrir að
stefni í að Bandaríkin komi
verst út úr faraldrinum. Staða
forsetans gæti þó breyst hratt
til hins verra ef dauðsföllum
vegna veirunnar fjölgar að
mun og hagkerfið nær sér ekki á strik fram að
forsetakosningum. Til þessa hefur forsetinn
eignað sér þá efnahagslegu velgengni sem ríkti
í landinu fyrir veirufaraldurinn. Kreppan mikla
árið 1929 olli miklum breytingum á hinu póli-
tíska landslagi í Bandaríkjunum. Þáverandi
forseti, Hoover, sem var almennt tal-
inn hafa verið aðgerðalítill í barátt-
unni við kreppuna, tapaði kosning-
unum með eftirminnilegum hætti
árið 1932 fyrir Roosevelt, sem kom
fram með skýra áætlun til að endur-
reisa efnahaginn. Hugsanlega gæti
sagan endurtekið sig á haustmánuð-
um og nýr húsbóndi tekið við í Hvíta
húsinu.
Aðgerðaleysi ESB í
veirufaraldrinum dýrkeypt
Ég er ekki hér til að bjarga ykkur.
Þessi orð gætu hæglega hafa fallið af
munni Ursulu von der Leyen, forseta fram-
kvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í
miðjum faraldrinum. Á heimsráðstefnunni um
efnahagsmál í Davos í Sviss sem haldin var í
janúar, einum mánuði áður en fyrsta veirusmit-
ið kom upp á Ítalíu, minntist von der Leyen
ekki einu orði á veirufaraldurinn heldur ræddi
iloftslagsmál. Þetta gerðist þrátt fyrir að á
sömu ráðstefnu hefðu bandarískur farsóttar-
sérfræðingur varað sterklega við því sem væri í
vændum og hinn sama dag settu Kínverjar
Wuhan-borg í sóttkví. Um kvöldið hélt svo Al-
þjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO neyðar-
fund um málið í Genf. Mál málanna hjá von der
Leyen voru hins vegar loftslagsmálin. Hún hef-
ur nú beðið Ítali afsökunar á að Evrópusam-
bandið hafi ekki rétt fram hjálparhönd á
neyðarstundu.
Þrátt fyrir að hafa lifað af fjármálakreppuna
2008, flóttamannastrauminn til Evrópu og
Brexit er ekki sjálfgefið að ESB lifi veirufarald-
urinn af í núverandi mynd. Sambandið liggur
undir ámæli fyrir aðgerðaleysi á mörgum svið-
um í baráttunni við faraldurinn. Ljóst er að
framkvæmdastjórnin svaf á verðinum. Það
gæti reynst sambandinu dýrkeypt. Ítalir eru
reiðir í garð sambandsins. Þar líta menn svo á
að Rússar og Kínverjar hafi verið þeir einu sem
komu þjóðinni til aðstoðar á hættutímum. Af-
sökunarbeiðni ESB til Ítalíu dugir skammt.
Óánægjan nær til fleiri ríkja. Alþjóðastjórn-
málin standa á krossgötum vegna veirufarald-
ursins. Evrópusambandið gæti þurft að berjast
fyrir lífi sínu á komandi misserum. Á hliðarlín-
unni fylgjast Rússar vel með framgangi mála.
Eftir Birgi
Þórarinsson » Þrátt fyrir að hafa lifað af
fjármálakreppuna 2008,
flóttamannastrauminn til Evr-
ópu og Brexit er ekki sjálfgefið
að ESB lifi veirufaraldurinn af
í núverandi mynd.
Birgir Þórarinsson
Alþjóðastjórnmál á krossgötum
Höfundur er þingmaður Miðflokksins.
Mér til nokkurrar gleði horfi
ég á hverju föstudagskvöldi á
Gísla Martein Baldursson í
þættinum „Í vikulokin“. Hann
fær til sín góða gesti, en oftast
voru þeir einsleitir eins og úr
einkavinahópi hans. Þættirnir
hafa breikkað og þróast í betri
átt á nýju ári og gestirnir kom-
ið meir úr afrekum líðandi
stundar. Gísli Marteinn er
glaðastur allra manna með
smitandi hlátur og hlaðinn
visku á öllum sviðum nútímans. Þórólfur
Guðnason sóttvarnalæknir lék þar á gítar sinn
og söng gleðisöngva, í þar síðasta þætti. Mik-
ill undramaður Þórólfur.
Nú gerðist það að Kári Stefánsson var
mættur og sat þungbúinn eins og Óðinn með
eitt auga og hafði heitið því að segja ekkert í
þættinum. Ég er viss um að Kári var hvorki
glaður né reiður þetta kvöld, hann var stað-
ráðinn í að beita öllum sínum töfrum og nota
vitið meira en hláturinn. Hann átti mögnuð
innskot og sum þeirra komu eins og skratt-
inn úr sauðarleggnum. Eitruðum örvum
skaut hann miskunnarlaust til viðstaddra,
sem gerði þáttinn að góðri veislu í stofunni
heima. Með í þættinum voru stjörnur tvær,
þær Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
og kvikmyndastjarnan Hera Hilmarsdóttir.
Þær stóðu sig auðvitað vel báðar tvær.
Landbúnaðinn og starf bændanna hefur
sjaldan borið þarna á góma en slíkur var
málflutningur Kára að hann á lof fyrir inn-
komu sína í hlátraskallaþáttinn. En hvað var
ólíkindatólið, vísindamaðurinn og heimsborg-
arinn Kári að segja þetta kvöld í skemmti-
þætti? Í fyrsta lagi lagði hann ferða-
málaráðherra til mögnuð úrræði til að
endurvekja ferðaþjónustuna fyrr
hér en í nokkru öðru landi.
Um gróðurhús
og ódýra orku
Kári hóf innreið sína óvænt
með eftirfarandi boðskap: „Við
verðum að breyta hugmyndum
okkar sem þjóð. Við erum ekki
bara hluti af „glóbalíserurðum“
heimi. Við erum þjóð sem býr á
eyju og verðum að geta fætt okk-
ur þótt komi kreppa eða far-
aldur. Við verðum að beina sjón-
um okkar að landbúnaði á annan
hátt en við höfum gert hingað til.
Hvers vegna erum við að flytja inn allt það
grænmeti sem ræktað er í gróðurhúsum er-
lendis? Af hverju ræktum við það ekki sjálf
hér? Það eina sem þarf til að rækta græn-
meti í gróðurhúsum er ódýr orka. Flest
bendir til að álfyrirtækin muni ekki nota alla
þá orku sem þau hafa notað hingað til. Af
hverju ekki að gefa orkuna til grænmetis-
ræktunar í gróðurhúsin tímabundið til að
skapa forskot.“
Þegar Þórdís Kolbrún fór að tala um að Ís-
land væri lottóvinningur sagði hann eitthvað
á þessa leið: „Ég mótmæli harðlega þessari
samlíkingu. Ísland er eyja í Norður-
Atlantshafi sem menn fluttu til fyrir ellefu
hundruð árum og þúsund ár af þessum ellefu
hundruð árum sultum við hér. Það var eng-
inn landbúnaður sem skipti máli í landinu.“
Svo bætti hann við: „Við verðum að fara að
yrkja okkar land öðruvísi en við höfum gert
hingað til. Nýta landið öðruvísi en við höfum
gert.“ Þetta er rétt hjá Kára.
Kári leiði nefnd um landbúnað
og matvælalandið Ísland
Nú er það tillaga mín að nýr formaður
Bændasamtakanna, Gunnar Þorgeirsson,
leggi til við forystumenn ríkisstjórnarinnar
að Kári verði settur fyrir nefnd um hvernig
ber að efla Matvælalandið Ísland. Landbún-
aðurinn er eitt af stærstu tækifærum þessa
lands, sem á þúsund möguleika, ekki síst eft-
ir covid-19-faraldurinn. Kári Stefánsson, sem
best þekkir heiminn og vísindin, er heims-
borgari, mikils metinn fræðimaður og sér
gæði og heilbrigði matvælanna sem bændur
bera á borð neytenda úr hreinni jörð. Íslensk
landbúnaðarframleiðsla er af heilbrigðum bú-
fénaði, þar sem öll lyfjanotkun er í lágmarki.
Við eigum gullnámu matvælanna.
Kári hefur talað. Hverjar eru nú ykkar til-
lögur, Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benedikts-
son og Sigurður Ingi Jóhannsson? Þið skuluð
byrja einn fræðslufund með Kára. Af þeim
fundi mynduð þið koma margfróðari um
tækifæri landbúnaðarins og sjá matvæla-
landið Ísland í nýju ljósi.
Orð Sigurðar jarls, sem hann mælti fyrir
þúsund árum, hafa gengið í endurnýjun líf-
daga: „Engum manni er Kári líkur í hvatleik
sínum og áræði.“
Kári Stefánsson boðar nýja landbúnaðarstefnu
Eftir Guðna
Ágústsson
»Er það tillaga mín að nýr
formaður Bændasamtak-
anna, Gunnar Þorgeirsson, leggi
til við forystumenn ríkisstjórn-
arinnar að Kári verði settur fyr-
ir nefnd um hvernig ber að efla
Matvælalandið Ísland.
Guðni
Ágústsson
Höfundur er fv. alþingismaður og ráðherra.
Morgunblaðið/Eggert
Kári Stefánsson spurði: „Hvers vegna erum við að
flytja inn allt það grænmeti sem ræktað er í gróðurhúsum
erlendis? Af hverju ræktum við það ekki sjálf hér?“