Austri


Austri - 21.12.1995, Blaðsíða 11

Austri - 21.12.1995, Blaðsíða 11
Jólin 1995. AUSTRI 11 Hrakför inn á dal Eftirfarandi frásögn barst frá Svanbjörgu Sigurðardóttur Hánefs- stöðum, Seyðisfirði. Þátturinn er skráður af föður hennar Sigurði Vil- hjálmssyni fyrir u.þ.b. 30 árum síðan. Sigurður fæddist 7. mars árið 1892 og lést árið 1968. Haustið 1931 var auð jörð fram eftir öllu. Fram að jólum gekk sauð- fé sjálfala hér í dalnum. Svo er hátt- að landið hér, að til suðvesturs ligg- ur æði víðlendur dalur milli fjall- anna. Að austanverðu smáhækkar dalurinn í óteljandi hjöllum upp að háfjöllunum. Dalur þessi er ca. 12 km. á lengd inn að háfjöllunum fyr- ir botni hans. Það munu vera um 5 km. milli háfjallanna þar sem dalur- inn er breiðastur. Eftir dalnum fellur á í gljúfrum, utan til, er hún ekki mjög vatnsmikil venjulega en getur orðið hið mesta forað í leysingum og vatnsveðrum. Ain heitir Sörla- staðaá og skilur lönd Hánefsstaða og Sörlastaða. Hánefsstaðamegin að austan renna í Sörlastaðaá Selá ca. 4 km. leið að heiman og Stórurðará ca. 7 km. frá bænum. Báðar geta þessar þverár orðið allmiklar og illar yfirferðar. Ég hafði hugsað mér að hafa allt fé í húsi um jólin þar sem fengitíð fór í hönd. Á Þorláksmessu ætlaði ég að smala og bjóst við að geta náð öllu fénu án þess að hafa menn með mér. Ég fór því einn í smalamennsk- una, en með því að dagur er stuttur á Þorláksmessu og féð var á víð og dreif um dalinn entist mér ekki birt- an. Vantaði um 50 kindur. Á að- fangadag var enn sama góða veðrið, en ég lét ekki út féð sem heima var. Svipaðist ég um eftir því sem vant- aði árangurslaust. Ég hafði norskan vinnumann þetta ár, mesta ágætispilt. Hann hirti kýr og hesta og annaðist ýmsa snúninga fyrir heimilið. Svo var það á jóladags- morguninn þegar ég kom á fætur, að ég sá að féð hafði verið látið út. Þá hafði Svend, en svo hét norðmaður- inn, opnað fyrir fénu til þess eins og hann sagði að spara mér ómak. Veð- ur var gott og marauð jörð eins og að undanfömu, ég rak samt féð aftur saman og hýsti það og gaf því. Vegna þess hvað veðrið var gott fór ég ekkert að skyggnast eftir því sem vantaði, enda gat ég búist við því að það drægi sig heimundir. Annan jóladag var enn gott veður og þá frétti ég að stór fjárhópur hafi sést langt inní dal. Hafði Sörlastaða- bóndinn séð hópinn þegar hann var að smala. En af því áliðið var dags þegar ég frétti af kindunum lét ég Seyðisfjörður. þær eiga sig. Hermann bróðir minn bjó á Hrauni sem er grasbýli í tún- fætinum á Hánefsstöðum. Hann átti nokkrar kindur og vantaði þær. Um morguninn þriðja í jólum fórum við Hermann kringum kl. 9 inn í dal á vit við féð. Þá var farið að snjóa lít- ilsháttar og útlit ískyggilegt. Við héldum svo eins og leið liggur inn dalinn og sóttist vel og eftir rúman klukkutíma vorum við komnir inn að Stórurðará. I tungunni, sem er innan við ána þar sem hún rennur í Sörlastaðaána var allt féð saman- safnað. Báðar voru árnar fullar af ís og krapa og hvorug árennileg. Það varð svo að samkomulagi milli okk- ar að ég færi inn fyrir ána en Her- mann tæki á móti fénu. Ég komst yfir án þess að blotna mjög mikið, og fór fyrir fjárhópinn og ætlaði að reka hann út yfir, en féð var vitlaust í styggð og í staðinn fyrir að fara yfir Stórurðarána setti sumt út í Sörlastaðaána, sem var miklu dýpri og þar að auki full af krapa. I miðri ánni stöðvaðist féð og komst ekki lengra en áin beljaði yfir kindurnar sem lengst voru komnar. Það var því ekki um annað að gera en fara Ljósm. Mats Wibe Lund. fyrir kindurnar. Ég fór út í ána og komst fyrir þær. Áin náði mér í mitti. Mér tókst að snúa hópnum við og koma honum upp úr og svo eftir nokkurt þóf út yfir Stórurðarána. Meðan á þessum stympingum stóð hafði veðrið versnað og eftir litla stund var komin grenjandi stórhríð með miklu frosti og náttmyrkrið á næstu grösum. Fyrst í stað gekk sæmilega að reka féð en fljótt varð það mikil ófærð að þungfært varð fyr'r rennvotar kindurnar. Dimm- Sigurður Vilhjálmsson viðrið var orðið svo mikið að ekkert sást, fötin á mér gaddfrusu. Ég greip þá eina kindina og dró hana og bar á undan hópnum en Hermann rak á eftir. Hann var þurr og vel búinn og gat mjakað fénu á eftir. Nú var kom- ið náttmyrkur með hríðinni svo ekk- ert sást, samt héldum við áfram og smáþokuðumst í áttina heim. Ég vissi alltaf hvar við vorum og varð var við þegar við fórum yfir Selána. Þegar þangað var komið var ég far- inn að finna til þreytu, en alltaf hafði mér verið nógu heitt vegna erfiðisins við að drasla kindinni á undan. Við héldum svo áfram enn um stund en eftir því sem þreytan sagði meir til sín fór ég að finna til kulda. Við ákváðum því að skilja féð eftir þar sem við vorum komnir og höfðum komið því ca. 4 km. í átt heim. Það var ekki sársaukalaust að skilja við féð eins og það var á sig komið. Rennandi vott upp úr ánum og auðvitað gaddfrosin ullin á því en um annað var ekki að ræða þar sem ég var að þrotum kominn. Her- mann kafaði fyrir það sem eftir var leiðarinnar heim en það voru 3-4 km. Heim komum við kl. 11 um kvöldið og höfðum þá verið 14 klukkutíma í leiðangrinum, þar af um 11 tíma að koma fénu þessa leið sem áður getur. Fötin voru samfros- in og komst ég ekki hjálparlaust úr þeim, ég fór inn í stofu eins og ég stóð og þar dreif kona mín mig úr öllum fötum. Hvergi voru þau frosin við mig nema dálítill blettur framan á hægri fótar stórutá. Þegar ég var kominn í þurr föt og búinn að borða var ég orðinn hress, því ég var alveg kominn að því að gefast upp þegar ég komst heim. Það varð mér til hjálpar að Hermann kafaði fyrir mér á leiðinn heim. Féð hafði ekki kom- ið heimundir eins og ég þó bjóst við að það mundi gera vegna þess hvemig ástatt var við Stórurðarána, þar var allt frosið. Á leiðinni inneft- ir til kindanna fundum við nokkrar kindur sem höfðu sloppið frá fénu sem heima átti að vera. Þar sem þær voru rétt á leiðinni hreyfðum við ekkert við þeim. Með birtu daginn eftir fórum við svo fjórir saman til að sækja féð. Allmikil ófærð var og reyndum við að gera slóð svo léttara yrði að reka heim. Nokkur snjó- koma var og skafrenningur svo slóðin hélst illa. Við komum að fénu þar sem við skildum við það kvöld- ið áður. Þá voru kindumar sem við sáum á leiðinni inn dalinn daginn áður komnar saman við fjárhópinn. Féð hafði ekkert hreyft sig frá því sem skilið var við það í myrkrinu kvöldið áður. Reksturinn heim gekk seint, þó náðum við heim áður en fór að dimma. Það var ekki hægt að sjá að neitt hafi orðið að fénu, þrátt fyrir hrakninginn og frostið. * Olína á hnotskóg Fyrir skömmu kom út bókin „íslenskar þjóðsögur: ÁLFAR og TÖLL“, sem Ólína Þorvarðardóttir hefur valið og búið til prentunar. Auk þess ritar hún langan og mjög fróðlegan formála fyrir útgáfunni. Teikningar eru eftir Ólaf M. Jóhannesson. Utgefandi er Bóka- og blaðaútgáfan s.f. 1995. (176 bls.). Ólína Þorvarðardóttir er vel þekkt af störf- um sínum við dagblöð, tímarit og sjónvarp, og vegna þáttöku í stjórnmálum, þar sem hún hefur getið sér orð fyrir snjalla og djarflega framgöngu. En Ólína er ekki öll þar sem hún er séð. Eftir að hafa alið fimm böm í heiminn, tók hún sér fyrir hendur að læra þjóðfræði við Háskólann í Reykjavík, og hefur nú um tíð stundað kennslu í þeim fræðum við sama skóla. Ólína er dóttir Þorvarðar lögfræðings, Þor- steinssonar. Foreldrar hans voru Þorsteinn Jónsson, sem stýrði Kaupfélagi Héraðsbúa af skörungsskap í marga áratugi, og Sigríður Þorvarðardóttir Kjerúlfs, læknis og alþingis- þingmanns. Móðir Ólínu er Magdalena Thoroddsen, úr Barðastrandasýslu, sem er í ætt við Ólínu og Herdísi, Andrésdætur, skáld- konur og þjóðfræðaþuli, sem lögðu mikið til þjóðsögusafnanna Gráskinnu og Rauðskinnu. Má því segja að Ólínu yngri kippi í kynið, bæði í stjómmálum og þjóðfræðum. Þessi þjóðsagnabók Ólínu er á ýmsan hátt nýstárleg, og kæmi ekki á óvart þótt hún yrði síðar talin brjóta blað í útgáfu þjóðsagna á Is- landi. Því veldur fyrst og fremst „formáli“ höfundar, sem reyndar er enginn venjulegur formáli, heldur fræðileg ritgerð um íslenskar vættasögur, um 30 bls. að stærð, með smáu letri. Minnist ég ekki, að þessum þætti þjóðsagna hafi áður verið gerð jafn góð skil á prenti í bók- um fyrir almenning. Þetta á sérstaklega við um tröilasögurnar, því að um huldu- fólkssögur hefur ýmislegt verið ritað áður í þessa veru. Við höfum hneigst til að líta á tröllasögur sem ýkjukenndar skemmtisögur, en höfundur bendir á, að margar tröllasögur séu ekki síður merkilegar og girnilegar til fróðleiks um mannlegt eðli, hugarheim íslendinga, og um samspil mann- lífs og náttúru, en huldufólkssögurnar. Auk þess eru skilin milli þessara tveggja vætta- flokka oft næsta óljós í þjóðtrúnni. Þjóðsagnafræði hefur í seinni tíð færst nokkuð inn á það svið, sem kalla mætti sál- fræðilega útskýringu sagnanna, þar sem því er haldið fram, að þær séu á ýmsan hátt spegill sálarlífsins og dulvitundar manna. Oft er þetta að vísu eins konar spéspegill, eitthvað í ætt við drauma, og þarf að „ráða“ á sama hátt og þá. Ólína ritar nokkuð um þessa þjóðsögu- skoðun í formála sínum, án þess þó að hætta sér langt út í þann frumskóg, sem mörgum mun reynast villugjarnt í. Tíðrætt verður henni um hag- nýtan og siðferðilegan boðskap, sem hún telur vera gegnumgang- andi í vættasögunum. í álfasög- um er hófsemin fyrsta boðorðið, eins og í Hávamálum forðum. „Næst hófsemisboðinu ómar ákall misskunnsama Samverj- ans, að synja ekki þurfandi. Sá sem skorast undan slíku kalli er ógæfumaður. Sömuleiðis sá sem víkur sér undan því að axla ábyrgð gjörða sinna." Siðfræði tröllasagna telur hún vera: „að virða frumrétt alls sem lifir; að gera ekki illt að óþörfu; að veita hjálp í nauðum, og að ganga vel um náttúruna." Jafnframt fela þær í sér „áskorun um að halda jafnaðargeði, og beita ráðsnilld, sanngirni og hugrekki frammi fyrir því, sem hver maður óttast eða álítur of- urefli sitt í lífinu. Um leið taka tröllasögur á óræðum tilfinningum af ýmsum toga“, og gera ýmist að ala á eða leitast við að eyða margvíslegum ótta. Að lokum fer höfundur nokkrum orðum um skráningu og útgáfu þjóðsagna, og setur fram athyglisverða skoðun á því máli, sem bæði er raunhæf í framkvæmd og skynsamleg, enda er henni fylgt í bókinni. Inntak þeirrar stefnu er „að sameina varðveislu og viðgang“ þjóð- sagnanna, eins og höfundur orðar það. Hún telur mikilvægt að skrásetja sögurnar ná- kvæmlega í fyrstu, en það ætti ekki að koma í veg fyrir að menn haldi áfram að umskapa þær. Vísað er til fjölmargra heimilda neðanmáls í formálanum, sem eykur mjög gildi hans. Bókin er smekklega uppsett, með skýringum neðanmáls og ýtarlegum nafna- og atriðis- orðaskrám í bókarlok. Teikningar eru samt heldur fábreytilegar, t.d. hafa skessurnar á þeim aðeins tvenns konar andlit. Þótt vandað sé til frágangs bókarinnar hef- ur prentvillupúkinn ekki alveg sneitt hjá garði (kannske er hann einn af vættunum!). Af ein- hverjum óskiljanlegum ástæðum er Ármann Halldórsson nefndur Ármann Austmann í heimildaskrá, sem er út af fyrir sig ágætt nafn og vel til fundið. Þessi bók Ólínu Þorvarðardóttur á sérstakt erindi til okkar Austlendinga, ekki aðeins vegna uppruna hennar, heldur líka vegna þess, að Austurland getur státað af meiri þjóðsagna- hefð en aðrir landshlutar, og nægir þar að nefna þá frændurna Björn frá Viðfirði og Sig- fús frá Eyvindará. H. Hall.

x

Austri

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Austri
https://timarit.is/publication/792

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.