Austri


Austri - 21.12.1995, Blaðsíða 10

Austri - 21.12.1995, Blaðsíða 10
10 AUSTRI Jólin 1995 Bragi Björgvinsson: Jólasagan hennar langömmu Hurðin að herberginu hennar langömmu laukst hægt upp og inn um dyrnar gægðist ósköp varlega hún Stína litla sem er á áttunda ár- inu. Hún er með mikið ljóst og liðað hár sem sveipast um axlir hennar, stór himinskær augu og spékoppa í kinnum. Langamma hennar hún Olöf er fremur lasburða, enda nærri sjötíu og átta ára gömul. Hún hafði lagt sig út af á rúminu í rökkurbyrj- un eftir erfiði dagsins því hún vildi líka hjálpa til við undirbúning jól- anna líkt og aðrir gerðu. Það var reyndar aðfangadagur jóla í dag og hún var ósköp þreytt orðin eftir allt þetta tilstand, sem henni fannst nú keyra úr hófi fram. „Ertu sofandi amma mín,“ hvísl- aði Stína litla í dyragættinni. Hún kallaði langömmu alltaf ömmu. „Nei, ekki er ég það nú lambið mitt, ég var bara að láta líða úr mér stundarkorn." „Amma mín, viltu segja mér sögu, mér leiðist svo að bíða eftir jólunum. Hún má vera voða stutt,“ sagði Stína litla. „Ekki get ég nú neitað þér um það lambið mitt fyrst þú biður mig svona fal- lega, en ætli ég sé ekki búin að gleyma flestum sögum,“ sagði amma. „Þú sagðir mér nú sögu í gærkvöldi svo ekki ert þú búin að gleyma þeim öllurn," sagði Stína . „Það er þá líklega best að ég rifji upp atburð sem skeði á aðfangadag jóla fyrir löngu, löngu síðan, skömmu eftir að við afi þinn fórum að búa. Heyskapur stóð að þessu sinni langt fram á haust eins og raunar oft fyrr og síðar, því við höfðum ekki önnur tæki en orfið og hrífuna til að afla heyja. Þegar smal- að var um haustið vantaði afa þinn tvær uppáhaldsærnar okkar, Stóru- Hvít og Prýði, sem var með ljóm- andi fallega mjallahvíta gimbur. Það var nú reyndar ekkert nýtt að hún Stóra-Hvít skilaði sér ekki í fyrstu smölun. Það var eins og hún hefði alltaf lag á því að laumast framhjá smalamönnum. Hún sást stundum inn á innsta afrétti. Þar er kjammik- ill gróðurinn og nýgræðingur fram eftir öllu sumri. Það hefur hún Stóra-Hvít fundið enda skilaði hún ætíð bestu lömbunum að hausti. Ojá, það gerði hún Stóra-Hvít, það held ég nú og það má ég segja rétt enda hélt hann afi þinn ósköpin öll upp á hana, lambið mitt.“ „Er hann ekki langafi minn,“ spurði Stína. „Jú, auðvitað er hann langafi þinn, en þú kallar mig alltaf ömmu svo þá getum við bara sagt afi,“ sagði amma, og svo hélt hún áfram sög- unni. „Það var góð tíð þetta haust og afi fór oft að skyggnast eftir kindunum en aldrei fann hann Stóru-Hvít og Prýði. O, hún skilar sér og sínum hún Stóra-Hvít, sagði hann afi þinn þegar snuggar verulega að.“ „Þetta finnst mér skn'tið, hvað er það nú að snugga að?“ spurði Stína litla. „Það er von þú spyrjir, lambið mitt. Það er sjaldgæft nú til dags að taka svo til orða. Það hefur snuggað að var sagt þegar snjó setti í fjöll og jafn- vel niður í miðjar hlíðar, einkum ef gerði bleytusnjó með frera og jarð- bönn í efra. Þá voru nú flestar kind- ur fegnar að hypja sig í áttina heim á leið. Það snuggaði ekki verulega að þetta haustið fyrr en seinnipart Þorláksmessu. Þá gerði ansans snjó- komu og kafald. Þegar afi þinn kom inn frá gegningum um kvöldið sagði hann við mig ákveðnum rómi. „Olöf mín, ég má ekki til þess hugsa að kindumar okkar fenni eða farist á annan hátt nú um jólin. Það er kominn svo mikill snjór o g því bor- in von að kindumar komist heim af eigin rammleik. Eg þykist þess full- viss að hún Stóra-Hvít hafi kippt sér heim á leið þegar tók að snjóa í dag og það með halarófuna á eftir sér.“ „Guð almáttugur hjálpi okkur,“ sagði ég og varð ekki um sel. „Þú ert nú ekki einn í heiminum og verður að hugsa til mín og bamsins, hvernig okkur kann að líða, elskan mín og mátt þess vegna ekki hugsa eing öngu um þessar kindaskjátur. Eru þær kannski meira virði en ég og litla barnið okkar?“ „Nei, alls ekki, elsku ljósið mitt,“ sagði h ann afi þinn þá og tók mig í fang sér. Þá hvarf mér nú allur ótti. Hann var hraustmenni hann afi þinn, það get ég borið um. „Þið eruð í öruggu skjóli og ekkert getur amað að ykk- ur, en blessaðar kindumar hafa ekki skjól nema þær séu þá fenntar í kaf og geta verið í stórhættu á margan hátt. Tásla er fljót á kreik ef eitthvað bjátar á fyrir kind. Margar hef ég séð illa útleiknar eftir þann skolla. Ég er ungur og hraustur og svo hef ég hann Seppa minn. Hann er betri en enginn. I bítið í fyrramálið fer ég að leita kindanna ef veður verður skaplegt,“ sagði hann afi þinn bless- aður ákveðnum rómi. „Það verður að fara eins og Guð á himnum vill,“ sagði ég eins stillilega og mér var unnt. „Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir," sagði hann afi þinn, og þá varð ég nú róleg eða reyndi að sýnast það. A aðfangadagsmorgun hafði veðrið gengið niður að mestu. Afi þinn var uppi fyrir allar aldir. Ég tók í snarhasti til nesti handa honum og Seppa greyinu. Afi þinn tók stóru broddstöngina sér í hönd og snarað- ist út í hinn dimma og gráa aðfanga- dagsmorgun með Seppa hoppandi sér við hlið. En ég stóð eftir í dyr- unum nokkra stund með ungabarn- ið dúðað í fanginu, horfði út í fjúkið og bað Guð að blessa þá félaga og að þeir fyndu kindurnar heilar á húfi og kæmust heim með þær áður en heilagt yrði.“ Nú gat Stína litla ekki á sér setið að spyrja. „Þú segir svo mörg skrítin orð, amma mín. Hvað er það að verða heilagt?“ „Klukkan sex á að- fangadagskvöld ganga jólin í garð og þá er talað að sé orðið heilagt,“ svaraði amma. „Jæja, lambið mitt,nú held ég áfram sögunni. Mér var ekki rótt þar sem ég stóð í bæjardyrunum og rýndi út í snjó- hraglandann. En ekki tjóaði að leggja árar í bát. Nú varð ég að sinna útiverkunum. Ég byrjaði á því að fara í fjósið en í það var innan- gengt eftir löngum göngum. Það gekk allt prýðilega. Ég gaf Skjöldu minni blessaðri það besta hey sem ég fann í hlöðunni, mjólkaði hana síðan og gaf kálfinum hennar volg- an mjólkursopa. Síðan bað ég Guð á himnum að blessa hana Skjöldu mína því að henni áttum við sannar- lega mikið að þakka. Nú tók mun erfiðara verk við en það var að fara á fjárhúsin, en þau voru drjúgan spöl í burtu og upp brattan hól að fara og viðbúið að ég þyrfti að kafa snjóinn mikinn hluta leiðarinnar. Ég bjó mig því út sem best ég gat og endaði á þvf að dúða blessað barnið svo nær ekkert sást í andlitið á því. Þegar ég opnaði bæjardyrnar stóð fannstrókurinn beint í fangið á mér. Mér leist ekki á blikuna því veðrið hafði versnað til muna. En ekki dugði að láta deigan síga. Ég snar- aðist út í kófið og stefndi til fjárhús- anna með drenginn minn í fanginu. Þegar ég kom upp í stóru lautina neðan við fjárhúshólinn gerði svo dimmt og hvasst él að ég sá ekki handa skil. Þá fannst mér líkt og ég ætlaði að kafna því það fennti svo framan í mig. Ég óttaðist líka mjög að eitthvað yrði að drengnum. Hann var farinn að gráta. Þar sem ég sat nú þarna hálfföst í snjónum í hríðinni bað ég Guð al- máttugan að hjálpa okkur og einnig honum afa þínum og Seppa er lík- lega væru að berjast á móti hríðinni langt inni á dal. Við þetta varð mér rórra og ég tók að brjótast áfram á nýjan leik.“ „En amma mín, varstu ekki voðalega þreytt og hrædd," gat Stína litla ekki stillt sig um að spyrja. „Og hvernig gekk honum afa mínum og Seppa greyinu. Fundu þeir kindurnar og komust þeir heim í þessu vonda veðri,“ spurði hún og var greinilega mjög spennt. „Já, heim komust þeir með Guðs hjálp, lambið mitt. Jú, jú, vissulega var ég þreytt og hrædd, en þegar ég opnaði fjárhúsdyrnar og sá hvað blessaðar kindurnar voru ró- legar þá varð mér strax hughægra. Ég setti drenginn minn svona dúð- aðan í heybing innst í öðrum garð- anum og þar lá hann hinn rólegasti allan tímann. Ég var lengi í fjárhús- unum. Þar var svo mikill friður sem hafði róandi áhrif á mig. Ég gaf kindunum eins og þær vildu éta af heyi og þegar þær lögðust og fóru að jórtra þá fyllti ég garðann aftur svo þær hefðu nóg að éta til morg- uns, því ég treysti mér ekki til að fara aftur upp í fjárhús mið. Ég vildi líka fría hann . við að fara til fjárhúsa ef h. emi mjög seint heim. Sem betui fer var komið sæmilegt veður þegar ég var búin í húsunum og gekk mér því greiðlega heim. Þegar heim kom fór ég að sjóða hangikjötið og sýsla við annan jóla- undirbúning. Eftir nokkurn tíma brast aftur á blindhríð með mikilli fannkomu og auknu frosti. Hríðin hamaðist án afláts á þekjunni og vindurinn ýlfraði ámátlega. Þá fyllt- ist ég slíkri skelfingu að ég hélst ekki við í bænum. Ég tók drenginn í fangið, ljóstýru í aðra höndina og hljóp eftir göngunum út í fjós. Þar grúfði ég mig niður að Skjöldu og bað hana heitt og innilega að biðja með mér Guð á himnum að bjarga manninum mínum og skepnunum sem hann vildi koma til húsa. Skjalda lagði hausinn upp að brjósti mínu, eins og hún skynjaði það að ég þyrfti hughreystingar við. Enda rénaði ótti minn og hræðsla svo að ég lagði drenginn minn íjötuna við annan auða básinn og tók að sinna fjósaverkunum, þótt í fyrra lagi væri. Ég hafði sett ljós í alla glugga áður en ég fór fram í fjós og þorði ekki annað en hraða mér inn. Allt í einu heyrði ég að klukkan sló sex högg. Það var sem sé orðið heilagt þó ekki fyndi ég mikið fyrir því í hjarta mínu. Um svipað leyti tók ég eftir því að mjög hafði sljákkað í veðurhamnum á þekjunni. Ég gekk því fram að dyrunum og leit út. Það var hætt að snjóa og léttur andvari bærði sinustráin sem stóðu klaka- hneppt upp úr snjónum í varpanum. Meira að segja sendu nokkrar stjörnur mér blik sitt úr skýjarofi. Ég lofaði drottinn hástöfum fyrir miskun sína. Hann hafði bænheyrt mig. Ég starði hugfangin upp til stjarnanna uns mér var orðið hroll- kalt. Þá snaraðist ég inn og sótti tvö kerti er lýstu undursamlega. Ég fór með kertin út á hlað, allt var dottið í dúnalogn svo að rétt bærðist kerta- ljósið. Ég gekk með ljósin nokkra hringi í kringum bæinn, ef hann afi þinn kynni að þarfnast leiðsagnar og sjá ljósið mitt. Mér hafði létt mjög í hjarta því nú var ég þess nær full- viss hann bjargaði sér og skepnun- um heim í kvöld. Ekki veit ég hvað það var sem gerði þetta hugboð mitt að nær full- vissu. Ég var allt í einu svo glöð að ég þaut inn, tók drenginn minn í gangið og fór að raula jólasálminn yndislega - í dag er glatt í döprum hjörtum. Svona hélt ég áfram að syngja jólasálma og lesa upphátt í biblíunni fyrir barnið. Svo er það þegar klukkan slær átta að ég heyri ég mér til ósegjan- legrar gleði og hugarléttis að knúð er dyra. Blóðið þaut um mig alla og ég stökk fram að dyrum. Hvað held- urðu að ég hafi séð þarna úti, elsku barnið mitt?“ „Ætli afi minn og Seppi greyið hafi ekki verið komnir með kindurnar," svaraði Stína. „Jú, svo sannarlega voru þeir kornnir með kindurnar sem okkur vantaði. Þær voru flestar mjög klakabrynjað- ar svo það hringlaði í þeim er þær hreyfðu sig. Það var líkt og ótal silf- urbjöllur héngu í ull þeirra.“ Nú gat Stína litla ekki stillt sig um að grípa fram í söguna og sagði: „Ætli Guð hafi ekki bara hengt svona margar silfurbjöllur á kindurnar af því að jólin voru að koma. Hvar fann hann afi minn svo kindumar? Þær hljóta að hafa verið voða langt í burtu fyrst han n var allan daginn að leita?“ „Þú getur rétt til, lambið mitt,“ sagði amma. „Þær voru sannarlega langt í burtu. Hann afi þinn sagði mér að þær hefðu verið næstum innst inni í Daladrögum. Hann áleit að þær hefði lagt af stað heim þegar fór að snjóa en strandað við Illagil. Hann sagði líka að Seppi greyið hefði fundir Prýði og lambið hennar en þær voru nær alveg fenntar í kaf. Afi þinn blessaður mátti sennilega ekki seinni vera að leita kindanna. Að öðrum kosti hefði ekki þurft að spyrja eftir afdrifum þeirra. Hann var svona lengi, af því hann þurfti víða að troða slóð fyrir kindurnar. En snúum okkur aftur að heim- komu afa þíns. Þar sem hann stóð þarna úti, stökk ég upp í fangið á honum og kyssti hann rembingskoss þótt það væri klaki í skegginu hans.“ „Oj bara, hvernig gastu það?“ spurði Stína og gretti sig. „O sei, sei. Við vorum nú ekki með neinn hégómaskap í þá daga, lamb- ið mitt,“ sagði amma. „Hann afi þinn vafði mig svo fast að sér að ég náði varla andanum. Já, hann var hraustmenni hann afi þinn, það má ég rétt segja,“ sagði amma hreykin. „Þar sem hann heldur mér svona fast í fangi sínu þá segir hann við mig. „Það var ljósið þitt sem bjarg- aði mér, elskan mín. Ég var nær ör- magna orðinn og sestur að í snjón- um en ljósið gaf mér nýja von og aukið þrek til að halda áfram. En eigum við ekki að hýsa kindurnar í fjósinu. Við getum sett þær á auðu básana.“ „Jú, það skulum við sann- arlega gera,“ sagði ég ánægð. Þar er miklu hlýrra og notalegra. Kindum- ar voru óðfúsar að fara inn og auð- velt að reka þær inn göngin og alla leið inn í fjós. Ég fór á undan með ljós í hendi. Við gáfum þeim svolitla heytuggu. Afi þinn sagði að ekki væri rétt að gefa þeim mikið fyrst í stað enda kynnu lömbin ekki átið. „Við kennum þeim átið á morgun," sagði hann. Þegar þetta var farsællega í höfn bar ég loks fram jólamatinn því ekki hafði mér til hugar komið að smakka á honum meðan afi þinn barðist fyrir lífi sínu og skepnanna. Ég held að ilmandi jólamaturinn hafi hvorki fyrr né síðar bragðast eins vel og þetta aðfangadagskvöld og ákaflega vorum við afi þinn hamingjusöm. Helgi jólanna var sannarlega komin á litla heimilið okkar og jólanóttinn færðist yfir með friði sínum og fegurð. Ljósanna hátíð Ijúfog blíð leiti þín gjörvalt heims um ból. Ef stefnir þú veikt mót stormi og hríð stjarnanfœri þér heiðríkjól. B.B.

x

Austri

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Austri
https://timarit.is/publication/792

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.