Samtökin '78 - Samtakafréttir - 01.12.1999, Blaðsíða 24

Samtökin '78 - Samtakafréttir - 01.12.1999, Blaðsíða 24
Motor Laugavegi - Kringlunni BEINA LÍNA__ OG BUGÐA LÍNA Einu sinni var lína. Hún var baeði löng og mjó og hún var alveg þráðbein. Lína þessi var staðráðin í að halda sínu striki og brunaði áfram, áfram eins og leið lá beint af augum, yfir holt og hæðir. Víst er það, hún komst hratt yfir og var bara nokkuð ánægð með sig. Dag nokkurn renndi sér upp að hlið hennar önnur lína, en hún var alls ekki bein, heldur sveigðist til og frá. Beinu Línu fannst þetta heimskulegt hátterni og hreytti út úr sér við Bugðu Línu: Ég verð sjóveik af þessu fánýta flökti þínu. Veistu virkilega ekki að línur eiga að vera beinar? Bugða Lína lét þetta ekkert á sig fá. Hún var svo leik- in að hún gat sveigt sig og teygt eins og hana lysti og beygði snarlega yfir Beinu Línu. Við þetta brást sú síðar- nefnda ókvæða við og ákvað að setja upp reglur um það hvernig línur ættu að vera. Hún fékk vinkonu sína, Reglustiku, í lið með sér, svo allt væri nú örugglega á beinu, ég meina á hreinu. I fyrsta lagi, kyrjaði Beina Lína, eiga allar línur að vera beinar; í öðru lagi eiga þær að halda sínu striki; í þriðja lagi, Reglustika undirstrikar allt sem ég segi. Nú kom babb í bátinn. Beina Lína — slitnaði — og varð brotalína um stund. Þetta var allt of mikið álag fyrir hana. En vegna einstrengingsháttar hennar hafði hún það af að skríða á lokapunktinn. Sigri hrósandi leit hún um hæl á Bugðu Línu sem enn var að skoða heiminn. Bugða Lína horfði undrandi á Beinu Línu og spurði sem von var: Vorum við í kapphlaupi? Mér finnst þessi línu- dans svo skemmtilegur að ég get ómögulega hætt. Beina Lína sagði yfirlætislega: Já við vorum í kapp. Ég keppti við þig og var á undan þér umhverfis hnöttinn. Lengi lifi Beina Lína! Bugða Lína hristi sig og hélt áfram að dansa. Ég skil þig ekki, sagði hún, þú endaðir á sama punkti og þú byrjaðir og frá mínum bæjardyrum séð ertu bara einn stærðarinnar hringur. Þú mátt hringsóla fyrir mér. Beina Lína ætlaði ekki að trúa sínum eigin eyrum. Það var ekki nóg með að hún væri orðin brota lína held- ur myndaði hún hring. Beina Lína beygði af. Hún hafði verið staðin að því að brjóta sínar eigin reglur. Það var meira en hún gat beinlínis þolað og aumingja Reglustika varð að leita sér að sirkli.

x

Samtökin '78 - Samtakafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samtökin '78 - Samtakafréttir
https://timarit.is/publication/1492

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.