Faxi - 2020, Qupperneq 4
4 FAXI
Það er með mikill ánægju að undirrit-aður óskar Mánaðarblaðinu Faxa og
Málfundafélaginu Faxa til hamingju með
það að þann 21. desember n.k. verða liðin
áttatíu ár frá því að fyrsta tölublað Faxa
kom út. Það má með sanni segja að það sé
mjög merkilegt að tímarit eins og Faxi eigi
sér svo langa sögu því flest álíka tímarit hafa
átt sér mun skemmri lífdaga. Mitt mat er að
skýringin sé sú að útgefandinn, Málfunda-
félagið Faxi, hefur öll þessi áttatíu ár starfað
með miklum ágætum og gerir enn. Færi ég
því félögum í Faxa bestu afmæliskveðjur og
hamingjuóskir með blaðið.
Málfundafélagið Faxi var stofnað í
Keflavík á tímum mikilla umbrota um alla
heimsbyggðina þvi síðari heimsstyrjöldin
var þá hafin með öllum þeim hörmungum
sem þeim hamförum fylgdu. Tilgangurinn
með stofnun félagsins var að efla félagslega
færni félaganna á sviði ræðumennsku og
umræðna um mál sem væru efst á baugi
hverju sinni. Þegar á fyrsta starfsárinu
vaknaði áhugi Faxafélaga á því að efna til
blaðaútgáfu til að skapa vettvang fyrir skrif
og umræður um framfara- og menningarlíf
á Suðurnesjum. Valtýr Guðjónsson, ritstjóri
blaðsins, skrifaði eftirfarandi í fyrsta tölu-
blaðið og gefa orð hans vel til kynna hvert
tilefnið var með útgáfu Faxa.
,,Það sem vakir fyrir Málfundafélaginu
Faxa í Keflavík er það ræðst í þessa útgáfu
er meðal annars þetta: Sú þögn sem ríkir
um menningar- og framfaramál þessa
héraðs bæði utan þess og innan er órétt-
mæt og óholl. Hérðasbúum sjálfum þarf að
gefast kostur á að fylgjast með því hvað er
að gerast í þeirra fjölmenna og athafnasama
héraði. Þeir þurfa að skilja og meta það sem
þegar hefur áunnist fyrir átök margra og
merkra manna. Þeir þurfa að koma auga á
hina margháttuðu möguleika til stærri átaka
í framtíð á sviðum menningar og framfara.“
Það er mín skoðun að blaðið hafi starfað
eftir þeirri stefnu sem með ofanrituðum
orðum var mótuð. Blaðið hefur ávallt verið
öllum opið og hefur mikill fjöldi lagt blað-
inu til fjölbreytilegt efni og ber sérstaklega
að þakka það framlag. Málefni Suðurnesja,
fréttir af hvers kyns atvinnustarfsemi,
menningarmál, íþróttir og fl. og fl. Síðar
hefur ótvírætt komið í ljós að efni blaðsins
hefur öðlast sögulegt gildi því Faxi hefur
orðið fjölmörgum uppspretta mikilvægra
heimilda. Ég nefni sérstaklega í því sam-
hengi greinaskrif Mörtu Valgerðar Jóns-
dóttur á árunum 1945-1969 er hún nefndi
,,Minningar frá Keflavík.“ Þessar greinar
Mörtu voru síðan lagðar til grundvallar
við útgáfu hins sögulega verks ,,Keflavík í
byrjun aldar.“
Undirritaður gerðist félagi í Faxa árið
1978 og var fljótlega skipaður í blaðstjórn.
Þar átti ég mjög ánægjulegt samstarf við
þá Ragnar Guðleifsson og Jón Tómasson
sem ritstýrði blaðinu um árabil. Það var
mikilvæg reynsla að starfa með ritstjóranum
Jóni því hann var algjör hamhleypa í öllu
því sem að útgáfunni snéri. Það var síðan
fyrir hans orð að ég tók að mér ritstjórn
blaðsins árið 1987 en því starfi gegndi ég til
ársins 2001. Minn nánasti samstarfsmaður
í blaðstjórninni þennan tíma var Kristján
Anton Jónsson en helsta hlutverk hans var
að sinna prófarkalestri sem hann ávallt
leysti af hendi með miklum ágætum. Færi
honum sérstakar þakkir fyrir samstarfið.
Faxi áttræður
– afmæliskveðja frá fyrrverandi ritstjóra og Faxafélaga
Blaðstjórn Faxa 1979: Jón Tómasson, Ragnar Guðleifsson og Helgi Hólm