Sjómannadagsblaðið - 07.06.2009, Qupperneq 4
4 SJÓMANNADAGSBLAÐIÐ 7. JÚNÍ 2009
Bæjarbúar horfðu af hafnarbakkanum
á skipin fylla sig dag eftir dag og
koma drekkhlaðin að landi eftir
nokkurra mínútna landstím. Runólfur
Guðmundsson, útgerðarmaður í
Grundarfirði, sagði af þessu tilefni í
samtali við Skessuhorn á sínum tíma
að Grundfirðingar hefðu vaknað á
morgnana við skarkalann í skipunum
enda mörg þúsund hestöfl í gangi
úti á firði. Svipaða sögu var að segja
af haustvertíðinni á síðasta ári. Þá
mokveiddist síld bæði fyrir utan
Stykkishólm og líka við Keflavík,
þar sem bæjarbúar fylgdust með
veiðunum út um gluggann heima hjá
sér.
Sjómannadagsblaðið ræddi
við Jakob Jakobsson sem er
þaulkunnugur sögu síldveiða. „Enda
þótt síldveiðar upp við landsteina
veki ávallt athygli er þetta þó engin
nýlunda. Þess má til dæmis geta að á
19. öld þegar síldveiðar hófust fyrir
alvöru hér við land var síldin eingöngu
veidd í svokallaða landnót sem kastað
var í hálfhring út frá fjöruborðinu og
dregin í land. Helstu síldarfirðirnir
þá voru Eyjafjörður, Seyðisfjörður,
Mjóifjörður og Reyðarfjörður fyrir
austan. Síldarævintýrið í Kollafirði
og Hvalfirði árin 1946-1948 svo og
síldveiðarnar inni á Austfjörðum
1980-1990 eru nærtæk dæmi
um miklar veiðar á grunnslóð.
Í öllum tilvikum valdi síldin sér
vetursetustöðvar í kyrrum og
köldum sjó og dvaldist þar uns voraði
með tilheyrandi þörungablóma og
átumergð. Veturinn 1947-1948
veiddust tæp tvö hundruð þúsund
tonn í Hvalfirði. Þessar miklu veiðar
hjuggu hins vegar stórt skarð í
stofninn og í kjölfarið hvarf hún úr
firðinum,“ segir Jakob.
Ömurleg tíðindi
Síðastliðin 40 ár hafa síldveiðar hér
við land nánast eingöngu byggst
á einum síldarstofni, íslensku
sumargotssíldinni. Fyrir hrun
síldarstofnanna um 1970 var hins
vegar langmest veitt af norskri og
íslenskri vorgotssíld, öðru nafni
Norðurlandssíldinni. Með markvissum
friðunaraðgerðum tókst að endurreisa
sumargotssíldarstofninn sem aðeins
var um 10 þúsund tonn árið 1972
en var hin síðustu ár talinn vera
kominn í 600 til 700 þúsund tonn
og því mun stærri en dæmi eru um
frá fyrri árum. Miklar vonir voru því
bundnar við síðustu vertíð enda gert
ráð fyrir að mestur hluti síldarinnar
færi til manneldis í stað bræðslu.
En þá gerðist það sem Íslendingar
þurftu síst á að halda. Í ljós kom mikil
sýking í stofninum og í desember,
á miðri vertíð, var orðið ljóst að
um var að ræða faraldur, sem sýkt
hafði um 40% síldar á Breiðafirði
og Faxaflóa og um 70% undan
Suð-Vesturlandi. Þjóðarbúið varð af
milljörðum króna í útflutningstekjum
vegna sýkingarinnar. Smiðshöggið
á „vertíðina“ sló svo fjölveiðiskipið
Kap VE sem fékk mörg hundruð
tonn af dauðvona bræðslusíld við
Básaskersbryggju og í Friðarhöfn í
Vestmannaeyjum í mars. Skipverjar
þurftu varla að leysa landfestar meðan
á „veiðunum“ stóð.
Óþekkt við Ísland
„Þessi sýking, sem hrjáir nú íslensku
sumargotssíldina er út af fyrir sig vel
þekkt, bara ekki hér við land. Þetta
er sníkjudýr, heitir Ichthyophonus
hoferi á latínu og finnst í fiskum. Það
er þekkt í fjölmörgum fisktegundum
auk síldar, t.d. laxi, silungi og ýmsum
flatfiskum. Hún hefur t.d. komið
nokkrum sinnum upp við Kanada.
Yfirleitt líða 10 til 20 ár á milli faraldra
en svo jafnar síldin sig á tveimur
árum. Síðast var faraldur í norska
stofninum á árunum 1991-1992
og um svipað leyti í Norðursjó. Þeir
faraldrar hafa líka staðið yfir í um tvö
ár og svo rammt kvað að í Norðursjó
1991 að við stendur Danmerkur rak
dauða síld á land í miklu magni. Það
varð aðeins vart við þessa sýkingu
hér við land 1991 en það var svo lítið
að það var varla mælanlegt,“ segir
Jakob. Samkvæmt rannsóknum
Hafrannsóknarstofnunarinnar virðist
sem Ichthyophonus hoferi sé ávallt
til staðar í síld, en sýkillinn gjósi
upp í faraldri með reglulegu millibili.
Samkvæmt fyrri reynslu má því gera
ráð fyrir að sú veiki sem nú herjar á
íslensku síldina verði svipuð í haust en
síðan fari stofninn að jafna sig.
Há dánartíðni
Dánartíðni af völdum sníkjudýrsins
er mismunandi milli tegunda en hún
virðist einkum há í síld og skarkola.
Sníkjudýrið berst í meltingarveginn
þaðan sem það ryður sér leið inn
í blóðrásina. Með henni berst það
um búk fisksins og kemur sér fyrir
í líffærunum, einkum þar sem
blóðflæði er mikið, svo sem í nýrum,
hjarta, lifur og milta. Á myndum
af sýktum síldarflökum má sjá
greinilegar blæðingar í holdi og að
utanverðu eru kýli algeng þar sem
sníkjudýrið fjölgar sér og bíður þess að
koma sér fyrir í nýjum hýsli.
Síldin fer sínar eigin leiðir
Það hefur vakið athygli við síldveiðar undanfarin misseri hve síldin
hefur leitað innarlega í firði og flóa við landið. Má segja að sums
staðar hafi íslenski flotinn nánast ekki þurft að róa lengra en sem
nemur út fyrir hafnarkjaftinn til að fylla sig. Þetta var t.d. áberandi á
haustvertíðunum 2007 og 2008. Grundarfjörður kraumaði af síld á
haustvertíðinni 2007.
Við síldartalningar úti fyrir Norðurlandi sumarið 1952. Jakob Jakobsson skipstjóri, Jakob
Magnússon fiskifræðingur og Jakob Jakobsson fiskifræðinemi hvíla sig um stund í
björgunarbátnum af varðskipinu Maríu Júlíu.