Skessuhorn


Skessuhorn - 15.07.2020, Blaðsíða 27

Skessuhorn - 15.07.2020, Blaðsíða 27
MIÐVIKUDAGUR 15. júlÍ 2020 27 Vísnahorn Sú var tíð að hestamót Faxa á Faxaborg var með meiri hátíðum í héraði og töluvert fjölsótt. Á fjórð- ungsmóti sem þar var haldið sagði Valdimar Sigurjónsson: Þó alltaf hljótist einhver sorg, ástarsódinn bætir. Á fjórðungsmóti á Faxaborg fögur snótin mætir. jóhannes Sölvi hét maður sem var um tíma nokkuð hér í héraðinu. Nú er ég ekki full- viss hvort það var á Faxaborgarmóti eða bara svona í almennum útreiðum sem hann varð fyrir því að glata höfuðfati sínu og einnig öku- skírteini en félagi hans hafði allt sitt á tæru. Þá var kveðið: Sölva henti sorglegt slys. Símon slapp sem greifi. Húfan fór til helvítis og hafði ökuleyfi. Meðan Björn jakobsson var heimilismaður á Stóra Kroppi skemmtu þeir Kristleifur sér gjarna við að Björn varpaði fram fyrripörtum og Kristleifur botnaði. Þannig mun þessi hafa skapast: Ég er að leysa og láta í meis. Laufinu eys úr stafla heys. Og Kristleifur botnar: Bú mitt reisi á fræðum Freys, féð er beysið. Allt með keis. Einar Benediktsson kom eitt sinn á bæ „ör- lítið kenndur“ og þáði veitingar bæði fastar og fljótandi, áfengar og væntanlega óáfengar líka. Þegar skáldið bjóst til brottfarar gek húsfreyja með honum til hests og hélt í ístaðið meðan skáldið ámeraðist. Að launum vildi húsfreyja fá vísu og kom þá þessi gáta um Bjórinn: Í gleði og sút hef ég gildi tvenn. Til gagns er ég eltur en skaði er að njóta. Hafður í reiða, um hálsa ég renn, til höfuðs ég stíg en er bundinn til fóta. Ýmsir bölva áfenginu og telja það hafa eyði- lagt líf fjölmargra en örugglega eiga margir líka tilurð sína því að þakka. jón Benediktsson mun hafa ort þessar stökur og nefnt Tilraun: Sveinninn fljóði lipurt ljóð las í hljóði meðan rjóð mærin góða greind og fróð gerðan hróður fótumtróð. Fljóðið smáa fór sér hjá. Fljótt að sjá hvað undir lá. Það sem má ei minnast á mikið þráði piltir sá. Gæfan reynist gjafasein, gæðin treynir, það er mein. Dátt í leyni hjartahrein hlær að sveini menjarein. Eftir Elías Þórarinsson frá Hrauni mun vera þessi mannlýsing. Hvort sem hún hefur nú átt við rök að styðjast eða ei: Dæmi fáum gott hann gaf gripinn fláum vonum. Kuldastráum kominn af, kaldur náungonum. Símon í Goðdölum var allþekktur maður á sinni tíð en ekki umtalsfrómur fram yfir með- allag. Orðhagur og frjór í andanum en sá ekki alltaf nauðsyn þess að bregða því betra ef ann- að var í boði. Um hann orti Sigurður Sigurðs- son á Brúnastöðum: Gætinn varstu orðum í aldrei mæltir hnjóð um granna. Enda hlaustu allt að því ást og virðing guðs og manna. Ekki mun Símoni hafa líkað þessi sending nema hóflega vel en lagði ekki í að svara þó væri þokkalega hagmæltur. Margir Íslendingar hafa sungið í kórum bæði skipulögðum og óskipulögðum. Vænt- anlega eru nú oft textablöð allavega hjá þeim sem teljast skipulagðir í meðallagi plús en stundum verða menn að leita í ótryggu minni sínu eftir því hvað þeim heyrðist sungið síð- ast þegar þessa hljóma bar í eyru. Hallmund- ur Kristinsson taldi að með hæfilegri heppni eða óheppni gæti útkoman orðið eitthvað á þessa leið: Þú hreina svarta bindið mitt. við hörmum spilltra vanda. Fram laðar kvartett trosið sitt, þá er hér naumast andað. Ég finn mér innst í hálsi hrjá - svo marga þynnri hendir - þar sneið af pylsu er föst á ská, svo nú kom verri endir. Kristján Schram eða Stjáni í Gasstöðinni var prýðilega hagmæltur maður en kannske örlítið hliðhollur Bakkusi konungi með köfl- um. Einhvern tímann gaukaði hann þessari að vini sínum: Þér ég gæti stundir stytt, stórum bætt í sinni ef ég hellti í höfuð þitt úr hálfflöskunni minni. Ekki virðist Kristján þó hafa kviðið sinni síðustu för enda virtist honum ekki þörf mik- ils farteskis: Ævi mín er einskisverð, eintómt grjót og klaki. Allt sem þurfti í þessa ferð, það var skófla og haki. Ég sorgum hef saman þjappað, syndanna þvegið gólf. Nú er allt klárt og klappað og klukkan að verða tólf. Við andlát Kristjáns orti Ingþór Sigur- björnsson og er óvíst að ýmsir þeir sem töldu sig honum meiri í lifanda lífi hafi fengið betri eftirmæli: Grínið eins og gróðrarskúr græddi sár og hressti veika. Gullkorn sem hann gróf upp úr grjóti hversdagsörðugleika. Sveinn Hannesson kenndur við Elivoga sigldi nú ekki alltaf sléttan sjó í lífinu enda orti hann: Lífs á krapa köldum sjó kólgan napurt lemur. Síst þó tapa ég sinnis ró. Sigg í skapið kemur. Sveinbjörn Beinteinsson sagði við einhvern góðvin sinn: Í upphafi var orðið og orðið var hjá þér. Hvað af því hefur orðið er óljóst fyrir mér. Fyrir þá sem eru sjálfs síns húsbændur getur verið mikilvægt að nýta tímann vel og óþarft að liggja á sig lús um hábjargræðistímann. Ekki man ég um höfund þessarar en hef grun um að hún sé þingeysk að uppruna: Öll þig flýja örlög grimm og þér fylgir lukkan ef að þú á fætur fimm ferð þegar er klukkan. Með þökk fyrir lesturinn, Dagbjartur Dagbjartsson Hrísum, 320 Reykholt S 435 1189 og 849 2715 dd@simnet.is Grínið eins og gróðrarskúr - græddi sár og hressti veika Heimildamyndahátíðin Icelandic Documentary Film Festival hefst á Akranesi í kvöld, miðvikudaginn 15. júlí, og stendur fram á sunnu- dag. Hátíðin er opin öllum og er frítt á flesta viðburði. En vegna samkomutakmarkana þarf að bóka miða fyrirfram á viðburði í gegnum heimasíðu hátíðarinnar www.ice- docs.is en allar myndir á hátíðinni verða sýndar í Bíóhöllinni. Á hátíðinni verða sýndar yfir 20 heimildamyndir allsstaðar að úr heiminum og eru þær allt frá 12 mínútur upp í 106 mínútur að lengd. Áhersla er lögð á að allir ge- stir geti fundið myndir við hæfi. „Þetta eru allskonar myndir um allt mögulegt. Ein myndin er um munaðarleysingjahæli í Malaví þar sem börnin tala bara kínversku, svo erum við með spennumynd um hneyksli í heilbrigðiskerfinu í Rúmeníu, það er mynd sem hel- dur manni alveg á tánum. Við erum líka með mynd um karlakór í Noregi og aðra um mann sem býr með köttunum sínum og fer með þá með sér út um allt. Svo er allt þarna á milli bara,“ segir Ingibjörg Halldórsdóttir, einn skipuleggjan- di hátíðarinnar, í samtali við Skes- suhorn. Heimildamyndirnar eru flestar meira eins og bíómyndir en hefðbundnar heimildamyndir sem alla jafnan eru sýndar í sjónvarpinu. „Þetta eru samt heimildamyndir en bara aðeins annar stíll en þessi hefðbundni,“ segir hún. Byrja með heilsueflingu Opnunarhátíð IceDocs verður kl. 20 í kvöld í Skemmunni á Breið á Akra- nesi en þar mun Gunnhildur Vil- hjálmsdóttir spila á harmonikku og Níels Thibaud Girerd leiðir dagskrá. Þá verður boðið upp á veitingar og ljúfa tóna. Allir hátíðardagar munu hefjast með heilsueflingu í morg- unsárið. Hægt verður að prófa jóga með Áróru Helgadóttur, fara í bæj- argöngu með leiðsögn, fjallgöngu, hugleiðslu og fleira. „Við færum okk- ur svo í Akranesvita þar sem verða alltaf tónleikar klukkan tvö og að því loknu hefjast bíósýningar klukkan þrjú og verða til svona níu á kvöldin, en þá hefjast kvöldviðburðir,“ seg- ir Ingibjörg. Á laugardeginum verð- ur fjölskyldustemning á Akratorgi þar sem jón Víðir töframaður sýnir nokkur töfrabrögð, Blaðrarinn verð- ur á staðnum og fleira. „Þetta verður svona markaðs- og karnivalstemning hjá okkur með allskonar leikjum og fjöri,“ segir hún. Boðið verður upp á vinnustofu fyrir krakkana á laugardeginum þar sem þeim verður boðið að prófa að búa til stuttar heimildamyndir. „Það er takmarkað pláss svo það er mikil- vægt að skrá sig fyrst,“ segir Ingib- jörg. Fyrir þá sem annað hvort ko- mast ekki á hátíðina eða ná ekki að sjá allar myndirnar er hægt að fá pas- sa á www.icedocs.is sem hægt er að nota til að horfa á myndirnar á net- inu í þrjár vikur eftir hátíðina. „Við vonum bara að sem flestir láti sjá sig,“ segir Ingibjörg Halldórsdóttir að endingu. arg Heimildamyndahátíðin IceDocs hefst í dag

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.