Skessuhorn - 09.12.2020, Blaðsíða 18
MIÐVIKUDAGUR 9. DESEMBER 202018
Vísnahorn
Allir hlutir eiga sitt upp-
gangstímabil, síðan mis-
langan hápunkt og að
lokum hnignunarskeið.
Hinsvegar er tímamæli-
kvarðinn nokkuð breytilegur. Þetta gildir að
sjálfsögðu einnig um stjórnmálamenn en auð-
vitað geta þeir einnig lent í slysum og ótíma-
bærum dauðsföllum svo sem aðrar dauðleg-
ar persónur. Fyrir nokkrum árum henti það
þekktan stjórnmálamann að velta bifreið sinni
á þeim stað sem mér er tamast að kalla Ból-
staðarhlíðarbrekkuna en aðrir tala um Botna-
staðabrekku eða bara brekkuna vestan Vatns-
skarðsins. Hvað um það; stórvitrir blaðamenn
tjáðu okkur að Steingrímur Sigfússon hefði
brotið 13 rif öðrum megin og vöktu þau tíð-
indi nokkra undrun enda kvað Hermann Jó-
hannesson:
Þó sögurnar séu á kreiki
og sumt í þeim nokkuð á reiki
þá staðfestist hér
að Steingrímur er
stórbrotinn persónuleiki.
Ekki man ég nú hvort það fylgdi sögunni
hvaða bifreiðategund það var sem Steingrím-
ur velti yfir sig. Gæti hafa verið Volvo, það
voru sterkir bílar. Í orðastað gamals Trabants,
en sú bifreiðategund var að mestu leyti úr
plasti og yfirleitt notast við straujárn þyrfti að
rétta beyglur, orti Anton Helgi Jónsson:
Menn álíta andvörp mín hátíð
því afrekin segja þeir fátíð.
Það álit er hart,
ég afreka margt
en einkum og langmest í þátíð.
Káinn blessaður orti líka margt á sinni tíð
og um hann kvað Indriði Þórkelsson á Fjalli:
Smellið margt hann Káinn kvað.
Kænn að beita hnífli.
Með því vopni vó hann að
vitring jafnt og fífli.
Aldrei sást í efni því
eiga úr vöndu að ráða.
Hafði svona höndum í
hann við þessa báða.
Það hefur líka lengi verið uppáhaldsiðja
okkar að ræða um náunga vora og gera út-
tektir á þeirra lífsmáta sem jafnan er öðruvísi
en við viljum láta aðra halda að okkar lifnað-
arhættir séu og sömuleiðis eru þeirra syndir
verulega frábrugðnar okkar (allavega á yfir-
borðinu). Um þessa umræðuhefð kvað Ind-
íana Albertsdóttir frá Neðstabæ:
Gistir lengi grönnum hjá
Gróu-fengin saga
en til að hengja hatt sinn á
hefur hún engan snaga.
Jólin nálgast okkur nú óðfluga og nokkuð
öruggt að þau verða frábrugðin öllum þeim
jólum sem áður hafa komið. Bæði vegna kóvid
faraldursins og ýmissa annarra hluta. Hand-
skrifuðum jólakortum fer sífækkandi og sá
góði og ágæti siður sem margir hagyrðing-
ar stunduðu, að yrkja vísur á jólakort til vina
sinna, er á verulegu undanhaldi. Einn af þeim
sem þetta ástunduðu er Stefán Jóhannesson
frá Kleifum og koma hér tvö sýnishorn af
jólakortaáritunum hans til vinar síns og skóla-
bróður sem um tíma var svínabóndi:
Drottinn sem að uppi er
engu gleymir svíni.
Hann um jólin hygli þér,
- helst með brennivíni.
Í annað sinn kom svo þessi:
Þessi jólin þér svo hæfi,
þrjóti ei vín á kútunum.
Vona ég þín verði ævi
í vetur sem hjá hrútunum.
Nokkur ár eru nú liðin síðan Georg heitinn
á Kjörseyri sendi mér þessa jólakveðju með
rafrænni tækni og ætli megin inntakið sé ekki
í fullu gildi enn:
Jólanna hátíð heillar á ný
með hangiketi og skötunni.
Farið er varlega um fjárhúsin því
frelsarinn liggur í jötunni.
Þetta er nú afmælishátíðin hans,
hún er að drukkna í glaumnum
og verslunaræði hvers vinnandi manns
sem viljugur berst með straumnum.
En fögnuður ríkir og friðarins spor
fetum við án þess að hræðast.
Biðjum um gæsku og gróandi vor
þegar guðslömbin eiga að fæðast.
Trúmálin hafa löngum verið mönnum
hugleikin og valdið hatrömmum deilum um
hvort guð sé karlkyns eða kvenkyns og heiti
þetta eða hitt eða hvort leyfilegt sé að vinna
á laugardögum eða borða slátur og svínakjöt.
Mönnum gleymist hinsvegar gjarnan sú ein-
falda grunnhugsun að vera bara góðir hver við
annan sem er þó lykilatriðið. Eftir ágæta pré-
dikun orti Egill Jónasson:
Það Drottinn gefur og gefa kann
Er gert til að aukist hans dýrð og vegur.
Við eigum að tigna og tilbiðja hann.
- Töluvert er hann nú hégómlegur.
Menn skiptast líka á skoðunum um það
hvort hin raunverulegu jól séu fólgin í rjúp-
unum eða hamborgarhryggnum eða kannske
í sólarlandaferðinni. Kannske rétt að rifja upp
vísu Bjarna frá Gröf:
Sanna gleði eignast enginn
auðs þó fínan leiki trúð.
Hamingjan er heimafengin,
hún er aldrei keypt í búð.
Fyrir nokkrum árum sendi Björn Þórleifs-
son skólastjóri á Akureyri ættingjum sínum
og vinum jólakvæði sem oftar og þar í mun
vera að finna þetta erindi um aðventuna:
Sumra athygli beinist að glimmer og
greinum,
glansandi skrauti og laglausum
jólasveinum,
sem textalaus jólalög kyrja kynlegum róm
og kunna við það að birtast á strigaskóm.
Þetta erindi minnir mig á ungan mann sem
fyrir mörgum árum var staddur á jólatrés-
skemmtun og varð reiður ákaflega því ótæt-
is jólasveinninn hafði „stolið bæði gítarnum
og stígvélunum hans pabba.“ Mátti móðir
drengsins standa í ströngu að halda honum frá
því að ganga í að endurheimta þessa muni en
faðir hans hafði einhverra hluta vegna þurft
að bregða sér frá augnablik.
Nú er ég ekkert sérstaklega vel að mér í
bragarháttum en til mun vera sá háttur sem
stórskáldin kalla 6u. Þá eru ljóðlínur sex,
fimm bragliðir í hverri og svo eitt u í endann
og koma hér tvö sýnishorn. Það ég best veit
eftir Björn Ingólfsson:
Út við höfn er hávella að rugla
hún er bæði ástfangin og svöng.
Í Höfðaskógi hópur glaðra fugla
hefur byrjað æfingar á söng.
Gamall karl, í framan eins og ugla,
er á sinni föstu morgungöng
u.
Ef hægt er að láta u-ið búa til óvæntan endi
eins og í þessari Stríðsáraflækju hjálpar það
verulega:
Bill á röndum sífellt elti Ínu,
Ína reyndi að veiða Donald Hill,
Hill var aftur brjálaður í Bínu
en Bína hún sá engan nema Will.
Will var sjálfur stórhrifinn af Stínu
en Stína hún var ástfangin af Bill
u.
Bestu þakkir fyrir lesturinn,
Dagbjartur Dagbjartsson
Hrísum, 320 Reykholt
S 435 1189 og 849 2715
dd@simnet.is
En til að hengja hatt sinn á - hefur hún engan snaga
Í hugum margra er laufabrauðið
eitt af séreinkennum íslensks jóla-
halds. Á vefsíðu Þjóðminjasafns
Íslands um jólasiði kemur fram
að elstu heimildir sem til eru um
laufabrauðsgerð á Íslandi eru frá
fyrri hluta 18. aldar þar sem laufa-
brauðinu er lýst sem sælgæti Ís-
lendinga. Í dag er laufabrauðs-
gerð í hugum margra eitt af sér-
einkennum íslensks jólahalds á að-
ventu. Æ fleiri hafa tekið ástfóstri
við kökurnar þunnu og útskornu
og í þeirra huga eru engin jól nema
kökurnar séu á jólaborðinu við hlið
hangikjöts eða hamborgarhryggs
og jafnvel með rjúpunum. Skessu-
horn heyrði í Laufeyju Skúladóttur
á Akranesi sem finnst laufabrauðs-
baksturinn ómissandi við jólaund-
irbúninginn á aðventunni.
„Ég ólst upp við laufabrauðs-
bakstur á mínu æskuheimili og
hef viðhaldið þeirri hefð sjálf með
minni fjölskyldu og systrum mín-
um og ætla að gera það áfram og
vonandi taka mín börn við þess-
ari skemmtilegu hefð okkar,” seg-
ir Laufey. Hefð Laufeyjar og upp-
skriftin af laufabrauðinu kemur
upphaflega af Norðurlandi. „Amma
mín og nafna var úr Bárðardal og
bjó þar til níu ára aldurs og fluttist
svo til Akureyrar þar sem mamma
mín ólst upp við þessa norðlensku
hefð. Hjá okkur systkinunum var
þetta algerlega ómissandi hefð að
baka laufabrauðið á aðventunni
með móður okkar.”
Laufey segir að hér áður fyrr
hafi þau gert laufabrauðið alveg
frá grunni. Búið til deigið og flatt
út og skorið í með hníf. „Við lögð-
um mikinn metnað og vinnu í þetta
og meðal annars skárum upphafs-
stafi okkar í deigið. Allt tók þetta
sinn tíma en laufabrauðsjárnin sem
notuð eru í dag við munsturgerðina
byrjuðum við að nota um 1980 en
þau gerðu vinnuna mun auðveld-
ari. Ég man eftir því að við vorum
oft aum í höndum og öxlum eftir
að hafa unnið við það að fletja út
deigið.“ Laufey segir að kökurnar
sem þau gerðu hafi verið einstak-
lega stökkar og mun þynnri en fást
til dæmis í verslunum í dag. „Við
höldum í hefðina en höfum hin síð-
ari ár fengið deigið að norðan. Hver
fjölskylda okkar systranna hefur
síðan skorið út og síðan höfum við
steikt kökurnar á einum stað, ég og
Ingibjörg systir mín. Við steiktum
um 100 kökur hvor en höfum að-
eins minnkað það niður í 80 kök-
ur hin síðari ár. Ég man á fyrstu
árunum sem við gerðum laufa-
brauðið að móðir mín steikti kök-
urnar upp úr tólg en síðan breytt-
ist það yfir í jurtafeiti og notum við
kókosfeiti við baksturinn. Við not-
um laufabrauðið með nánast öllum
mat um jólin. Á æskuheimili mínu
vorum við yfirleitt með lambalæri
á aðfangadagskvöld og höfðum við
laufabrauðið með því. Þetta passar
með öllum hátíðarmat, ekki bara
hangikjöti. Hjá minni fjölskyldu,
og ég tala örugglega fyrir hönd
systkina minna, þá er laufabrauðið
algerlega ómissandi um hver jól
með hátíðarmatnum,” sagði Laufey
að endingu.
se/ Ljósm. pó.Girnilegt laufabrauð í stöflum.
Jólastemning og hefð að baka laufabrauð á aðventunni
Systurnar Laufey og Ingibjörg Skúladætur við laufabrauðsbakstur um síðustu
helgi.
Nú er steikt upp úr kókosfeiti.