Gripla - 2020, Blaðsíða 110
109
um vegna þess, að mig vantar fje, lagaveð eða peninga, þá lýsi jeg því
yfir að jeg veit ekki til að jeg fáist framar við ritstjórn blaðs þessa;
það dregur og til þessa, að jeg þykist ekki fær til að vera blaðamaður,
þar sem jeg er frásneiddur allri stjórnarfræði og blaðakeppni, og
ekki lipur að rita, og það enn, að jeg get ekki birt allar þær skýrslur
og reikninga, sem jeg vildi, margra hluta vegna.24
Stjórnmálaskrif lágu sem sagt ekki vel fyrir Magnúsi en hann lagði
stund á skáldskap bæði í bundnu og óbundnu máli. Hann orti vísur og
ljóð, samdi skáldsögur, smásögur og leikrit25 og þýddi einnig leikrit og
kennslubækur. Þá má geta þess að hann þýddi Grimmsævintýrið um
Mjallhvíti og kom það út árið 1852.26 Magnús tók virkan þátt í menn-
ingarlífi Reykjavíkur á meðan hann bjó þar og hefur líklega verið einn
af mörgum ungum menntamönnum sem komu saman og ræddu málin
á heimili Jóns Guðmundssonar (1807–1875) ritstjóra Þjóðólfs og konu
hans Hólmfríðar Þorvaldsdóttur (1812–1876) í Aðalstræti.27 Ekki virðist
„blaðakeppni“ þeirra Jóns og Magnúsar28 hafa komið í veg fyrir vinskap
og samvinnu því saman þýddu þeir, ásamt fleirum, leikritið Pak sem Jón
stóð fyrir sýningu á. Magnús fór einnig með hlutverk í sýningunni eins og
Hólmfríður Þorvaldsdóttir og Benedikt Gröndal meðal annarra.29
Þeim sem hafa fjallað um skáldskap Magnúsar finnst yfirleitt ekki
mikið til hans koma, en þó segir Hallgrímur Hallgrímsson: „Sum hin „lyr-
isku“ kvæði hans eru hreinar perlur,“30 og a.m.k. tvö þeirra hafa lifað með
þjóðinni og heyrast enn sungin, Bára blá og Haustvísur (Lóan í flokkum
flýgur). Hallgrímur telur einnig að þýðingar hafi legið betur fyrir Magnúsi
en skrif skáldsagna og leikrita.
24 Magnús Grímsson, [Yfirlýsing] ný tíðindi (16.12.1852): titilblað (24.12.1851).
25 Um leikritaskrif Magnúsar, sjá Sveinn Einarsson, Íslensk leiklist I. Ræturnar (Reykjavík:
Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1991), 291–292.
26 Yfirlit yfir rit og þýðingar Magnúsar má fá í Hallgrímur Hallgrímsson, „Magnús
Grímsson,“ 118–122 og Gunnar Sveinsson, „íslenzkur skólaskáldskapur 1846–1882,“ skírnir
130 (1956): 127–171, hér 127–130.
27 Sveinn Einarsson, Íslensk leiklist, 237.
28 Sjá Einar Laxness, jón Guðmundsson alþingismaður og ritstjóri. Þættir úr ævisögu (Reykjavík:
ísafoldarprentsmiðja, 1960), 165–166.
29 Sveinn Einarsson, Íslensk leiklist, 237; Einar Laxness, jón Guðmundsson, 399–401; Benedikt
Gröndal, Dægradvöl, 233.
30 Hallgrímur Hallgrímsson, „Magnús Grímsson,“ 119.
ÞJóÐ SÖ GUR MAGNúSAR GRí MSSONAR