Morgunblaðið - 16.06.2020, Qupperneq 10
Morgunblaðið/Eggert
Bruni Eldur logaði í flutningabílnum upp úr hádegi en slökkvistarf gekk
greiðlega. Eldurinn kom upp í kælivél. Ekki var mikið um vörur í bílnum.
Alexander Kristjánsson
alexander@mbl.is
Tveir slökkviliðsbílar voru sendir að
höfuðstöðvum Mjólkursamsölunnar
á Bitruhálsi í Reykjavík um klukkan
tvö í gær er eldur logaði í flutninga-
bíl fyrirtækisins. Greiðlega gekk að
slökkva eldinn og lauk slökkvilið
störfum á vettvangi á innan við
klukkustund. Að sögn Sunnu Gunn-
ars Marteinsdóttur, upplýsingafull-
trúa MS, kviknaði í kælivél í bílnum.
Bílstjórinn slapp ómeiddur, en um-
fang tjóns af völdum eldsins lá ekki
fyrir síðdegis í gær. Flutningabílar
fyrirtækisins eru jafnan fylltir á
kvöldin og segir Sunna því ólíklegt
að mikið hafi verið um vörur í bíln-
um.
Eldur í flutningabíl
Mjólkursamsölunnar
Kviknaði í kælivél Tjón liggur ekki fyrir
10 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 16. JÚNÍ 2020
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
„Ég er búin að sætta mig við að verða kannski bara alltaf
á batavegi. Þá er ég þó á réttum vegi.“
Þetta skrifar Katrín Björk Guðjónsdóttir, 27 ára kona
frá Flateyri, sem fékk þrisvar alvarlegt heilablóðfall fyr-
ir nákvæmlega fimm árum og bloggar á síðuna katrin-
bjorkgudjons.com um lífið í bataferli.
Færsla hennar í gær ber yfirskriftina: „Hvort er ég að
missa af lífinu eða endurheimta það.“
„Ég er áfram á góðum batavegi og legg mig alla fram
við að ná sem mestum og bestum bata. Sigrarnir vinnast
ennþá hægt en ég finn núna að hugurinn heldur ekki aft-
ur af mér þegar vonbrigðin hellast yfir mig. Togstreitan
milli óskhyggju og raunveruleikans sem blasti við mér
lamaði mig áður og dró úr mér allan viljastyrk og kraft.
Ég vildi bara verða eins og ég var áður, ná fullum bata
svo ég gæti orðið ég sjálf aftur.
Ég finn núna að ég er bara sú sem ég er í dag en ég get
stefnt að því að bæta mig dag frá degi. Þessi áföll drógu
kannski úr mér kraftinn, en ég hef náð sátt og finn bara
fyrir óþrjótandi lífskrafti sem ég veit að ég get alltaf
treyst á. Ég er ekki eins óþreyjufull og áður og er búin
að sleppa öllum tímamörkum þó að viljastyrkurinn sé
enn til staðar og jafnvel enn skýrari en áður.“
Gefin önnur spil
Katrín Björk rifjar upp örlagadaginn: „Fyrir fimm ár-
um síðan vaknaði ég einmitt þennan dag, þann 15. júní,
heilum sólarhring of seint eftir að hafa fengið stórt heila-
áfall sem var ekkert víst að ég myndi ná að lifa af. Þegar
ég vaknaði heyrði ég og skildi allt það sem fram fór í
kringum mig en ég gat ekki tjáð mig og ekkert hreyft
nema annað augað.
Mér finnst svolítið skemmtilegt að velta því fyrir mér
hvort lífið hafi tekið á rás fram úr mér þennan dag eða
hvort ég hafi á þessari stundu endurheimt lífið mitt.
Ég hef alltaf notið þess að búa mér til stóra framtíðar-
drauma sem kitla mig og hvetja mig áfram í tilverunni.
Við áfallið brotlentu þeir allir. Ég hef alltaf haft svo gam-
an af því að kynnast fólki og hlakkaði mikið til þess að
prófa að búa í Reykjavík, fara í háskóla og klára nám,
kynnast fólki, fara á djammið, spá í fötum, klæða mig og
mála mig fallega og rækta vináttuna.
Mig dreymdi um að halda áfram í söngnum og jafnvel
komast í leiklist og fara með vinkonu minni í kór. Mig
langaði að ferðast um allan heim, læra svo margt og
kynnast því sem veröldin hefur upp á að bjóða.
Þennan dag voru mér skyndilega gefin allt önnur spil.
Ég gat ekki spjallað við fjölskyldu mína og vini þó að
ég skildi allt sem fram fór í kringum mig. Ég gat ekki
einu sinni átt samskipti í gegnum tölvu eða síma. Ég gat
hvorki gengið, dansað, talað né sungið, ekki borðað eða
fundið lykt og hvorki skrifað sjálf né flett bókum. Ég
missti öll völd yfir líkama mínum.
Smám saman fór mér fram þó sigrarnir ynnust hægt.
Talmeinafræðingur kynnti mig fyrir stafaspjaldi sex vik-
um eftir áfallið og þá fór ég að geta tjáð mig, fyrst með
augunum og svo með því að benda á spjaldið. Þetta veitti
mér styrk og kjark til þess að fikra mig áfram á bata-
vegi.“
Lífið er ekki hugmynd
Katrín Björk hefur allan tímann reynt að vera jákvæð
og það hefur hjálpað henni að takast á við erfiðleikana.
„Yfirleitt næ ég að halda í gleðina og viljastyrkinn. Árið
2019, þegar ég sá svo skýrt að batinn gæti ekki orðið eins
hraður og ég óskaði mér, missti ég þó móðinn. Sem betur
fer endurheimti ég styrkinn þegar ég uppgötvaði að lífið
er ekki hugmynd heldur áþreifanlegur raunveruleiki
sem getur stundum verið mjög sár en býður oftast upp á
ótal tækifæri sem hægt er að njóta ef maður kemur auga
á þau og hefur kjark til þess að fylgja þeim eftir. Ég nýt
þess að vera úti í náttúrunni og finna fyrir fegurðinni allt
í kringum mig. Ég nýt þess að vera með fjölskyldu og
vinum og finna að flæðið í samskiptunum verður sífellt
betra. Ég skrifa og les mér til ánægju, fer í æfingar, leik-
hús, kynnist nýju fólki og er sýnileg. Ég hlakka til þess
að vakna á morgnana. Ég hef svo sannarlega endurheimt
lífið mitt.“
Hef svo sannarlega
endurheimt líf mitt
Katrín Björk Guðjónsdóttir bloggar um andbyr og sigra
Úti Katrín Björk Guðjónsdóttir nýtur þess að vera úti í
náttúrunni og finna fyrir fegurðinni allt í kringum sig.
Faxafeni 14 | 108 Reykjavík | S. 525 8200 | www.z.is | Opið mán.-fös. 10-18 |
Við sérsmíðum gluggatjöld
sem passa fullkomlega fyrir þig og þitt heimili
Z-Brautir og gluggatjöld
Allt fyrir
gluggana á
einum stað
Íslensk
framleiðsla
Endurmat Hafrannsóknastofnunar á
afla grásleppu á fyrri árum leiðir í
ljós að aflinn var meiri en miðað var
við þegar Hafró gaf út ráðgjöf vegna
grásleppuveiða á þessu ári. Það leiðir
aftur til þess að hægt er hækka ráð-
gjöf um hámarksafla og verður heild-
arafli grásleppu væntanlega nálægt
nýju ráðgjöfinni, miðað við þær
heimildir sem veittar hafa verið til
veiða.
Hafró ráðlagði í sinni fyrri ráðgjöf
að heildarafli grásleppu á vertíðinni í
ár færi ekki fyrir 4.646 tonn. Mok-
veiði á grásleppu við Norðaustur- og
Norðurland og þokkalegar gæftir
skiluðu miklum afla á land. Svo mikl-
um að fyrr en varði var hámarksafla
náð, áður en vertíð byrjaði af krafti
við vestanvert landið. Flestir þeirra
sem sátu eftir gera út þaðan, en þar
hefur grásleppuvertíð jafnan byrjað
síðar en fyrir norðan. Reyndar fengu
þeir viðbótardaga og eru sumir enn
að veiðum.
Stjórnvöld fengu harkalega gagn-
rýni frá forystumönnum sjómanna
og sveitarstjórnum og atvinnuvega-
nefnd Alþingis skoraði á ráðherra að
óska eftir endurmati Hafrannsókna-
stofnunar. Axel Helgason, fyrrver-
andi formaður Landssambands smá-
bátaeigenda og grásleppukarl,
gagnrýndi aðferðirnar sérstaklega.
Villur í útreikningi
Vísindamenn Hafró fóru yfir málið
en sáu ekki annað en þeir hefðu stað-
ið rétt að málum. Guðmundur J. Ósk-
arsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs
Hafró, segir að þeir hafi haldið áfram
athugunum sínum og fundið villu í út-
reikningi á afla fyrri ára. Það, ásamt
endurmati með nýjum viðbótargögn-
um og breyttri aðferðafræði, varð til
þess að aflinn er metinn meiri en áð-
ur og meðalvísitala veiðihlutfalls sem
ráðgjöfin miðast við hækkaði úr 0,67 í
0,75 sem er saman hlutfall og gilti ár-
in 2012-2019. Guðmundur segir að
það sé tilviljun að hlutfallstalan varð
nákvæmlega sú sama og áður.
Ráðlagður hámarksafli í ár verður
samkvæmt því 5.200 tonn sem er um
550 tonnum meira en í fyrri ráðgjöf.
Aflinn er hins vegar þegar orðinn
5.035 tonn og einhverjir sjómenn enn
að veiðum og telur Guðmundur að
heildaraflinn verði nálægt ráðlögðum
heildarafla. helgi@mbl.is
Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
Húsavík Sjómenn á Norður- og Norðausturlandi mokuðu upp grásleppunni
á fyrrihluta vertíðar. Veiðar voru stoppaðar of seint svo aðrir kæmust að.
Endurmat leiðir
til aukins kvóta
Hafró vanmat grásleppuafla fyrri ára
Aflinn verður samt nálægt hámarki