Morgunblaðið - Sunnudagur - 18.10.2020, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - Sunnudagur - 18.10.2020, Blaðsíða 15
18.10. 2020 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15 Auður: Þetta eru ráðvilltar konur. Þær eru mikið að reyna að marka sér félagslega stöðu en koma sér sífellt í vandræði. Þær eru svolítið eins og í seinni unglingaveiki, eins konar gráum fiðringi. Þetta er bleiki fiðringurinn. Þær eru á fimmtugsaldri en svolítið eins og unglingar, en ekki eins mikið með á nótunum og unga fólkið, ekki eins „streetwise“. Birna Anna: Það getur verið svo fyndið og við leikum okkur mjög mikið með það, þessa viðleitni þeirra. Og eins og í góðum farsa eru oft áform sem fara úrskeiðis. Auður: Nútímaveruleikinn getur verið svo absúrd en þessar konur eru svolítið afsprengi gamla tímans. Þær eru að reyna að fóta sig en þær kunna það ekki alveg. En við lögðum okkur fram við að gera þær að mjög femínískum kyn- verum. Þær eru með mikla kynóra og sprikla mjög tilfinningalega. Birna Anna: Hallgerður, aðalpersónan, er konan sem notar stjórnsemi til að ráða við allt sem er innan í henni sem hún ræður ekki við. Hún vill svo vel og er með risastórt hjarta, og henni finnst hún ekki vera að stjórna vinkonum sínum. En hún er sjarmerandi og hún er afl. Frí frá Covid Er einhver Hallgerður í ykkur? Hvor ykkar fékk að stjórna meira, voru einhver átök við skrifin? Auður: Nei, það er voða lítil Hallgerður í mér. Ég man ekki eftir neinum átökum. Birna Anna: Nei, og við erum ekki bara að segja þetta. Þetta var fáránlega áreynslulaust og flæðandi samstarf. Við vorum ekkert alltaf hundrað prósent sammála en þá ræddum við hlutina alveg niður í smáatriði. Við enduðum alltaf á að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Nú er þetta samtímasaga, skrifuð í sumar, en samt gerist hún ekki á Covid-tímum. Hvers vegna ekki? Birna Anna: Hugmyndin kom í vor á þessum súra samkomubannstíma, svolítið eins og tím- arnir eru núna. Við hugsuðum þá: vá hvað væri gaman að geta skrifað fyndna og skemmtilega bók sem kæmi út í haust. Eitthvað sem fólk get- ur gleymt sér yfir og hlegið. Það er svo gott fyr- ir sálina. Þá varð þetta að vera heimur þar sem Covid væri ekki til. Þetta er ekki flótti en kannski frí frá því. Það mætti þá segja að sagan gerðist í hliðarveruleika árið 2020 þar sem Covid er ekki til. Nú eða hún gæti gerst sum- arið 2019. Hvort sem er. Þetta er núna, en það er ekki Covid. Nú notið þið mikið þekkta þjóðfélagsþegna sem þið nafngreinið, en aðrir sem gegna stöðum sem raunverulega eru til heita skálduðum nöfn- um. Hvað veldur? Auður: Já, alvörufólk rataði inn í fantasíuna. Birna Anna: Allar persónur sem eru ger- endur, eða aktívar sögupersónur, eru skáldaðar persónur. En svo þegar við nefnum alvöru- persónur er það meira til að skapa sögusviðið og stemningu. Flókið og frelsandi Er bókin bara fyndin eða er alvarlegur undir- tónn? Birna Anna: Það er alveg pólitísk ádeila í bókinni. Það koma dökkir og djúpir þræðir inn á milli. Auður: Að skrifa farsa er stundum besta leiðin til að vera með ádeilu, því þær eru oft hlægilegar. Það er stundum betri aðferð til að afhjúpa hlutina eða sýna fram á fáránleika þeirra að nota húmor og farsa en að skrifa fullt af reiðum greinum. Birna Anna: Það er líka femínískt þema í bókinni. Auður: Við notum líka ákveðið „lingo“ í bók- inni. Ég man að eitt sem mér fannst skrítið þeg- ar ég flutti heim frá Berlín var að ég var oft að lenda í því að fullir kallar kæmu til mín og köll- uðu mig kommúnista. Mér finnst þetta svo fyndið; ég hlýt þá að vera kampavínskomm- únisti því ég tengist kommúnisma ekki að neinu leyti nema að móðurafi minn var sósíalisti og kenndur við kommúnisma. Ég veit um fleiri sem lenda í þessu, að vera kallaðir kommún- istar. Og á einum stað í bókinni notum við þenn- an frasa en ritstjórinn setti spurningarmerki við þennan talsmáta. Við sögðum bara að fólk talaði víst svona í dag. Hvernig finnst ykkur að vera miðaldra kon- ur? Er það gaman eða er krísa í gangi? Auður: Mér finnst það mjög flókið. Það er auðvitað mismunandi; Birna er gift, ég er skilin. Svo er þetta aldurinn sem breytingaskeiðið bankar upp á. Mér finnst þetta hafa verið eitt flóknasta tímabil í lífi mínu. Ég þarf að skil- greina allt upp á nýtt. En um leið er það skemmtilegt og gefandi. Maður veit loks hver maður er. Birna Anna: Mér finnst það vera fínt og frelsandi. Með aldrinum verður manni meira sama hvað öðrum finnst og hvílir betur í sér. Þegar ég var yngri var ég meira að hugsa um að gera öðrum til hæfis og mér finnst ég laus við það að mestu. Það kemur með aldrinum. Auður: Ég var í hjónabandi og fann mig í því að vera húsmóðir og rithöfundur. Svo skildi ég og flutti á milli landa og þá fór allt í upplausn aftur. Maður er á nýjum forsendum og þarf að staðsetja sig upp á nýtt. Týnum okkur í flæði Þið sögðuð hér í upphafi að sagan hefði verið hugsuð sem sjónvarpssería en endað sem bók. Verður sjónvarpsserían gerð? Birna Anna: Það vonum við og það er enn í ferli. Inga Lind Karlsdóttir og Skot eiga kvik- myndaréttinn að þessari sögu og við erum að vinna með þeim. Það er í bígerð. Hún mun líka heita 107 Reykjavík. Titillinn er klárlega vísun í bók Hallgríms Helgasonar, 101 Reykjavík en við erum báðar miklir aðdáendur hans. Við er- um að kinka kolli til hans með þessum titli. Við förum að slá botninn í þetta stelpur. Er frekara samstarf á döfinni? Auður: Við skrifuðum sjónvarpsmynd í mars. Reynir Lyngdal ætlar að leikstýra henni. Birna Anna: Hún er alveg óskyld þessari bók. Hún verður framleidd á RÚV eftir áramót. Þetta er stutt sjónvarpsmynd um Covid. Við megum ekki segja meir en við getum upplýst að það er verið að undirbúa tökur. Rosalega eruð þið öflugar! Auður: Þetta var allt gert í einsemdinni í Covid, í gegnum tölvu. Birna Anna: Nú förum við bráðum að skrifa handritið að sjónvarpsseríunni 107 Reykjavík. Sjáið þið fyrir ykkur framhaldsbók? Fram- haldssjónvarpsseríu? Auður: Já, það gæti vel verið. Birna Anna: Þegar við enduðum seríuna skildum við eftir þræði sem gætu nýst í aðra seríu. Auður: Við áttum í raun miklu meira efni en komst í bókina. Getið þið ekki skrifað hlutverk fyrir mig inn í seríuna, hlutverk blaðamanns á Morgun- blaðinu? Auður: Jú, algjörlega! Birna Anna: Það sem er svo gaman við svona nútímasögur er að það er svo mikið pláss og hægt að toga inn í þær alls konar persónur og fjalla um alls konar hluti sem gerast í raun. Auður: Þetta er svolítið eins og að vera í Barbie. Ég hugsa að ef við Birna hefðum þekkst sem börn hefðum við verið mjög góðar saman og örugglega týnt okkur mjög einbeittar í leik. Birna Anna: Já, þetta er eins og sitja með dúkkurnar sínar og segja: mín gerir þetta og þá gerir þín þetta. Auður: Við erum báðar dundarar og mikið fyrir að vera einar en í svona flæði getum við endalaust týnt okkur. Eins og tvær stelpur í Barbie. Birna Anna: Við eigum mjög mikið af sam- eiginlegum vinkonum sem segja gjarnan að við séum svo ólíkar og ná því ekki hversu vel við vinnum saman. Ég er sammála að við erum dá- lítið ólíkar en á sama tíma erum við á einhvern hátt alveg brjálæðislega líkar. Og við náðum einhvern veginn að bræða okkur saman við skrifin. „Þetta eru ráðvilltar konur. Þær eru mikið að reyna að marka sér félagslega stöðu en koma sér sífellt í vandræði. Þær eru svolítið eins og í seinni unglingaveiki, eins konar gráum fiðringi. Þetta er bleiki fiðringurinn,“ segir Auður um skáldsögu þeirra Birnu Önnu 107 Reykjavík. Morgunblaðið/Ásdís ’Mér finnst þetta hafa verið eitt flóknasta tímabil í lífi mínu.Ég þarf að skilgreina allt upp á nýtt. En um leið er þaðskemmtilegt og gefandi. Maður veit loks hver maður er.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.