Morgunblaðið - 12.11.2020, Síða 47

Morgunblaðið - 12.11.2020, Síða 47
MINNINGAR 47 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 12. NÓVEMBER 2020 Tengsl okkar systra við Má og systkini hans hafa ætíð verið sterk þótt lífið hafi farið að rakna upp hjá sumum okkar sem breytti lífsmynstri og umgangi okkar í milli. Eftir standa ljúfar og skemmtilegar minningarnar og þær eru og verða alltaf gulls ígildi. Már var mikill gæfumaður að kvænast og eignast sínar fjórar dætur, hver annarri mannvæn- legri, enda voru þær og afabörn- in lífið hans. Nú er öðlingurinn fændi okkar lagður upp í sína hinstu för og allt of fljótt að okkur finnst en við vitum líka að þegar heilsan er horfin reynist best að halda til Sumarlandsins. Hvíldu vel, kæri frændi, og hafðu hjartans þökk fyrir allt. Í djúpið sígur sólin skær. Húmið blíða á hauðrið fríða draumblæju dökkri slær. Mánabjarma bundinn armi þakkar heimur þeim, er bjó þreyttu hjarta í svefni ró. (Kristján Jónsson fjallaskáld) Guð blessi minningu góðs drengs. Þuríður, Sigþrúður, Hallfríður og Björg Ragnheiður Jóhönnu- og Ingimundardætur. „Við urðum fyrir andlegri vakningu er við stigum þessi spor og reyndum því að flytja öðrum alkóhólistum þennan boð- skap og fylgja þessum megin- reglum í lífi okkar og starfi.“ Þannig hljóðar 12. reynslu- spor AA samtakanna og á þann veg snerist lífshlaup góðs vinar míns Más Gunnarssonar þau rúm 40 ár sem liðu frá því að hann sjálfur losnaði undan ægi- valdi Bakkusar. Allan þennan tíma hefur hann fylgt þessari reglu og miðlað fjölmörgum öðr- um af reynslu sinni. Okkar kynni hófust á fundi í nýstofnaðri AA deild í Nes- kirkju, en þangað var Már mætt- ur, nýkominn úr meðferð. Þar lýsti hann stöðu sinni á svo ein- lægan og hreinskilinn hátt að ég ákvað að þessum manni ætlaði eg að kynnast nánar. Frá þeirri stundu höfum við gengið saman í ljósinu og stutt hvorn annan á leið okkar til batans. Síðar komu betur í ljós aðrir eiginleikar hans, en þeir helstu eru: heiðar- leiki, greiðvikni og ljúfmennska. Eftir áratugs starf í þessari deild stofnuðum við ásamt góðu fólki aðra deild í safnaðarheimili Dómkirkjunnar, en hún fyllti þrjá tugi ára í þessum mánuði. Þar hefur Már allan þennan tíma verið virkur félagi og máttar- stólpi og verið öðrum góð fyrir- mynd. Með þessum fátæklegu orðum kveðjum við AA félagarnir vin okkar Má. Hans verður sárt saknað. Samfylgdin við hann hef- ur markað djúp spor, sem aldrei munu hverfa. Við minnumst með þakklæti þessa hlýja manns, sem allt sitt líf leitaðist við að gefa öðrum af því góða sem hann sjálfur hafði öðlast. Megi algóður Guð blessa minningu Más Gunnarssonar í huga okkar sem eftir lifum og nutum samvista hans. Dætrum hans, tengdasonum og barnabörnum votta eg dýpstu hluttekningu og samúð. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. (Valdimar Briem) Marinó. Hann Már, félagi okkar og vinur, hefur nú kvatt þennan heim og farið á vit nýrra heim- kynna, en hann féll frá eftir stutt veikindi hinn 12. október sl. Már var einn af þeim sjálfstæðis- mönnum sem settu svip á fé- lagsfundi okkar á Nesinu og tók virkan þátt í pólitísku starfi inn- an Sjálfstæðisfélagsins. Már var hress og skemmtileg- ur maður og var jafnan hnyttinn í tilsvörum og hafði ótrúlega góða nærveru. Ég kynntist honum fyrst í flokksstarfinu fyrir Sjálf- stæðisflokkinn 1990. Hann sat í fulltrúaráði flokksins á Nesinu og gegndi þar trúnaðarstörfum til dagsins í dag. Þegar ég settist í stól bæjarstjóra fann ég alltaf fyrir miklum velvilja og hvatn- ingu frá honum. Már reyndist mér góður stuðningsmaður – persónueinkenni hans voru góð- mennska og ekki síst umhyggja. Már var mikið góðmenni og lífs- glaður maður og kynni mín af honum voru einstaklega góð. Okkur fannst báðum gaman að fylgjast með meistaraflokkum Gróttu spila, hvort sem það var í handbolta eða fótbolta. Þegar ég hitti hann síðast í sumar á leik meistaraflokks karla í fótbolta ræddum við hvað það væri gam- an að Grótta væri að spila í Pepsídeildinni. Ég bauð honum upp á kaffi og prinspóló og við vorum sannfærð um að Grótta myndi vinna þennan leik. En Már var mikill Valsari og þegar ég nefndi að Grótta myndi spila á móti Val brosti þá Már kíminn á svip eins og honum var einum lagið. Þessi síðustu augnablik okkar mun ég geyma í minning- unni. Ég sendi dætrum hans og allri fjölskyldu innilegar samúðar- kveðjur á sorgarstundu. Megi hann nú njóta þess að vera mætt- ur á grænar grundir eilífðarinn- ar. Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri. Fallinn er frá Már Gunnars- son, kær vinur og samstarfs- félagi til fjölda ára. Mása kynnt- ist ég fyrst í ársbyrjun 1988 er ég hafði nýverið hafið störf í stór- flutningadeild Eimskipa og hann starfsmaður Nesskipa. Það átti væntanlega við um mig sem og flesta sem kynntust honum að strax tókst með okkur vinátta og virðing. Mási hafði einstaklega góða nærveru og sýn á lífið al- mennt. Við áttum með okkur nokkurt samstarf í skipamiðlun á þeim tíma en leiðir skildi síðan að mestu er ég fór til annarra starfa hjá Eimskip. Í febrúar 2004 lágu leiðir okkar saman á ný er ég réðst til Nesskipa. Það vafðist nú ekki fyrir okkur að endurvekja vináttuna og samstarfið sem síð- an varði fram á síðasta dag. Mási hóf störf hjá Nesskipum árið 1979 og lét af störfum á vormán- uðum 2016 eftir 37 ára farsæl störf hjá félaginu, þá sjötíu og eins árs að aldri. Það er ekki ofsögum sagt að Mási hafi umvafið okkur öll, sem störfuðum með honum, með sinni einstöku nærveru, glettna við- móti og ástríðu fyrir starfinu. Þetta veit ég að átti einnig við um viðskiptavini og samstarfsaðila Nesskipa, hvort heldur hér inn- anlands eða erlendis. Það kunnu einfaldlega allir vel við og virtu Mása. Í störfum sínum og senni- lega almennt var hann ekki mikið fyrir að flækja hlutina, hann setti ekki mikið á blað, a.m.k. ekki meira en þurfti, en geymdi þeim mun meira af upplýsingum og þekkingu í kollinum. Þar kom maður ekki að tómum kofunum. Mási hafði góða næmni í við- skiptum og naut sín sannarlega sem miðlari þar sem oft þarf að finna lausnir, sætta ólík sjónar- mið, kunna að greina aukaatriði frá aðalatriðum og stundum að hleypa hlutum inn um annað og út um hitt eins og stundum er sagt. Við ferðuðumst nokkuð saman, oftast til okkar aðalsam- starfsaðila og síðar eiganda hjá Wilson Eurocarriers í Bergen. Þar urðu ávallt fagnaðarfundir og menn hreinlega hneigðu sig þegar Mási gekk í hús. Ekki skal hjá líða að minnast gellustu- ndanna á Þremur frökkum sem við áttum allt fram á þetta ár með góðum vinum. Þar voru sagðar magnaðar sögur og mikið hlegið þar sem Mási var gjarnan kóngurinn við borðið. Undanfarin ár hafa verið Mása erfið þar sem heilsunni hrakaði. Hann hélt ávallt góðu sambandi við okkur í Nesskipum og það kunnum við sannarlega að meta og aldrei heyrðum við hann kvarta undan nokkrum hlut. Hann tókst á við sín mál af yf- irvegun og æðruleysi eins og vænta mátti af honum. Fyrir hönd samstarfsfólks hjá Nesskipum og Wilson sendi ég dætrum og öðrum ástvinum Mása innilegar samúðarkveðjur. Við minnumst einstaklega góðs vinar og samstarfsfélaga með hlýhug. Guð blessi minningu Más Gunn- arssonar. Garðar Jóhannsson. Fyrstu minningar mínar um Má Gunnarsson tengjast Menntaskólanum í Reykjavík þar sem hann hóf nám haustið 1961. Hávaxinn, rauðhærður og þrek- legur piltur með góðlátlegan svip vakti athygli hvar sem hann fór, og var hann greinilega vinsæll meðal skólasystkina sinna. Ekki staldraði hann þó lengi við í Menntskólanum því hafið bláa hugann dró, sem varð til þess að hann hóf nám við Stýrimanna- skólann í Reykjavík og lauk það- an farmannaprófi með skipstjórn- arréttindi. Tuttugu og tveimur árum síðar lágu leiðir saman á ný. Már var þá flutningastjóri hjá skipafélaginu Nesskipum sem annaðist stór- flutninga m.a. fyrir Íslenska járn- blendifélagið á Grundartanga þar sem ég var þá nýkominn til starfa. Það skipti sköpum að flutningarnir væru í traustum höndum og snurðulaust flæði til og frá verksmiðjunni þar sem skortur á einstökum hráefnum gat hæglega stöðvað reksturinn með dýrkeyptum afleiðingum. Slíkar aðstæður kröfðust náins samstarfs beggja aðila og var það lán okkar að eiga um áratuga skeið ánægjulega samvinnu við Má um skipulagningu þeirra flutninga. Hann var vakinn og sofinn í að tryggja að ekkert færi úrskeiðis og bar ávallt hag við- skiptavinarins fyrir brjósti. Full- yrða má, að langt og farsælt sam- starf Nesskipa og járnblendiverksmiðjunnar megi að hluta til rekja til þeirrar alúðar og árvekni sem Már sýndi í starfi sínu. Már átti oft erindi á Grundar- tanga enda skipakomur tíðar og var hann alltaf aufúsugestur. Hann átti þar marga góða vini sem glöddust jafnan yfir að sjá hann og fá tækifæri til að spjalla við hann. Már hafði eitthvað það í fari sínu sem laðaði fólk að honum, hvort sem það var hæglátt fasið, hlýlegt viðmótið eða græskulaus gamansemin. Þá var jafnaðargeði hans við brugðið og haggaðist hann aldrei á hverju sem gekk, því hann kunni þá list að stíga öld- una í úfnum sjó. Hvað hugðarefni Más varðar er ekki hægt annað en að nefna íþróttirnar, því hann fylgdist vel með á þeim vettvangi. Hann var Valsari frá unga aldri, enda alinn upp í Hlíðunum, og tók oft virkan þátt í starfi þess félags. Helsta hugðarefni Más voru samt dætur hans fjórar og barna- börnin. Hann var afar stoltur af þessum dætrum sínum og var tíð- rætt um þær og umhyggju þeirra í sinn garð. Már lenti í ýmsum hremming- um á síðustu árum og áratugum og varð að gangast undir erfiðar aðgerðir. Alltaf reis hann upp aft- ur en vildi þá sem minnst úr mál- unum gera. Ljóst var þó, þegar við hittumst síðast í sumarbyrjun, að verulega var af honum dregið. Það gladdi mig því mjög þegar hann hringdi síðla sumars, hress í bragði, og sagði að til stæði að gamlir félagar snæddu saman há- degisverð á Þremur frökkum. Tjáði hann mér að hringt yrði í mig þegar nær drægi. Mig var farið að lengja eftir símtali, þeg- ar einn félaganna hringdi og til- kynnti lát þessa einstaka val- mennis og kærs vinar. Ástvinum Más votta ég mína dýpstu samúð. Guttormur Ólafsson Vinur minn og samstarfsmað- ur til margra áratuga hefur nú lagt árar í bát og hvatt okkar jarðvist. Við Mási, eins og hann var gjarnan kallaður, kynntumst þegar við réðum okkur til starfa hjá Hafskip. Ég hafði ráðið mig sem stýrimann á Rangá haustið 1963. Nokkrum mánuðum síðar réð Már sig sem háseta á Selá. Már gat sér strax gott orð inn- an fyrirtækisins enda duglegur og samviskusamur. Hann var hörkutól, stór og stæðilegur, og þrautseigja einkenndi öll hans störf. Þá var hann afar glaðlegur og skemmtilegur sem er ekki síð- ur mikilvægt. Hann starfaði í nær 15 ár hjá Hafskip. Fyrst sem háseti en síðar sem stýrimaður og skipstjóri eftir að hafa tekið hlé frá störfum til þess að afla sér farmannaprófs frá Stýrimanna- skólanum í Reykjavík vorið 1968. Haustið 1977 settist Már aftur á skólabekk í Tækniskóla Ísland og útskrifaðist vorið 1979 sem út- gerðartæknir. Ég hafði nokkrum árum fyrr fært mig um set og tekið að mér framkvæmdastjóra- starf hjá Nesskip hf., nýstofnuðu skipafélagi. Við Már höfðum haldið ágætu sambandi frá Hafs- skipsárunum og sammælst um að hann kæmi til starfa hjá Nes- skip eftir að náminu væri lokið. Það var mikil gæfa fyrir fyrir- tækið og mig að fá slíkan reynslubolta í flutningadeildina. Reynsla Más var afar mikilvæg því hann þekkti allar hafnir á Ís- landi og flestar hafnir í Evrópu. Nesskip var í sókn á þessum árum, svo það var kærkomið fyr- ir okkur að fá Má með í foryst- una. Við unnum þétt saman í 25 ár eða þar til ég lét af störfum ár- ið 2004. Már var fljótur að tileinka sér nýjar aðstæður og nýja starfið féll honum vel í geð, fjölbreyti- legt en um leið krefjandi. Í skipa- rekstrinum þurfti oft að glíma við óvenjuleg atvik og slys sem komu upp fyrirvaralaust. Már var afar fær í að takast á við slík- ar uppákomur. Þá hafði hann eindæma góða hæfileika til að miðla málum og ná samkomulagi við farmeigendur. Þar hjálpaði til að hann eign- aðist marga góða vini í viðskipta- mannahópi Nesskipa, bæði inn- anlands og erlendis. Þó að skipamiðlun sé í eðli sínu mjög krefjandi, gáfum við okkur stundum tíma til að gleðjast. Um árabil var þeirri venju haldið að fara í laxveiðiferðir á sumrin með viðskiptavinum og velunnurum félagsins. Þar lék Már aðalhlut- verkið með skemmtisögum frá fyrri veiðiferðum og samskiptum við hina ýmsu samferðarmenn. Már var sérlega lunkinn veiði- maður og var alltaf með góðan afla. Ég er Má afar þakklátur fyrir góða og ánægjulega samleið í gegnum súrt og sætt. Eftir að löngu samstarfi á vinnumarkað- inum lauk stóð dýrmæt vinátta eftir sem hélst allt til loka. Lífið er ekki bara dans á rós- um og eins og hjá öllum þurfti Már að takast á við ýmis áföll í sínu lífi. Þá erfiðleika tókst hann á við með aðdáunarverðum hætti með sinni einstöku skapgerð og jákvæðni að vopni. Hjónaband Más og Guðrúnar Einarsdóttur færði þeim fjórar vel gerðar og glæsilegar dætur. Þær voru líf hans og yndi og leyndi sér aldrei hvað hann var stoltur af þeim og fjölskyldum þeirra. Við Ólöf, og öll fjölskyldan, sendum öllum ástvinum Más innilegar samúðarkveðjur. Guðmundur Ásgeirsson. Hann var góður maður. Um fáa eiga þessi orð jafn vel við og um Jónas Guð- mundsson, bónda á Hrafnabjörg- um í Jökulsárhlíð. Ég kynntist Jónasi þegar ég hóf þátttöku í stjórnmálum. Fyrstu kynni okkar voru þó ekki afleiðing stjórnmála- starfsins. Stjórnmálastarfið var afleiðing þess að kynnast Jónasi. Jónas hafði, ásamt fáeinum öðrum mönnum af Austurlandi, komist að þeirri niðurstöðu að ég ætti að hefja stjórnmálaþátttöku með hætti sem virtist óhugsandi, raunar fráleitur. En Jónas sýndi þá yfirveguðu þrjósku sem var einn af mörgum kostum hans. Þegar hann hafði tekið ákvörðun var henni fylgt eftir og hún gekk eftir. Síðar áttaði ég mig betur á því hversu áreiðanlegar þær ákvarðanir voru. Oft átti ég eftir að efast um eitt og annað en ef Jónas hafði trú á því vissi ég að það væri rétt. Samtölin í eldhúsinu hjá Jónasi og Ingibjörgu voru sérstaklega ánægjuleg, á þeim stað var fastur punktur í tilverunni. Þar var rætt um héraðið og landsins gagn og nauðsynjar yfir kökum og klein- um eða lambakjöti og kartöflum. Jónas var alltaf jafn hæglátur og yfirvegaður og spurði út í mál eins og hann væri rétt að byrja að átta sig á þeim. Svo kom iðluega á dag- inn að það var bara gert til að fá hreinskilið svar því hann vissi allt fyrir en vildi ætíð halda opnum huga. Jónas fylgdist með öllu því sem fram fór í sveitinni eða í frétt- um og mótaði sér skoðun sem byggðist á langri reynslu og gömlum og góðum gildum. Oft sagði Jónas meira með augnaráðinu en í orðum. Viðmæl- endur hans hlustuðu á blæbrigði raddarinnar, hvort biðin eftir svari væri sekúndunni lengri eða skemmri og fylgdust með augna- ráðinu. Ef eitthvað af þessu gaf til kynna að Jónas gæti haft efa- semdir var ástæða til að hugleiða betur það sem maður hafði ímyndað sér. Heimsókn til Jónasar og Ingi- bjargar veitti manni festu í lífinu. Þegar eitthvað bjátaði á stóð ég mig að því að hugsa „hvað ætli Jónas Guðmundsson ✝ Jónas Guð-mundsson fæddist 8. mars 1946. Hann lést 25. október 2020. Útför hans fór fram 6. nóvember 2020. Jónasi finnist?“ Ef Jónas væri sáttur væri allt í lagi. Jónas Guðmunds- son var einkar vinnusamur maður og einstaklega traustur. Það þekktu allir sveit- ungar hans, ættingj- ar og vinir. Hann naut því sérstakrar virðingar þeirra sem kynntust honum. Enda unni Jón- as sveit sinni og bar hag samborg- aranna fyrir brjósti. Oft ræddi hann áhyggjur sínar af þróun landbúnaðarmála og byggðar- lagsins sem honum var svo kært. Jónas lagði einstaka natni í þau verkefni sem hann tók sér fyrir hendur. Í Brekkubænum á Hrafnabjörgum, þar sem ég fékk að búa, var allt eins og best verður á kosið. Þar var ekki reynt að fara einföldustu og fljótlegustu leiðina. Sérstök natni var lögð í hvert verk og fyrir vikið varðveittist hinn góði andi í húsinu og batnaði áfram við hvert handtak. Mér er sérstaklega minnis- stætt þegar við stóðum á hlaðinu eitt sumarið eftir rigningarskúr og horfðum yfir landslagið. Jónas benti mér á að sjá mætti móta fyr- ir fornri tóft í túninu. Útlínur byggingar sem umlukin var garði leyndu sér ekki. Jónas og Ingi- björg fóru svo með mig um blautt grasið og útskýrðu kenningar um hvað hefði verið hverjum stað meira en þúsund árum áður. Fornleifarnar hafa eftir því sem ég best veit ekki verið rannsak- aðar frá því þær voru fyrst skráð- ar á ofanverðri 19. öld en þá höfðu íbúar héraðsins vitað frá fornu fari að þarna hefði verið hof um- lukið svokölluðum blóthring. Seinna var bænahús á Hrafna- björgum og ljóst er að þar hefur verið merk bújörð frá því á 10. öld. Mér varð hugsað til þess að Jónas væri verðugur arftaki for- feðra sinna á þessum merka stað. Hann hafði til að bera alla mestu kosti íslenskra sveitamanna, þeirra sem haldið hafa íslensku þjóðinni gangandi frá landnámi. Með Jónasi er genginn mikill heiðursmaður og höfðingi. Ég votta Ingibjörgu, Völu vinkonu minni, Hörpu, Soffíu og fjölskyld- um þeirra innilegustu samúðar- kveðjur. Minning Jónasar lifir í þeim, sveitungum hans og öllum þeim sem nutu þeirrar gæfu að kynnast þessum merka manni. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Heittelskaður eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir og afi, SVEINN AÐALSTEINSSON hagfræðingur, Bergstaðastræti 7, lést mánudaginn 9. nóvember. Útförin verður auglýst síðar. Sigrún Hermannsdóttir Ragna Björg Sigrúnardóttir Ron Owens Árni Sveinsson Sigríður María Sigurjónsdóttir Hrönn Sveinsdóttir Steven Reid Meyers Marta María Sveinsdóttir Svanhvít Tryggvadóttir Georg Holm Skil | Þeir sem vilja senda Morgunblaðinu greinar eru vinsamlega beðnir að nota innsendikerfi blaðsins. Smellt á Morgunblaðslógóið í hægra horninu efst og viðeigandi liður, „Senda inn minningargrein,“ valinn úr felliglugganum. Einnig er hægt að slá inn slóðina www.mbl.is/sendagrein Skilafrestur | Ef óskað er eftir birtingu á útfarardegi verður greinin að hafa borist eigi síðar en á hádegi tveimur virkum dögum fyrr (á föstudegi ef útför er á mánudegi eða þriðjudegi). Þar sem pláss er takmarkað getur birting dregist, enda þótt grein ber- ist áður en skilafrestur rennur út. Minningargreinar

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.