Morgunblaðið - 17.12.2020, Side 80
80 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 17. DESEMBER 2020
Fáum varð svefnsamt þessa nótt.
Kuldinn var bitur og mönnunum leið
öllum illa. Í fyrstu reyndu þeir að
ræðast við og uppörva hver annan,
en smátt og
smátt tók að
draga af þeim.
Öðru hverju
móktu menn
stutta stund í
einu, en rifu sig
svo upp, hræddir
um að ef þeir
sofnuðu, myndu
þeir ekki vakna
aftur. Hver mínúta virtist sem eilífð
um nóttina og það var þeim ósegjan-
legur léttir þegar loks birti af degi.
Nú hlytu þeir að finna mannabyggð
og bjarga sér.
Leitað mannabyggðar
Strax í birtingu fóru mennirnir á
stjá og dreifðu sér nú meira við leit-
ina en áður. Ákváðu þeir að hittast
við skipið ef leitin bæri ekki árang-
ur, en ef einhver yrði manna var, átti
sá að fá hjálp til þess að leita hina
uppi. En skipbrotsmennirnir kom-
ust ekki langt. Skammt frá strand-
staðnum voru ár sem virtust með
öllu ófærar og þegar þeir gengu upp
með þeim, tók við jökullinn, úfinn og
illúðlegur. Daprir í bragði söfnuðust
þeir saman við skipsflakið um kvöld-
ið. Þeim var ljóst að þar myndu þeir
þurfa að hafa næturvist öðru sinni
og reyndu að búa um sig eftir föng-
um. Fóru þeir að búa til skýli úr því
sem rekið hafði á land, hlóðu tunnum
og braki að skipsbátnum og breiddu
segl þar yfir. Síðan rótuðu þeir sandi
að. Þannig fékkst allgott skjól og
höfðu mennirnir nokkra hlýju hver
af öðrum um nóttina, þannig að þeim
leið ekki eins illa og fyrstu nóttina í
landi.
Næsta dag héldu skipbrotsmenn-
irnir leitinni áfram, en sem fyrr
komust þeir ekki langt og undir
kvöld leituðu þeir í skýlið. Þannig
leið hver dagurinn af öðrum. Skip-
brotsmennirnir ráfuðu um sandana,
reyndu að vaða árnar, en allt án ár-
angurs. Oftast dvöldu þeir í skýlinu
á strandstað um nætur, en fyrir kom
þó, að ekki náðu allir þangað að
kvöldi og lágu úti á sandinum um
nóttina. Það vildi til að sjaldan var
mikið frost en samt sem áður var
kuldinn bitur fyrir þessa hröktu
menn og smátt og smátt fór að draga
af þeim. Lífsþróttur sumra mann-
anna var þó enn óbugaður, þeir voru
sannfærðir um að bjargast fyrr eða
síðar.
Stýrimaðurinn hverfur
Að morgni 28. janúar lagði stýri-
maðurinn einn síns liðs af stað úr
skýlinu. Lét hann þau orð falla við
félaga sína að hann myndi brjótast
yfir fljótið í vesturátt, sama hvað það
kostaði og sækja hjálp. Ekki er vitað
af hverju stýrimaðurinn lagði einn í
þessa för, en líklegt er þó að félagar
hans hafi ásakað hann fyrir hvernig
komið væri, þar sem hann hafði ver-
ið við stjórnvölinn er skipið sigldi í
strand. Hvarf hann brátt sjónum fé-
laga sinna og hélt í vesturátt. Síðan
er ekkert vitað um ferðir hans –
hann kom aldrei fram né heldur
fannst neitt sem bent gat til afdrifa
hans. Er mjög líklegt að hann hafi
drukknað er hann reyndi að brjótast
vestur yfir fljótið og það skolað líki
hans til sjávar.
Eftir að stýrimaðurinn var farinn
ákváðu hinir strandmennirnir að
halda á eftir honum og freista þess
að komast yfir fljótið á fleka sem
þeir gerðu sér. Bundu þeir saman
tunnur og festu við þær spýtnabrak.
Veltu þeir síðan þessum fleka á und-
an sér, eða drógu hann á eftir sér í
átt að fljótinu og var það mikil þrek-
raun fyrir þessa þjökuðu menn, enda
leiðin þangað um 20 kílómetrar.
Þegar hér var komið sögu voru allar
vistir þeirra á þrotum og engin leið
lengur að komast um borð í Fried-
rich Albert þar sem nokkuð djúpur
áll hafði myndast milli lands og
skips. Ekki voru allir skipbrotsmenn-
irnir sammála um að leggja upp í
þessa för. Nokkrir voru þá þegar
búnir að gefa upp alla von um björg-
un og vildu helst bíða í skýlinu þess
er verða vildi. En félagar þeirra, sem
betur voru á sig komnir, drifu þá með
sér og fór svo að allir stauluðust af
stað í vesturátt.
Snemma dags 29. janúar voru þeir
komnir að fljótinu og höfðu þá verið á
ferðinni alla nóttina, ýmist skriðið
eða staulast áfram með flekann.
Höfðu þeir hvílt sig stutta stund í
senn, en gætt þess að leggjast aldrei
lengi fyrir, þar sem þá var dauðinn
vís. Mjög var dregið af þeim öllum, en
þó einkum tveimur hásetanna sem
voru orðnir svo þrotnir að kröftum að
þeir gátu ekki gengið lengur hjálpar-
laust. Báðu þeir félaga sína að skilja
sig eftir, en þeir sem betur voru á sig
komnir sögðu að eitt skyldi yfir alla
ganga og studdu þá áfram.
Mannaferðir vísuðu veginn
Þegar skipbrotsmennirnir voru
komnir langleiðina að fljótinu urðu
þeir varir við ríðandi mann langt í
vestri. Vaknaði þá lífsvon þeirra að
nýju og vonuðu þeir að nú væri stutt
til björgunarinnar. Reyndu þeir að
vekja athygli á sér með köllum og
hrópum en maðurinn var svo langt í
burtu að hann varð þeirra ekki var.
Vindur var einnig vestlægur þannig
að ekki var von að til þeirra heyrðist.
Það voru þeim mikil vonbrigði er þeir
sáu manninn hverfa, en samt sem áð-
ur töldu þeir sig nú vita að þeir væru
á réttri leið. Þeir höfðu séð hvert
maðurinn stefndi og þangað hlaut
byggðar að vera að leita.
Þennan dag fleyttu mennirnir sér
yfir fljótið á flekanum. Óðu þeir með
hann út í það, stjökuðu sér yfir
dýpstu álana, en drógu flekann yfir
sandeyrarnar sem voru milli þeirra.
Tók þessi ferð langan tíma og var
komið fram á kvöld þegar þeir kom-
ust vestur yfir. Þá voru flestir orðnir
svo sljóir að þeir megnuðu ekki
meira, en níu mannanna komust þó
að skipsflaki sem var þarna á sand-
inum og létu þar fyrirberast um nótt-
ina. Þar höfðu þeir nokkurt skjól en
kuldinn var nú meiri en áður og ljóst
var orðið að marga hafði kalið veru-
lega.
Í birtingu morguninn eftir héldu
þeir af stað í þá átt sem sést hafði til
mannsins. Í byrjun höfðu mennirnir
samflot en síðan fór þrek eins og
eins að þverra og þeir urðu eftir á
sandinum, komu sér fyrir í skjóli við
sandöldur eða melkolla og biðu þar
dauða síns. Um miðjan dag voru að-
eins tveir menn eftir á ferðinni.
Þessir tveir menn höfðu allt frá því
að skipið strandaði og hrakningarnir
hófust verið sannfærðir um að
áhöfnin myndi bjargast og verið
óþreytandi við að telja kjark í félaga
sína. Það var lífsviljinn sem rak þá
enn áfram, þrekið var búið. En brátt
urðu þeir einnig viðskila. Annar
þeirra lagðist niður til hvíldar, en
hinn hélt áfram og kom brátt að ál
úr fljótinu sem þeir höfðu farið yfir
daginn áður og komist yfir eftir
mikla hrakninga. Á bakkanum hin-
um megin fann hann slóð eftir menn
og rakti hana síðan. Ekki gerði hann
sér neina grein fyrir því hvert hann
hélt og réð tilviljun ein því að hann
tók rétta stefnu til mannabyggða.
Ferð hans sóttist seint. Hann
skjögraði, orðinn gjörsamlega
magnþrota og féll öðru hverju. Alltaf
tókst honum þó að komast á fætur
aftur og halda áfram. Öðru hverju
hvíldi hann sig einnig með því að
skríða.
Bóndinn fann mann
skríðandi á sandinum
En nú víkur sögunni að bænum
Orrustustöðum á Brunasandi. Að
morgni 31. janúar fór Sigurður
bóndi Jónsson að huga að fé sínu, en
það hafði ekki allt náðst í hús áður
en óveðurskaflinn, sem búinn var að
standa í nærfellt hálfan mánuð, skall
á. Lagði hann á hest sinn og hélt af
stað. Ekki var hann þó kominn langt
frá bænum er hann varð var við
hreyfingu úti á sandinum. Sýndist
Sigurði fyrst að þar væri fénaður á
ferð, en sá brátt að hreyfingar veru
þessarar voru torkennilegar. Reið
hann þegar í átt til hennar og sá þá
að þetta var maður, skríðandi á fjór-
um fótum. Var hann greinilega að-
framkominn, fötin frosin utan á hon-
um og skór hans gjörsamlega
gengnir upp. Þótt Sigurður skildi
ekki hvað maðurinn væri að reyna
að segja við hann, áttaði hann sig
strax á því hvað gerst hafði. Skip
hlaut að hafa strandað og einhvers
staðar úti á sandinum voru menn að
leita byggða. Sigurður hjálpaði
hröktum manninum strax til bæjar
og gerði einnig samstundis ráðstaf-
anir til þess að fá nágranna sína með
sér til leitar. Brugðu þeir skjótt við
og héldu út á sandinn. Fundust
mennirnir einn af öðrum og voru
átta þeirra lifandi er þeir fundust,
flestir aðframkomnir og sumir líf-
litlir. Allir voru mennirnir fluttir
heim að Orrustustöðum, þar sem
Sigurður bóndi og Sólveig Magn-
úsdóttir kona hans reyndu að hlúa
að þeim svo sem kostur var.
Hrakningar á Skeiðarársandi
Bókarkafli | Brimaldan stríða eftir Steinar J. Lúðvíks-
son segir frá nokkrum af örlagaríkustu skipströndum
sem orðið hafa við Ísland. 19. janúar árið 1903
strandaði þýski togarinn Friedrich Albert á Skeiðar-
ársandi. Hófst þá erfið og tvísýn barátta skipverja við
að komast til byggða.
Hrakningar Þýski togarinn Friedrich Albert í höfn í Bremerhaven skömmu áður en hann lagði af stað í hina ör-
lagaríku ferð sem lauk á Skeiðarársandi um miðjan vetur og fjallað er um í bók Steinars J. Lúðvíkssonar.
Háskaför Rudolf Bojar stýrimaður á Friedrich Albert til vinstri á myndinni.
Smáralind | Kringlunni | Reykjanesbæ | Akranesi | Sími 511 2022 | dyrabaer.is
Úrval náttúrulegra bætiefna og fóðurs fyrir hunda og ketti.
Nánar á dyrabaer.is
HOLLUSTA OG HEILBRIGÐI FRÁ