Morgunblaðið - 18.12.2020, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 18.12.2020, Blaðsíða 23
og spila. Golfferðir til Spánar voru það allra skemmtilegasta frí sem hún gat hugsað sér. Við fór- um saman í þær nokkrar. Síðasta ferðin var til El Plantio á Spáni í október á síðasta ári. Við fengum frábært veður, skipulagið var einstakt og vellirnir alger draum- ur. Ávallt haldið upp á það þegar vel gekk en ef hlutir gengu verr var gjarnan gert grín að því að „Halli hörmung“ væri mættur óboðinn í partíið – en svo var gleðin tekin á ný og klúðrið gleymt um leið. Við fórum oft í sumarbústaðarferðir innanlands gegnum árin, fyrst voru börnin með en síðustu sumur var aðal- málið að hafa golfsettin með. Það var ávallt tekinn einn hringur á dag – annars var dagurinn ónýt- ur. Svo var farið í heita pottinn og sungið. Dásamlegar minningar. Herdís var mikil fjölskyldu- manneskja. Mikilvægast af öllu var að halda tengslum við sína nánustu. Hún naut þess að bjóða fjölskyldunni heim og hélt ótal veislur. Það að hafa 30 manns í mat vafðist ekki fyrir henni með- an heilsan leyfði. Um síðustu jól var hún umvafin fjölskyldunni og vildi hún hafa allt samkvæmt hefðinni. Um áramótin síðustu vorum við Nonni boðin í kvöld- verð líkt og síðustu áratugi. Í ár verður það með öðru sniði. Við Nonni kveðjum okkar kæru vinkonu, Herdísi Hólm- steinsdóttur, með söknuði og þökk. Fjölskyldu hennar vottum við okkar dýpstu samúð. Sigrún og Sigurjón Valdimar. Elsku hjartans vinkona mín Herdís er látin. Við kynntumst í Hafnarfjarð- arstrætó á leið í Flensborgar- skóla fyrir tæpum 50 árum, þar sem við vorum við nám í eitt ár. Við lærðum saman, sungum, skemmtum okkur og ortum ljóð og vísur. Þarna var lagður grunn- ur að löngu og djúpu vináttusam- bandi sem varði alla tíð síðan. Báðar lærðum við hjúkrun. Dísa starfaði við geðhjúkrun og gerði það af alúð og fagmennsku. Margt var brallað í gegnum tíðina. Minnisstæð eru partíin á Brekkustígnum og síðar á Bjarg- arstígnum þar sem þær Adda heitin vinkona okkar bjuggu. Baldur kom svo til sögunnar með litla drenginn sinn hann Gest, svo eignuðust þau saman Ásu og Davíð Arnar. Mikill samgangur var á milli fjölskyldna okkar og svo ótal margar samverustundir, matar- boð, sumarbústaðaferðir og ég tala nú ekki um golfferðirnar og alltaf gaman. Dísa var einstakur persónu- leiki, gegnheil, vel gefin, klár, skemmtileg, hlý með mikinn húmor og orðatiltækin hennar óborganleg. Rökföst var hún og fylgin sér og með mikla réttlæt- iskennd. Ég og fjölskylda mín fengum svo sannarlega að njóta þessara kosta hennar. Í mörg ár höfðum við fyrir venju að talast við á hverjum sunnudegi milli klukkan 17 og 19. Þetta voru okkar sérstöku vin- konustundir og fátt ef nokkuð mátti trufla þær. Síðustu mánuði breyttust þessir fundir í daglegt spjall sem var okkur báðum dýr- mætt. Allt sem Dísa tók sér fyrir hendur gerði hún vel. Hún gerð- ist mikill göngugarpur um tíma og gekk á nokkur fjöll. Svo fyrir nokkrum árum ákvað hún að læra golf mér, systur hennar og fleirum til mikillar ánægju. Hún tók það auðvitað alla leið. Áttum yndislegar samverustundir í golfi hér heima og erlendis. Minnis- stæð eru dömuboðin sem þær systur héldu, þá var farið í golf og síðan í mat og drykk til þeirra systra á eftir. Dásamlegar stund- ir. Fyrir fimm árum greindist Dísa með krabbamein, við tók erfið lyfjameðferð sem reyndi mikið á. Hún tók þessu sem og öðru með æðruleysi, bjartsýni og þrautseigju. Ákveðin í að lifa og njóta eins og hægt var og það gerði hún. Síðastliðið vor fórum við í golf í Öndverðarnesinu. Veðrið var yndislegt, sólin skein og það var meira að segja logn. Við vissum ekki þá að þetta var síðasti golfhringurinn okkar sam- an. Síðasta ár var henni afar erfitt en aldrei kvartaði hún og uppgjöf var ekki til í hennar orðabók. Alltaf hafði hún áhuga á hvað við hin vorum að gera og fékk reglu- lega skýrslu og myndir þegar hún gat ekki verið viðstödd. Hún naut þess að vera með þeim sem voru henni kærastir, fjölskyldu, börnum og barnabörnum, sem hún lifði fyrir og var svo óend- anlega stolt og ánægð með. Við Rósmundur og fjölskylda sendum fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur, minning um einstaka konu og vin mun fylgja okkur um ókomin ár. Þar sem englarnir syngja sefur þú sefur í djúpinu væra. Við hin sem lifum, lifum í trú að ljósið bjarta skæra veki þig með sól að morgni (Bubbi Morthens) Kolbrún Sigurðardóttir. Stundum verður maður þeirr- ar gæfu aðnjótandi í lífinu að kynnast mannveru sem er alveg einstök á allan hátt. Elsku Herdís Hólmsteinsdótt- ir sem nú hefur kvatt þessa jarð- vist var ein af þessum mannver- um. Um leið og maður sá hana var augljóst að hér var á ferðinni manneskja sem gott var að kynn- ast og hlusta á, já hún hafði sterk áhrif. Herdís var besta vinkona Öddu systur minnar og varð gegnum Öddu góð vinkona mín. Mannkostir hennar voru margir; birtan sem stafaði frá henni þótt hún væri dökk yfirlitum fór ekki fram hjá neinum. Hlýtt og kær- leiksríkt viðmótið áberandi. Húmorinn djúpur og alltaf í há- vegum hafður. Hláturmild og skemmtileg. Tryggur vinur vina sinna. Mannþekkjari var hún og í þeim efnum fór ekkert fram hjá henni. Þar af leiðandi hafði hún allt til að bera til að verða fram- úrskarandi geðhjúkrunarfræð- ingur sem hún og gerði að ævi- starfi sínu. Hún var alltaf að leita eftir dýpri þekkingu og bæta við sig námi til að geta þjónað skjól- stæðingum sínum betur. Það voru heppnir einstaklingar sem komust undir hennar verndar- væng. Hjálpin sem hún veitti Öddu systur minni þegar hún greindist með krabbamein og þau ár sem hún átti ólifuð var og er ómet- anleg. Nú eru þær báðar farnar úr sama sjúkdómi. Systurdóttur minni, sem bjó með þeim stöllum Öddu og Her- dísi, hefur hún einnig reynst styrkur gegnum árin. Hjálpsemi hennar sem hún var alltaf svo örlát á kynntumst við í minni fjölskyldu, hvort sem það voru börnin mín eða barnabörn. Já hún hafði alltaf tíma fyrir alla sem leituðu til hennar. Þegar ég talaði við hana síðast fyrir um það bil mánuði var það æðruleysið sem einkenndi sam- talið. Þakklætið fyrir lífið og fyrir fjölskyldu sína, Ásu dóttur sína og litlu ömmubörnin og prinsinn hennar hann Davíð Arnar. Mikið finnst mér heimurinn missa mikið við andlát þessarar elskulegu vinkonu. Ég kveð þig elsku Herdís með söknuði. Ég sendi Baldri, Ásu og Davíð Arnari mínar innilegustu samúð- arkveðjur. Minningin um Herdísi Hólmsteinsdóttur lifir. Guðbjörg Sigurjónsdóttir. Herdís Hólmsteinsdóttir hjúkrunarfræðingur er látin fyrir aldur fram. Ég kynntist Herdísi laust fyrir síðustu aldamót þegar hún tók við starfi forstöðumanns sambýlis fyrir geðfatlað fólk sem rekið var á vegum Svæðisskrif- stofu málefna fatlaðra í Reykja- vík (SSR), þar sem ég starfaði sem sálfræðingur og síðar sviðs- stjóri. Herdís gerði það að kröfu fyrir ráðningu sinni að geta sótt handleiðslu. Úr varð að hún kom í handleiðslu til mín. Frá upphafi var reyndar aldrei ljóst hver var að handleiða hvern en í þessum tímum hófst áralangt samstarf okkar Herdísar, gagnkvæmt traust og vinátta. Ég lærði margt af Herdísi og naut hennar skýru sýnar á menn og málefni. Og þótt við næðum ekki alltaf sömu nið- urstöðu var gagnkvæmt traust okkar og vinátta söm. Herdís var glaðlynd og mætti samstarfsfólki sínu og verkefnum af jákvæðni og með opnum hug. Hún var fagleg í allri sinni vinnu en hún hafði mikla reynslu af störfum á geðdeildum og þjálfun í meðferð áður en hún réðst til starfa hjá SSR. Hún bar virðingu og umhyggju fyrir íbúum sam- býlisins og starfsfólki sínu, sem réttara væri að kalla væntum- þykju. Herdís hafði einstakt og næmt innsæi sem nýttist henni á öllum sviðum, jafnt í stjórnun sem í meðferðarstarfi. Þá var Herdís mikil baráttu- og hug- sjónakona sem sá fyrir sér mikla uppbyggingu félagslegrar þjón- ustu fyrir fólk með geðfötlun og opnun geðheilsustöðva þar sem fólk gæti sótt fyrstu línu aðstoð með geðræn og sálræn vandamál. Áhrif Herdísar á þróun fé- lagslegrar þjónustu fyrir geðfatl- að fólk liggja víða. Skipulag hennar á starfsemi sambýlisins á Hringbraut 8 (síðar Sóleyjargötu 39) varð fyrirmynd að annarri bú- setuþjónustu. Þá vann hún ötul- lega að skipulagi nýrra húsnæð- isúrræða SSR fyrir geðfatlað fólk. Þegar Herdís hóf störf hjá SSR var ljóst að stór hluti geð- fatlaðs fólks dvaldi á stofnunum heilbrigðiskerfisins. Á vordögum 2003 réðst SSR í að gera úttekt á fjölda geðfatlaðra Reykvíkinga innan geðheilbrigðisþjónustunn- ar sem gætu nýtt sér félagsleg búsetuúrræði. Sú upplýsingaöfl- un, sem Herdís vann, var und- anfari úttektar á landsvísu sem þáverandi félagsmálaráðherra lét gera og sem varð grundvöllur átaks í uppbyggingu félagslegra húsnæðisúrræða fyrir geðfatlað fólk, – Straumhvarfaverkefnis- ins. Eftir að Herdís réðst til starfa hjá Reykjavíkurborg var velferðarsviðið fljótt að koma auga á hæfileika hennar og fól henni að byggja upp vettvangs- geðteymi til stuðnings geðfötluð- um íbúum í búsetuþjónustu, – mikilvægt framfaraspor í fé- lagslegri þjónustu. Við Herdís áttum einnig langt og ánægjulegt samstarf um fræðslu og námskeið fyrir starfs- fólk fötlunarþjónustunnar, bæði innan SSR og utan. Það átti ekki við Herdísi að ferðast með flugvél svo við fórum mikið akandi. Voru það ánægjustundir þegar við geystumst um hringveginn á leið austur í Hornafjörð eða norður í land með glærurnar í farteskinu. Í minningunni var alltaf gott ferðaveður. Það er með þakklæti og sökn- uði að ég kveð tryggan vin og samstarfskonu. Börnum Herdís- ar og aðstandendum votta ég samúð mína. Halldór Kr. Júlíusson. Einstök kona sem markaði djúp spor í lífi svo margra er fall- in frá. Mér er efst í huga þakklæti fyrir þá einlægu vináttu sem Herdís sýndi mér allt frá því við kynntumst fyrst haustið 1982. Í átta ár unnum við báðar í hluta- starfi á deild 33C á geðsviði Landspítalans. Ég man ekki ná- kvæmlega hvernig okkar allra fyrstu kynni bar að, en sennilega hafa þau verið á vaktaskiptum, þegar önnur okkar skilaði af sér vaktinni og hin tók við. Í þá daga unnum við oft um sömu helgar, önnur á kvöldvakt og hin á morg- unvakt. Mjög fljótt myndaðist á milli okkar tilfinning um sam- heldni og hlýju, sem lagði grunn- inn að ómetanlegri vináttu. Við þurftum líka oft að treysta hvor á aðra og leita faglegra ráða hvor hjá annarri. Mér er til dæmis minnisstætt þegar óveður geisuðu í borginni að þá þurftum við ekki síður að vera samhentar og treysta hvor á aðra. Það var nefnilega ekki alltaf á það treystandi að sú okkar sem átti að taka við vaktinni kæmist á réttum tíma til vinnu. Að hætti Herdísar og hennar röggsemi leystum við málið á milli okkar tveggja. Sú okkar sem var í vinnu og komst ekki heim stóð að sjálf- sögðu vaktina áfram. Svona sög- ur þekkja margir hjúkrunar- fræðingar en fyrir mér vekja þær notalegar minningar um sam- starf okkar Herdísar. Það var gott að eiga Herdísi að, ekki bara þegar válynd veður geisuðu um borgina, heldur og ekki síður þegar gustaði um okk- ur mannfólkið á lífsgöngunni. Herdís hlustaði vel og var nösk á líðan og lund viðmælenda sinna. Þar fór saman fagleg færni og náðargáfa Herdísar. Hvort tveggja ræktaði hún vel og miðl- aði fúslega til svo margra. Að sumu leyti fór hún óhefðbundnar leiðir í störfum sínum og lagði til dæmis fyrir sig dáleiðslu með af- ar góðum árangri. Þar naut hún leiðsagnar Jakobs Jónassonar geðlæknis, sem einnig var ein- stakur maður og lærifaðir. Eftir áralangt samstarf á deildum Landspítala fengum við báðar ný verkefni á nýjum vett- vangi. Herdís varð deildarstjóri og ég hóf minn kennsluferil við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Ís- lands. Samstarf okkar hélt áfram en í breyttri mynd. Herdís tók á móti nemendum mínum í klín- ískri geðhjúkrun og var sem fyrr gjöful á þekkingu sína og reynslu. Ekki spillti fyrir að Her- dís átti auðvelt með að slá á létta strengi og þá var oft kátt í höll- inni. Herdís fylgdist líka, vökulum augum, með því sem fram fór á fræðasviði geðhjúkrunar við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Ís- lands. Hún kom á alla þá viðburði sem hún mögulega gat, málstofur og ráðstefnur. Þegar Herdís var mætt á staðinn þá vissi ég að allt myndi ganga vel. Með návist hennar fann ég fyrir sömu ómet- anlegu samstöðu eins og á árum áður. Það er mikill missir að slíkri konu, sem enn átti svo mik- ið að gefa skjólstæðingum sínum og kollegum. Það er sárt að missa svo einstaka vinkonu sem Herdís var, enda höfðum við styrkan stuðning hvor af annarri frá fyrstu stundu. Fyrir það er nú þakkað af heilum hug. Fjölskyldunni er vottuð hjart- anleg samúð. Blessuð sé minning Herdísar Hólmsteinsdóttur. Jóhanna Bernharðsdóttir. Herdís var teymisstjóri Vett- vangsgeðteymis Reykjavíkur- borgar frá stofnun þess 2010 þar til hún lét af störfum vegna veik- inda árið 2019. Teymið sinnir því hlutverki að styðja notendur og starfsfólk geðkjarnanna sem til- heyra Reykjavíkurborg og er samstarfsverkefni við geðþjón- ustu Landspítala. Herdís var frábær geðhjúkr- unarfræðingur og fagmanneskja fram í fingurgóma og leiddi upp- byggingu teymisins frá upphafi. Hún var með ómælda reynslu af starfi með geðfötluðum og reynd- ist notendum og starfsfólki í teyminu ómetanlegur stuðning- ur. Hún náði einstaklega góðu sambandi við þá sem Vettvangs- geðteymi sinnir og hún átti auð- velt með að takast á við hvern þann vanda sem kom upp og leysti fagmannlega og með um- hyggju. Hún hafði smitandi ástríðu fyrir faginu og því að auka lífsgæði einstaklinga með geðraskanir. Hún var góður vinnufélagi og hafði sínar skoð- anir og var föst fyrir en réttsýn og frábær málsvari fyrir notend- ur þjónustunnar. Herdís var frumkvöðull í handleiðslu starfsfólks sem sinn- ir stuðningi við geðfatlaða og hafði einstaka yfirsýn yfir mála- flokkinn eftir áralanga starfs- reynslu og fékk Vettvangs- geðteymið hvatningarverðlaun Reykjavíkurborgar undir forystu Herdísar árið 2014. Eftir fráfall Herdísar hafa teyminu borist margar kveðjur frá fyrrverandi samstarfsfélög- um hennar og eru þær lýsandi fyrir eiginleika hennar og hvað hún skilur eftir: „Herdís var hjartahlý og ekk- ert verkefni var of lítið eða of stórt fyrir hana og hjarta hennar brann fyrir fólki með geðsjúk- dóma.“ „Hún var einstök, það var gott að vinna með henni og hún var góður hlustandi.“ „Ég leit á Her- dísi sem vinkonu mína. Hún var dásamleg manneskja.“ „Hún gerði svo mikið fyrir mig og var sú reynslumesta og besta mann- eskja sem ég hef unnið með. Hún gleymist ekki.“ „Herdís var frá- bær og yndisleg að kynnast. Fag- manneskja og gefandi að vinna með henni. Blessuð sé minning hennar sem mun lifa.“ „Minnist hennar með hlýhug og virðingu.“ Það er ljóst að minning og þekking Herdísar mun lifa áfram í stuðningi einstaklinga með geð- raskanir og starfsfólk Vettvangs- geðteymisins í dag minnist henn- ar með virðingu og hlýhug og mun gera sitt besta til að halda hennar öfluga og faglega starfi áfram um ókomna tíð. Við kveðjum Herdísi með miklu þakklæti og vottum fjöl- skyldu hennar okkar innilegustu samúð. Fyrir hönd Vettvangsgeð- teymis Reykjavíkurborgar, Þóra Björk Bjarnadóttir, sálfræðingur og teymisstjóri. Elsku vinkona mín er farin, það er tómarúm og maður er dof- inn. Við Dísa ólumst upp í vest- urbæ Kópavogs og gengum í Kársnesskóla, síðan þurftum við að sækja framhaldsskóla í aust- urbæinn, Víghólaskóla, nú MK. Frábærari vinkonu er vart hægt að eignast, alltaf hress og til í allt, sem dæmi þegar ég með dags fyrirvara bað hana að skreppa með mér til London fyrir mörgum árum, já hún hélt það nú, ekki málið, svona var hún tilbúin að gera eitthvað skemmti- legt. Það er erfitt að hugsa til þess að eiga ekki eftir að hringja eða hittast og ræða málin, hlæja svo- lítið og fá góð ráð, rifja upp allt sem við brölluðum saman í gegn- um tíðina. Það er margs að minnast, sem verður ekki talið upp hér, þyrfti heila bók til þess, en lifir bara í minningunni. Með þessum fátæk- legu orðum kveð ég mína kæru vinkonu og sendi allri fjölskyld- unni innilegar samúðarkveðjur. Hugur einn það veit, er býr hjarta nær, einn er hann sér of sefa. (Úr Hávamálum) Kristjana Laufey Ásgeirsdóttir (Kidda). Sumar minningar og stemn- ingar frá löngu liðnum árum eins og taka sig út úr röðinni. Þær standast straumköst tímans og mulningsvél framvindunnar, fjarlægjast ekki né dofna í móðu fortíðarinnar, heldur búa áfram með manni ljóslifandi og ferskar. Og sumt fólk lifir áfram hið innra með okkur, þótt það kveðji, lýsir þar upp og yljar. Alveg sérstaklega á þetta við núna um Herdísi Hólmsteins- dóttur hjúkrunarfræðing. Frá henni stafaði góðvild og glettni, hún var raunsæ og ráðholl, sterk og styðjandi. Nærvera hennar var einkar hlý og hafði uppörv- andi áhrif á allt umhverfi hennar. Er ég henni afar þakklátur fyrir kynnin og vináttuna. Ástvinum hennar votta ég innilega hlut- tekningu. Magnús Skúlason. Heyrumst á morgun, sagði Herdís við mig tveimur sólar- hringum fyrir andlátið. Svo fór þó ekki því miður. Nú er hún farin alltof fljótt. Hún ætlaði að gera svo margt. Njóta samveru með fjölskyld- unni, sérstaklega yngstu barna- börnunum, þeim Hólmsteini og Ödu Maríu. Hún ætlaði líka að njóta sam- SJÁ SÍÐU 24 MINNINGAR 23 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 18. DESEMBER 2020 Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, EYJÓLFUR KRISTJÁNSSON vélstjóri, Engjadal 6, Innri-Njarðvík, lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja miðvikudaginn 16. desember. Útförin fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju þriðjudaginn 22. desember klukkan 11. Í ljósi aðstæðna verða einungis nánustu aðstandendur viðstaddir. Guðrún Þorsteinsdóttir Guðborg Eyjólfsdóttir Guðmundur K. Kristmundsson Þorsteinn Eyjólfsson Harpa Ólafsdóttir Kristján Eyþór Eyjólfsson Anna Signý Guðbjörnsdóttir barnabörn og langafabarn Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma, langamma og langalangamma, INGIBJÖRG J. JÓNASDÓTTIR, Bjarkarheiði 21, Hveragerði, lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands sunnudaginn 13. desember. Útförin fer fram frá Hveragerðiskirkju mánudaginn 21. desember klukkan 14. Í ljósi aðstæðna verða aðeins nánustu ættingjar viðstaddir. Sturla S. Þórðarson Ingibjörg Jones Herdís Þórðardóttir Sigurður Egilsson Jónas Þór Þórðarson Ingibjörg Erna Þórðardóttir Sveinn Guðmundsson barnabörn, barnabarnabörn og barnabarnabarnabarn

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.