Lögmannablaðið - 2020, Qupperneq 4
4 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/20
RÉTTARRÍKI Á
TÍMUM COVID-19
Öll viljum við búa í réttarríki. Í réttarríkishugtakinu, í sínum
víðasta skilningi, felst að samfélög skuli lúta sameiginlegum
og almennum lögum sem skuli gilda jafnt um valdhafana
sem aðra og séu ekki byggð á geðþóttavaldi. Lögin verða
að vera framkvæmanleg, skiljanleg, aðgengileg, framvirk
og almenn. Þá verður að tryggja aðgengi borgaranna að
réttlátri málsmeðferð fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum
dómstólum.
Öryggi almennings verður einvörðungu tryggt í
lýðræðisríkjum þar sem reglur réttarríkisins eru í heiðri
hafðar. Þær reglur verður að virða sama hve alvarlegt ástand
kann að ríkja. Neyðarástand réttlætir þannig ekki að farið
sé út fyrir mörk réttarríkisins.
Vegna Covid-19 faraldursins hafa ríki um allan heim
gripið til ýmissa neyðarúrræða til að hægja á útbreiðslu
veirunnar og tryggja öryggi almennings. Í því skyni hafa
stjórnvöld tekið ýmsar ákvarðanir er eiga sér ekki hliðstæðu,
allt frá hertu lögregluvaldi til smitrakningar-appa. Þau
neyðarúrræði eru sögð sett til verndar borgurunum en
jafnvel þótt almennt sé viðurkennt að á viðsjárverðum tímum
gangi heildarhagsmunir framar einstaklingshagsmunum
þá verður að stíga varlega til jarðar.
Þær aðgerðir sem stjórnvöld grípa til þurfa eftir sem áður
að rúmast innan ramma laganna og það verður að gera þá
kröfu að þær séu gagnsæjar og tímabundnar, auk þess að
uppfylla almennar kröfur um nauðsyn og meðalhóf. Til að
mynda getur söfnun gagna um staðsetningu borgaranna
ekki verið notuð í öðrum tilgangi en þeim að ganga úr
skugga um að viðkomandi hafi ekki verið í samskiptum við
smitaðan einstakling og á tilteknu, afmörkuðu tímabili. Að
því búnu ber að eyða þeim gögnum.
Staðreyndin er sú að á tímum Covid-19 eiga lýðræði,
mannréttindi og réttarríkið undir högg að sækja og veruleg
hætta er á að mannréttindi verði fótum troðin í skjóli Covid
eins og hefur því miður gerst á ýmsum stöðum í heiminum.
Ofsóknir, mismunun, handtökur og fangelsanir eru sagðar
hafa færst í vöxt. Sömuleiðis ritskoðanir, fjölmiðlabann
og lokun samfélagsmiðla. Í Ungverjalandi voru sett á
neyðarlög sem gefa forsætisráðherranum Viktor Orbán nær
ótakmörkuð völd um ótakmarkaðan tíma og þróun mála
þar í landi gengur tvímælalaust gegn grundvallargildum
réttarríkisins.
Aðgengi að dómstólum hefur verið skert víða um heim
og fjölda mála hefur verið aflýst eða þeim frestað. Samtök
lögmannafélaga í Evrópu, CCBE, sendu nýverið frá sér
yfirlýsingu um nauðsyn þess að koma starfsemi dómstóla
innan Evrópu aftur af stað en með takmörkun á rétti
einstaklinga og fyrirtækja til aðgengis að dómstólum
væri gengið á grundvallarrétt borgaranna til réttlátrar og
opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma.
Vissulega verður að beita neyðarúrræðum gegn faraldrinum
en þær aðgerðir verða að vera hóflegar, þeim verður að
vera markaður ákveðinn tímarammi og þær verða að vera
teknar á lýðræðislegan hátt. Stjórnvöld eiga hvorki né mega
nýta faraldurinn til að auka eigið vald. Covid-19 faraldurinn
er alheimsheilsufarsvandamál sem krefst samvinnu bæði
innanlands sem á milli landa en hann á ekki að vera yfirvarp
til að seilast til valda á kostnað borgaralegra réttinda.
Lýðræði, mannréttindi og réttarríkið eru ekki andstæða
við vernd og öryggi almennings, heldur til tryggingar.
Covid-19 réttlætir ekki inngrip í hvað sem er.
BERGLIND SVAVARSDÓTTIR LÖGMAÐUR
FORMAÐUR