Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 10
10 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/20
Ekki æskilegt að vera í málaferlum við félagsmenn
Berglind Svavarsdóttir formaður Lögmannafélagsins
tók undir með Jóni Magnússyni að ekki væri æskilegt að
félagasamtök væru í málaferlum við félagsmenn sína. Í
þessu máli þá hefði það þó verið lögmaðurinn sjálfur sem
hefði höfðað mál til ógildingar á úrskurði úrskurðarnefndar
lögmanna. Héraðsdómur hafi sýknað Lögmannafélagið
með dómi í maí 2018 en lögmaðurinn hafi áfrýjað dóminum
til Landsréttar og þar hafi Lögmannafélagið tekið til varna.
Landsréttur hefði snúið dómi héraðsdóms við og talið að
Lögmannafélagið gæti ekki átt neina aðild að kvörtunum
til úrskurðarnefndar. Stjórn félagsins hefði svo beðið
um og fengið áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar: „Það var mat
stjórnar félagsins að það væri nauðsynlegt að fá endanlega
niðurstöðu í það hvort Lögmannafélagið hafi á grundvelli
1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn heimild til þess að skjóta
málum til úrskurðarnefndarinnar“ sagði Berglind.
Berglind svaraði spurningu Jóns Steinars á þá leið að stjórn
félagsins hefði beint nokkrum málum til úrskurðarnefndar
en í dómi Hæstaréttar hefði verið sérstaklega tiltekið að ekki
væri útilokað að félagið kynni að hafa lögvarða hagsmuni
af því að skjóta málum til hennar.
Af taumhaldi og lærdómi máls
Reimar Pétursson tók næstur til máls en hann var formaður
stjórnar Lögmannafélagsins sem tók ákvörðun um að
beina málinu til úrskurðarnefndar á sínum tíma. Reimar
sagði að í siðareglum lögmanna, sem væru samþykktar af
félagsmönnum, væri mælt fyrir um að lögmenn ættu að
sýna dómstólum virðingu í ræðu og riti. Þetta væri regla
sem að hefði umtalsverða þýðingu og ætti skírskotun í
hefðbundnum kenningum um hlutverk lögmanna sem
þjóna réttarins: „Ef það myndi nú tíðkast almennt að
lögmenn kæmu fyrir dómstóla og færu þar með báli og
brandi, væru þar með dónaskap og stæla í garð dómara, þá
held ég að það sé ljóst að það myndi nú fljótlega breytast
það viðhorf sem okkur myndi mæta þegar við kæmum inn
í dómsalinn,“ sagði hann.
Reimar sagði að í samþykktum Lögmannafélagsins kæmi
fram að það væri hlutverk stjórnar að hafa eftirlit með
því að siðareglum væri fylgt. Í lögum um lögmenn segði
ennfremur að Lögmannafélagið setji sér samþykktir og
þar kæmi einnig fram að félagið kæmi fram fyrir hönd
lögmanna gagnvart dómstólum.
Berglind Svavarsdóttir
Reimar Pétursson