Lögmannablaðið - 2020, Qupperneq 17
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/20 17
„Til að efna skuldbindingar sínar, sem fylgja aðild að
mannréttindasáttmálanum, verða ríkin, sem í hlut eiga, að haga
löggjöf, stjórn- og dómsýslu sinni þannig að ofangreind réttindi
séu virt.“
4. 2. grein laganna um MSE er svohljóðandi:
Úrlausnir mannréttindanefndar Evrópu, mannréttinda
dómstóls Evrópu og ráðherranefndar Evrópuráðsins eru
ekki bindandi að íslenskum landsrétti.
Enn vitna ég til greinargerðarinnar:
„Dómur mannréttindadómstólsins hnekkir þannig ekki dómi eða
annarri úrlausn sem hefur fengist um kæruefnið í aðildarríki að
mannréttindasáttmálanum, heldur stendur slík úrlausn óhögguð.
Mannréttindadómstóllinn og aðrar stofnanir, sem fjalla um
kæruefni samkvæmt samningnum um verndun mannréttinda
og mannfrelsis, eru því ekki í neinum skilningi áfrýjunarstig
í máli og endurskoða ekki dómsúrlausn frá aðildarríki, heldur
er aðeins leyst úr því á þessum vettvangi hvort aðildarríki hafi
brotið þjóðréttarskuldbindingu sína um að tryggja viðkomandi
mannréttindi og eftir atvikum hvort ríkið sé bótaskylt af því tilefni.“
5. Samkvæmt þessu tel ég að staðhæfingar um að
lögfesting sáttmálans hafi haft í för með sér einhvers konar
framsal á dómsvaldi eigi ekki við rök að styðjast.
6. Hér er líka rétt að minna á, að MDE tekur mál ekki til
meðferðar nema fyrir liggi að sá sem kvörtun sendir hafi
tæmt öll réttarúrræði í viðkomandi ríki áður en kvörtun
er send til dómstólsins.
7. Þótt MDE sé ekki áfrýjunardómstóll og að dómar
dómstólsins séu ekki bindandi fyrir aðildarríki er það alls
ekki svo að dómarnir hafi enga þýðingu og feli aðeins í
sér álit einhverra manna í útlöndum eins og stundum er
haldið fram. 13. gr. laganna hefur yfirskriftina Réttur til
raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns og hljóðar þannig:
Sérhver sá sem á er brotinn sá réttur eða það frelsi hans
skert, sem lýst er í samningi þessum, skal eiga raunhæfa
leið til að ná rétti sínum fyrir opinberu stjórnvaldi, og gildir
einu þótt brotið hafi framið opinberir embættismenn.
8. Skylt þessu er ákvæði 46. gr. laganna, með fyrir sögninni
Bindandi áhrif dóma og fullnusta þeirra, en 1. mgr. þeirrar
greinar er svohljóðandi:
Samningsaðilar heita því að hlíta endanlegum dómi
dómstólsins í hverju því máli sem þeir eru aðilar að.
RAGNAR HALLDÓR HALL LÖGMAÐUR SKRIFAR
9. Ef ég reyni að draga saman efni þessara reglna eins
og þær horfa við manni sem sakfelldur hefur verið með
endanlegum dómi dómstóls hér á landi verður útkoman
þessi:
Að gengnum endanlegum dómi getur dómfelldi sent
kvörtun til MDE, þar sem hann rökstyður að við meðferð
eða úrlausn máls hans hafi verið brotið gegn tilteknum
réttindum sem honum séu tryggð með efnisreglum MSE
eins og þær hafi verið lögfestar hér á landi. Ef MDE fellst á
einhverja af kröfum hans eða röksemdum og dæmir íslenska
ríkið til að greiða einhverja fjárhæð í bætur eða málskostnað
hefur íslenska ríkið skuldbundið sig til að hlíta því.
10. Gott og vel – þetta hefur ekki reynst vera vandamál.
Íslenska ríkið hefur greitt þær bætur og þann málskostnað
sem það hefur verið dæmt til að greiða í dómum MDE.
En stóra spurningin er þá þessi: Þýðir það, að ríkið greiði
það sem því ber samkvæmt slíku dómsorði, að með því sé
fullnægt skilyrðinu um að sá sem varð fyrir brotinu hafi
náð rétti sínum þannig að raunhæft geti talist í skilningi
13. greinar laganna? Sjálfsagt getur það verið túlkunaratriði
í einstökum tilvikum, en í tilvikum þar sem brot gegn
lögfestum reglum sáttmálans hafa leitt til sakfellingar að
ófyrirsynju er augljóst að þetta skilyrði er ekki uppfyllt með
því að greiða lítils háttar bætur og hluta málskostnaðar
vegna málsins fyrir MDE.
11. Augljóst dæmi um þetta eru mál sem varða brot gegn
banni við tvöfaldri málsmeðferð og tvöfaldri refsingu vegna
sama atviks. Reglan er í 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka samningsins,
með fyrirsögninni Réttur til að vera ekki saksóttur eða refsað
tvívegis og er svohljóðandi:
Enginn skal sæta lögsókn né refsingu að nýju í sakamáli innan
lögsögu sama ríkis fyrir brot sem hann hefur þegar verið
sýknaður af eða sakfelldur um með lokadómi samkvæmt
lögum og sakamálaréttarfari viðkomandi ríkis.
Latínufróðir menn – og reyndar ýmsir fleiri – kalla
þessa reglu Ne bis in Idem-reglu, og ég freistast til að gera
það líka hér.
12. Með dómi Hæstaréttar Íslands 7. febrúar 2013 í máli nr.
74/2012 voru sakborningar sakfelldir fyrir skattalagabrot.
Annar þeirra hlaut 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi
og 62 mkr. í sekt að viðlagðri vararefsingu. Hinn hlaut
18 mánaða skilorðsbundið fangelsi og 32 mkr. í sekt að
viðlagðri vararefsingu. Þeir sendu kvörtun til MDE og
töldu að brotið hefði verið gegn Ne bis in Idem- reglunni
í málsmeðferðinni.