Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 18
18 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/20
Dómur MDE í máli þeirra var kveðinn upp 18. maí
2017. Þar var komist að niðurstöðu um að brotið hefði
verið gegn Ne bis in Idem-reglunni. Hvorum um sig voru
dæmdar 5.000 evrur í miskabætur, annar fékk 10.000 evrur
og hinn 5.000 evrur í málskostnað.
13. Þegar þessi dómur gekk í Strasbourg var mikill fjöldi
samkynja mála í biðstöðu, bæði á rannsóknarstigi hjá
lögreglu, hjá ákæruvaldi og hjá dómstólum. Næsta stig
var að fá úrlausn Hæstaréttar um það, hvort þessi dómur
MDE ætti að leiða til breytinga á dómaframkvæmd í
samkynja málum. Svar fékkst við þeirri spurningu með dómi
Hæstaréttar í máli nr. 283/2016. Dómurinn var skipaður
7 dómurum og er skemmst frá því að segja meirihlutinn,
6 dómarar, komst að niðurstöðu um að röksemdir fyrir
niðurstöðum MDE í umræddu máli ættu ekki alls kostar
við í þessu máli og var sakborningurinn því sakfelldur. Einn
dómari skilaði sératkvæði og taldi að Ne bis in Idem-reglan
ætti að leiða til frávísunar málsins. - Til fróðleiks skal þess
getið að dómfelldi í þessu máli sendi kvörtun til MDE vegna
þessa og hefur hún verið tekin til efnismeðferðar þar.
14. Að gengnum þessum dómi tók ákæruvaldið til
hendinni og felldi niður fjölda mála sem voru í biðstöðu
en setti önnur af stað aftur. Við meðferð eins slíks máls
var óskað eftir upplýsingum frá ákæruvaldinu um fjölda
slíkra mála og um afdrif þeirra í kjölfar dóms Hæstaréttar
í málinu nr. 283/2016. Upplýsingarnar voru fúslega veittar
og eru afar merkilegar:
• Hve mörg mál voru í biðstöðu hjá embætti héraðs-
saksóknara meðan beðið var dóms í hæstaréttarmálinu
nr. 283/2016? Svar: Af þeim 128 skattamálum sem voru
til meðferðar hjá embættinu voru 97 mál sett í bið þar
til H. 283/2016 féll.
• Í hve mörgum þessara mála hafði verið gefin út ákæra
og hve mörg voru á rannsóknarstigi hjá embættinu?
Svar: Um var að ræða 97 mál, 88 mál í rannsókn og 9
mál í bið í héraðsdómi.
• Hve mörg málanna sem ákært hafði verið í hafa verið
eða stendur til að fella niður af ákæruvaldinu? Svar:
Fallið var frá ákæru í 5 málum.
• Hve mörg málanna sem voru til rannsóknar hjá
embættinu hafa verið felld niður? Svar: Rannsókn hefur
verið hætt í 68 málum. Skattrannsóknarstjóri hefur kært
nokkrar af þessum ákvörðum til ríkissaksóknara. Ekki
komin endanleg niðurstaða.
Varðandi síðasta svarið skal það upplýst hér að embætti
ríkissaksóknara staðfesti ákvarðanirnar.
15. Hér liggja fyrir skjalfestar upplýsingar um að á
grundvelli dóms MDE og eftirfarandi dóms Hæstaréttar
voru 77% mála á rannsóknarstigi felld niður og fallið frá
ákæru í 5 málum af 9. En - ekkert var gert til að rétta hag
þeirra sem rutt höfðu þessa braut. Þetta er gamalkunnugt
stef: Fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá.
16. Og þá kem ég að því - hver ætli séu raunhæf úrræði
sem ríkið getur tryggt þannig að menn geti náð rétti
sínum í tilvikum sem þessum? Menn sitja uppi með
sakfellingardóm á bakinu og á sakaskrá sinni, fyrir utan
stórfelldar skattkröfur. Undirritaður kemur ekki auga á
aðra leið til að rétta hag manna í þessari stöðu en að mál
þeirra verði endurupptekin og mistökin leiðrétt.
17. Hinir dómfelldu í áðurnefndu máli freistuðu þess að
fá mál sitt endurupptekið á grundvelli núgildandi reglna
og sneru sér með slíkt erindi til endurupptökunefndar
með dóm MDE í farteskinu. Nefndin féllst á erindið.
Það dugði ekki til. Með dómi Hæstaréttar í máli nr.
12/2018 var ákvörðun nefndarinnar felld úr gildi og
endurupptökumálinu vísað frá Hæstarétti. Eftirfarandi
ummæli í forsendum þess dóms Hæstaréttar tel ég að
verðskuldi nokkra umfjöllun. Þar segir:
Þá verður því tilviki sem hér er til úrlausnar hvorki jafnað til
þess ef í ljós koma eftir uppkvaðningu dóms annmarkar á hæfi
dómarans sem með mál fór né tilvikinu í ákvörðun Hæstaréttar
13. júní 2012 um endurupptöku máls nr. 390/1997. Þar var
endurupptaka heimiluð sökum þess að verulegir ágallar höfðu verið
á meðferð málsins þar sem meginreglna sakamálaréttarfars var ekki
gætt heldur sakfelling manns reist á framburði vitna sem ekki höfðu
gefið skýrslu fyrir réttinum andstætt fyrirmælum þágildandi laga
nr. 19/1991 og ákvæðum 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr.
og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. (Undirstr. RHH).
18. Þarna er vitnað til dóms Hæstaréttar um endurupptöku
dóms réttarins í svokölluðu Vegas-máli, en það mál var
endurupptekið í kjölfar dóms MDE. Þar höfðu verulegir
ágallar sem sé verið á meðferð málsins þar sem meginreglna
sakamálaréttarfars var ekki gætt. Ég spyr mig þeirrar
spurningar, hvort lagaregla sem segir að bannað sé að
refsa manni fyrir eitthvað sé eitthvað minni meginregla
heldur aðrar reglur sem dómstólum ber að fara eftir.
19. Þegar þetta er skrifað liggur fyrir að a. m. k. tvö önnur
mál frá Íslandi hafa hlotið sams konar úrlausn MDE um
brot gegn Ne bis in Idem-reglunni. Íslenska ríkið hefur
samt neitað að endurgreiða sektir sem innheimtar höfðu
verið á grundvelli þeirra dóma Hæstaréttar sem þar höfðu