Lögmannablaðið - 2020, Síða 22
22 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/20
Að horfa á stóru myndina
Örn Gunnarsson framkvæmdastjóri LEX segir mismunandi
eftir sviðum lögfræðinnar hver hafi verið áhrif Covid
ástandsins. „Það hefur fækkað í málflutningi til dæmis en
svo hafa sprottið upp önnur verkefni út af þeirri stöðu sem
við erum í. Við vinnum lítið fyrir einstaklinga og höfum
verið að aðstoða fyrirtæki í að ná samningum þar sem við
reiknum með að þetta ástand sé tímabundið. Það eru ekki
hagsmunir neinna að keyra fyrirtæki í þrot.“
Munum við sjá mikið af Covid málum með haustinu?
„Vonandi ekki. Klárlega verða erfiðleikar en við vonum að
mönnum beri gæfa til að horfa á stóru myndina og sýni
gagnkvæma tillitssemi.“
Að lokum, telur þú að Covid hafi breytt vinnustaðnum?
„Nei, við erum með skrifstofuna á 2000 m2 og því er
rúmt um okkur. Starfsmenn hafa haft töluvert frelsi til að
vinna heima en vegna ástandsins hefur þar oft verið lítill
vinnufriður.“
Léttir að vera kominn til baka
Þórólfur Jónsson framkvæmdastjóri LOGOS segir eðli
máls samkvæmt rólegra yfir viðskiptalífinu en fyrir tíma
Covid; „Á sumum sviðum hefur hægst á, t.d. í tengslum
við viðskipti með eignir hvers konar. Vegna óvissu halda
fjárfestar að sér höndum, þótt þeir fylgist vel með og muni
án efa stíga meira fram þegar staðan hefur skýrst. Á móti
hefur eðli verkefnanna breyst og ný bæst við. Við höfum
til dæmis verið upptekin við að liðsinna viðskiptavinum
sem hafa lent í kröppum dansi vegna tekjusamdráttar.
Fyrirtæki og eigendur þeirra eru margir hverjir að takast
á við krefjandi aðstæður og verja hagsmuni sína, sem þeir
þurfa aðstoð við.“
Heldur þú að Covid hafi breytt vinnustaðnum með einhverjum
hætti?
„Við vorum nýlega byrjuð að nota Microsoft Teams áður en
veiran skall á með fullum þunga og það hefur auðveldað
hópastarf og fjarvinnu. Fyrirtækjamenningin hjá okkur er
mjög stillt inn á hópastarf og skoðanaskipti milli starfsfólks.
Þótt fjarvinna hafi gengið snurðulaust fyrir sig þessar vikur
þá er léttir að vera kominn til baka.“
Verður holskefla af COVID málum líkt og hrunsmálin voru eftir
efnahagshrunið árið 2008?
„Nei, sem betur fer held ég að það verði ekki. Þá varð ein
allsherjar kollsteypa og þótt það verði eflaust umfangsverðir
erfiðleikar hjá mörgum með haustinu þá verður það ekki
á þeim skala sem varð þegar efnahagshrunið varð.“
EI
Örn Gunnarsson framkvæmdastjóri LEX
Þórólfur Jónsson framkvæmdastjóri LOGOS