Lögmannablaðið - 2020, Qupperneq 25
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/20 25
SPENNANDI
AÐ TENGJA PRAKTÍK OG
FRÆÐIMENNSKU
VIÐTAL VIÐ ARNLJÓT ÁSTVALDSSON DOKTORSNEMA:
Valinn úr stórum hópi umsækjenda
„Ég réði mig sem lögfræðing hjá slitastjórn gamla
Landsbankans strax að loknu námi árið 2009 og vann þar
til ársins 2013. Þá leitaði hugurinn út fyrir landsteinana
og ég sótti um LL.M nám í Evrópurétti við lagadeildina
hér og stefndi á að vera í eitt ár. Þegar leið að lokum LL.M
námsins þá benti yfirmaður námsins mér á möguleikann á
því sækja um doktorsstöðu. Ég ákvað að sækja um, ekki síst
vegna þess að fjölskyldunni okkar leið einkar vel í Lundi.
Konan mín var í meistaranámi og fékk spennandi vinnu
í kjölfarið og þá naut dóttir okkar sín einnig vel. Síðan
hefur sonur okkar bæst í hópinn, fæddur hér í Lundi.
Doktorsnámið er nokkuð eftirsótt – í mínu tilviki voru um
140 umsækjendur um tvær stöður – og umsóknarferlið
ítarlegt. Ég gerði mér ekki miklar væntingar um að verða
fyrir valinu, einkum vegna þess að mér fannst hugmynd
mín um efni doktorsverkefnisins ekki sérstaklega vel
mótuð á þessum tíma. Mér gekk hins vegar vel í viðtölum
í umsóknarferlinu og úr varð að ég fékk stöðuna“.
Staða evrópskra félaga að landsrétti
Doktorsverkefni Arnljóts er á sviði evrópsks félagaréttar og
lýtur að félagaformum sem Evrópusambandið hefur sett á
laggirnar fyrir starfsemi evrópskra félaga - um stöðu slíkra
félaga að landsrétti og samspil Evrópuréttar og landsréttar
þegar kemur að réttarumhverfi þeirra. „Á síðustu áratugum
hefur Evrópusambandið kynnt til leiks nokkur mismunandi
félagaform, sem eiga að gera aðilum frá ólíkum ríkjum
kleift að stofna og starfa innan svokallaðra evrópskra félaga.
Evrópska hlutafélagið og evrópska samvinnufélagið eru
dæmi um slík félög, sem stundum hafa verið nefnd sem
yfirþjóðleg, án þess að inntak þess hugtaks sé að fullu
ljóst. Hér í Lundi er gríðarlega stór fjölþjóðleg samvinna
rekin innan evrópsks félagaforms og segja má að rót
rannsóknar minnar liggi þar. Þessi Evrópufélög vekja upp
margar áleitnar spurningar, t.d. hvað varðar stofnun þeirra
sem lögaðila að landsrétti og eins hvort félagaréttur, bæði
evrópskur og eins í því landi sem viðkomandi lögaðili
hefur höfuðstöðvar, veiti nægilega vernd fyrir þá sem eiga
hagsmuna að gæta, t.d. félagsmenn og kröfuhafa.“
Kennsluskylda hluti af náminu
„Í grunninn er þetta sett upp sem fjögurra til fimm ára nám.
Hins vegar er kennsluskylda hluti af náminu, að jafnaði um
40-50 kennslustundir á hverri önn en doktorsnemar hafa
þann möguleika að skipta henni niður á árin. Ég byrjaði
á að kenna Evrópurétt, aðallega um innri markaðinn og
fjórfrelsið. Þar kenndi ég nemendum í LL.M námi og fór
sú kennsla fram á ensku. Það atvikaðist síðan þannig að
eftir fyrstu tvö árin í doktorsnáminu var ég beðinn um
að taka að mér kennslu í grunnnáminu sem eðli málsins
samkvæmt fer fram á sænsku. Þá vandaðist málið nokkuð.