Lögmannablaðið - 2019, Qupperneq 24

Lögmannablaðið - 2019, Qupperneq 24
24 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/19 málum þar sem óskað er áfrýjunarleyfis. Þannig að álagið er ekki jafn mikið og í undirdeildinni og mögulegt er að gæta betur að málshraða í hverju og einu máli. Réttarfarið skilvirkara en hér heima Geir nefnir að sér hafi fundist réttarfarið mjög skilvirkt og í raun betra en fyrir íslenskum dómstólum. Eftir að áfrýjunarleyfi er veitt, sendir dómstóllinn aðilum bréf þar sem þeir eru spurðir efnisspurninga um málið í mörgum liðum. Þar er dómstóllinn sjálfur búinn að taka frumkvæðið og greina hver helstu álitaefnin eru í málinu, miðað við eigin dómaframkvæmd, áður en greinargerðum er skilað. Með þessu fyrirkomulagi er aðilum gefinn möguleiki á því að miða umfjöllun í greinargerð við þau atriði sem raunverulega skipta máli. Aðilar eru þá ekki að sóa tíma og fjármunum í að fjalla um atriði í greinargerðum sem skipta litlu eða engu máli. Frá sjónarhóli dómara, þá tryggir þetta einnig að þeir fái eitthvað sem skiptir máli út úr lestri greinargerða. Lögmenn fengu úthlutað ákveðnum málflutningstíma og sérstaklega var tekið fram að það væri til þess ætlast að menn væru ekki bara að lesa upp greinargerðirnar í munnlegum málflutningi, heldur yrði tíminn nýttur til að leggja áherslu á aðalatriði og svara röksemdum gagnaðila. Lögmönnum var leyft að klára fyrri málflutningsræðu, áður en það kom að spurningum frá dómurum. Þær voru allnokkrar í þessu máli og það var greinilegt út frá spurningunum að dómararnir mættu vel undirbúnir til aðalmeðferðarinnar. Síðan var tekið 15-20 mínútna hlé áður en það kom að andsvörum. Það gaf lögmönnum smá tíma til að semja ígrunduð svör við þeim spurningunum sem bárust. Geir segir þetta málflutningsfyrirkomulag vera til fyrirmyndar. „Lögmönnum gafst tími til að klára ræðuna sína, án truflunar frá dómurum og að það gafst tími til að undirbúa sæmileg andsvör við spurningum dómara í hléinu“. Hvoru tveggja skilar sér í vandaðri flutningi mála og Geir segist ímynda sér að dómararnir fái meira út úr málflutningnum með þessu fyrirkomulagi. Af hverju þetta tiltekna mál? Mál Gests Jónssonar og Ragnars H. Hall gegn íslenska ríkinu var fyrsta íslenska málið sem fór fyrir yfirdeild Mannréttindadómstólsins. En af hverju telur Geir að málið hafi verið valið? „Í hnotskurn þá snýst þetta mál um það að sakborningar voru sakfelldir í refsimáli í héraði án nokkurrar undanfarandi málsmeðferðar. Þeir fengu ekki að skila skriflegum greinargerðum um mál sitt í héraði, kalla vitni fyrir dóminn, gefa aðilaskýrslu, óska eftir skipun verjanda eða að færa munnleg rök fyrir máli sínu. Stöðunni var í raun snúið við - upphaf málsmeðferðar í sakamáli var sakfellingardómur Héraðsdóms Reykjavíkur. Litið var svo á að nægilegt væri að sakborningar gætu áfrýjað sakfellingunni til Hæstaréttar Íslands. Sakborningar voru þannig aldrei taldir saklausir uns sekt er sönnuð í málinu, heldur hófst málið með sakfellingardómi í héraði“. „ÞAÐ VIRÐIST ÞANNIG VERA KOMIN DÓMVENJA HJÁ HÆSTARÉTTI FYRIR ÞVÍ AÐ HEIMILT SÉ AÐ SVIPTA SAKBORNINGA (EÐA A.M.K. LÖGMENN) ÖLLUM RÉTTINDUM Á LÆGRI DÓMSSTIGUM, SVO LENGI SEM ÞEIR FÁ RÉTT TIL ÁFRÝJUNAR. ÞAÐ ERU EKKI GÓÐ TÍÐINDI FYRIR VERND MANNRÉTTINDA Á ÍSLANDI“. F.v.: Védís Eva Guðmundsdóttir, Ragnar H. Hall, Geir Gestsson, Fanney Rós Þorsteinsdóttir og Gestur Jónsson.

x

Lögmannablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.