Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Blaðsíða 7
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS6
BA ritgerð í sagnfræði var skrifuð um sögu þess rétt eftir aldamótin 2000.3
Talsvert er því vitað um ástæður þess að Þorpið reis á sínum tíma, um þá sem
stóðu að baki stofnun þess, um rekstur fyrirtækjanna sem þar störfuðu, um
mannvirkin sem reist voru o.s.frv. Markmiðið með rannsóknum á svæðinu
var að kafa dýpra í sögu staðarins og varpa nýju ljósi á lífið í Þorpinu. Það
var að afla ítarlegri upplýsinga um íbúana, um það hvernig það var að alast
upp á staðnum, um sjálfsmynd þorpsbúa og daglegt líf. Markmiðið var einnig
kanna upphaf og eyðingu Þorpsins út frá efnismenningu þess, þ.e. rannsaka
hvaðan gripir, hús, og fólk kom og hvert það fór þegar Þorpið lagðist í eyði.
Hvaðan kom Þorpið í Viðey, hvað varð eftir í eyjunni eftir að það leið undir
lok, hvað hvarf á brott með íbúum svæðisins og hvert fór það? Samhliða því
að horfa inn á við, á fólkið í Þorpinu og efnismenningu þess var horft út á við
og hlutverk Þorpsins í nútímavæðingu á Íslandi í upphafi 20. aldar kannað
með því að skoða efnismenningu svæðisins, s.s. hvernig stóraukið aðgengi
að fjölbreytilegri efnismenningu breytti lífi fólks. Rústir Þorpsins láta lítið
yfir sér en staðurinn gegndi mikilvægu hlutverki í iðn- og nútímavæðingu
Íslands.
Í greininni er stiklað á stóru um sögu Þorpsins, greint frá þeim rannsóknum
sem unnar voru í Þorpinu á árunum 2010-2012 og frá helstu niðurstöðum
þeirra.
Upphaf Þorpsins
Upphaf Þorpsins í Viðey má rekja til marsmánaðar 1907 þegar hlutafélagið
A/S P.J. Thorsteinsson & Co. var stofnað í Kaupmannahöfn.4 Stofnfélagar
voru átta og stærstu eigendur hlutafjár voru tveir þekktir athafnamenn á
Íslandi, þeir Pétur Thorsteinsson, sem félagið var kennt við, og Thor Jensen.
Þótt fimm menn væru í stjórn félagsins var það fyrstu árin að mestu rekið af
þeim Pétri og Thor ásamt Aage Möller.5
Fyrstu hugmyndir gerðu ráð fyrir að stofnfé félagsins yrði um 1 milljón
króna og því var nýja fyrirtækið risi á íslenskan mælikvarða. Til samanburðar
hefur verið nefnt að þessi upphæð var svipuð og allar tekjur landssjóðs þetta
3 Sjá Magnús Þorkelsson 1996 og Örvar B. Eiríksson 2003.
4 Um stofnun og starfsemi Milljónafélagsins hefur víða verið fjallað áður. Talsverðar upplýsingar er
að finna í nokkrum Morgunblaðsgreinum í janúar og febrúar 1914, í sjálfsævisögu Thors Jensen
(Thor Jensen 1983), ævisögu Péturs J. Thorsteinssonar (Ásgeir Jakobsson 1990), í grein Magnúsar
Þorkelssonar um Stöðina (Magnús Þorkelsson 1996) og í BA ritgerð Örvars B. Eiríkssonar frá 2003.
5 Frásögnum af aðdraganda og stofnun fyrirtækisins ber í raun ekki saman. Hér verður ekki tekin
afstaða til einstakra atburða og er jöfnum höndum stuðst við sjálfsævisögu Thors Jensen og Péturs
Thorsteinssonar sem Ásgeir Jakobsson ritaði.