Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Síða 147
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS146
fyrst fyrir í samhengi við hann en í greininni er hugtakið notað í fremur
almennu samhengi þannig að ekki sést skýrt við hvað er átt þó líklega vísi
það fyrst og fremst til fornleifa í hefðbundnum skilningi.2 Tvö önnur dæmi
frá seinni hluta 19. aldar sýna hins vegar hversu víða skírskotun hugtakið
gat haft upphaflega. Fyrra dæmið er í grein í Norðurljósinu frá 1887 þar sem
höfundurinn er að gefa ráð um mögulegar fermingarspurningar og leggur
til meðal annars þessa: „Eigum við nokkrar þjóðmenjar, svo sem bókfræði,
lög, fornmenjar?“3 Greinilegt er að sá sem skrifar hugsar sér að þjóðminjar
sé hvaðeina sem er sérstakt fyrir þjóðina, hvers konar fyrirbæri sem eru
einkennandi fyrir hana. Af þessu og fleiri svipuðum dæmum má ráða að á
þessum tíma hafi orðið „menjar“/„minjar“ ekki eingöngu vísað til gamalla
hluta, heldur hafi það getað þýtt „vitnisburður, ummerki“. Þjóðminjar í
þessum skilningi eru þá ekkert endilega gamlir hlutir, þær geta alveg eins
verið nýir, og þær þurfa ekki að vera áþreifanlegir hlutir, geta alveg eins verið
hugmyndir eða siðir. Eina skilyrðið er að slík ummerki séu þjóðleg, sérstök
fyrir Íslendinga.
Að þjóðminjar þurfi ekki að vera gamlar kemur líka fram í hinu
dæminu, hjá Eiríki Magnússyni í bréfi sem hann skrifaði til vinkonu sinnar
á Austurlandi 1879. Þar lýsir hann heimsókn sinni á sænska þjóðminjasafnið
sem hann dáðist mjög að, og segir meðal annars:
Íslendingar gjörðu sér mikinn sóma með því, að efla forngripasafn sitt að
dæmi Svía. Það væri, að ætlun minni, vel, að breyta nafninu, og endurskíra
það þjóðmenjasafn og binda sig ekki við fyrnskuna eina, þó að fornmenjarnar
skyldu ganga fyrir hinum yngri.4
Hér er Eiríkur klárlega að tala fyrst og fremst um gripi, hluti sem hönd á festir
og hægt er að safna á safn, en meining hans er sú að þjóðminjar séu víðari
flokkur en fornleifar, þjóðminjar séu gripir sem hafa gildi, ekki af því að þeir
séu gamlir, heldur af því að þeir séu þjóðlegir. Þessi skoðun, að ekki sé bara vert
að safna því elsta, heldur líka yngri munum kemur raunar víða fram í skrifum
safnamanna á seinni hluta 19. aldar. Menn söfnuðu hvorutveggja, forngripum
og hlutum úr samtímanum sem voru taldir sérstakir eða einkennandi
fyrir þjóðir eða þjóðflokka. Áhugi Daniels Bruun á reið tygjum og íslenska
2 „Náttúruskyn hans leiddi hann skjótt á þá leið, er honum var ætlað að halda, og gerði hann vakinn
og sofinn í allskonar fornmenjum og leifum frá fyrri öldum eður þjóðmenjagripum og söfnum.“
Eiríkur Jónsson 1866, bls. 143.
3 „Um menntun ungmenna“ 1887.
4 Eiríkur Magnússon 1879, bls. 159.