Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Side 233
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS232
Ég hafði Þórhall sem kennara í íslenzku í Menntaskólanum og eru
kennslustundir hans mér í fersku minni. Hann var afbragðskennari og hafði
öðrum fremur lag á að opna nemendum heim fræða og fróðleiks. Hann
fjallaði ekki um námsefnið eingöngu, heldur fór hann í tímunum oft út
fyrir efnið og leiddi tal að mörgum þáttum menningasögu, sem tengdust því
sem um var fjallað. Þannig varð kennsla hans sífellt lifandi. Hann lagði ríka
áherzlu á vandað málfar í ræðu og riti og í ritgerðasmíð var hann öðrum betri
leiðbeinandi. - Ég hef talið Þórhall einn þriggja beztu skólakennara minna.
Þórhallur hafði mikinn áhuga á almennri menningarsögu og ekki sízt á
landi og landsháttum og þar með örnefnum í landinu og nafngiftum. Hann
kannaði gaumgæfilega örnefnasöfn, sem varðveitt voru í Þjóðminjasafni.
Árið 1966 hóf hann að flytja opinbera fyrirlestra í Háskóla Íslands um
örnefnarannsóknir sínar og hugmyndir um nafngiftir staða og bæja hvarvetna
um land, og hélt því áfram með hléum til ársins 1985. Vöktu fyrirlestrarnir
afar mikla athygli og meiri aðsókn en þekkzt hafði, og það svo að færa varð
þá úr Hátíðasal Háskólans og í Háskólabíó. Þótti með eindæmum, að þar
varð húsfyllir hverju sinni. Fyrirlestrarnir komu talsverðu róti á hugi manna
og var þá vart um annað meira talað manna á meðal en hugmyndir hans
og kenningar um uppruna örnefna og bæjaheita. Þær þóttu nýstárlegar og
nánast byltingarkenndar, og stungu mjög í stúf við ýmsar frásagnir í ritum
og skýringar fyrri fræðimanna, sem og ályktanir almennings. Má ætla, að
hugmyndir Þórhalls hafi kviknað er hann vann að útgáfu Harðar sögu
Grímkelssonar er út kom árið 1991. Þá þóttist hann sjá, að ýmis örnefni og
minni sögunnar myndu dregin af landslagi og staðháttum og sumir atburðir
sögunnar jafnvel skáldaðir út frá örnefnum. Síðan þróuðust hugmyndir hans
um nafngiftir í fornsögum enn frekar, bæði landnámsmanna og bæja. Taldi
Þórhallur víða augljóst að örnefni væru „náttúrunöfn,“ mynduð af sérkennum
í landslagi, staðháttum, landnytjum og búskaparháttum, og síðan væru sumir
landnámsmenn, og jafnvel sagan um þá, tilbúningur að marki. Nefndi hann
leiðsögukenningu sína um uppruna örnefna „náttúrunafnakenninguna.“ Í
síðustu fyrirlestrunum árið 1995 fjallaði Þórhallur um nöfn dýrlinga, sem
hann taldi örnefni mynduð af, þar sem leiðir fólks lágu til kirkju fyrrum.
Hugmyndirnar hlutu að vísu ekki einróma lof, enda brá mörgum í brún er
steypa átti af stalli mörgum hinna þekktu sagnapersóna og sögulegir atburðir
gerðir lítt trúverðugir og grafið þannig undan sannleiksgildi fornsagna,
sem margir drógu enn lítt í efa. Tókust menn því talsvert á um hugmyndir
Þórhalls í ræðu og riti, með og á móti, og áttu sumir jafnvel bágt með skilja,
að slíkur unnandi íslenzkrar þjóðmenningar, sem Þórhallur var, skyldi „leggja