Fréttablaðið - 04.02.2021, Blaðsíða 44

Fréttablaðið - 04.02.2021, Blaðsíða 44
Franska sendiráðið, l’Alliance Française og Bíó Paradís láta sérstakar aðstæður heimsfar- aldursins ekki aftra sér frá því að halda Frönsku kvikmyndahátíðina, sem hefst í dag, í 21. skipti. Hátíðin hefst í kvöld með frum- sýningu myndarinnar Été ’85 (Sum- arið ’85) eftir leikstjórann François Ozon. Síðan tekur við fjölbreytt kvikmyndaveisla sem lýkur sunnu- daginn 14. febrúar. Allar myndirnar á hátíðinni eru sýndar í Bíó Paradís en hátíðin fer einnig að hluta til fram á streymis- veitunni Heimabíó Paradís, heima. bioparadis.is, þar sem kanadíska sendiráðið býður meðal annars upp á kanadíska kvikmyndahelgi dagana 13.-14. febrúar. Vegna sóttvarnaráðstafana er hætt við að færri komist að en vilja í bíó og þeir sem ætla sér að mæta í bíó ættu því að tryggja sér miða fyrr en síðar. Opnunarmyndin, Sumarið '85, átti að vera á Cannes-hátíðinni sem var aflýst í fyrra en fór í almennar sýningar í Frakklandi síðasta sumar. Eftir að hinn myndarlegi, átján ára gamli David bjargar Alex- is, sem er sextán ára, frá drukknun tekst með þeim ástríðufull vinátta sem á eftir að hafa ófyrirséðar afleiðingar fyrir þá báða. Meðal annarra mynda á hátíðinni eru til dæmis La Daronne (Múttan) sem skartar Isabelle Huppert í aðalhlutverki blankrar móður sem kemst yfir yfirgefna hasssendingu og stígur þá fram sem hin harðsvír- aða glæpadrottning Mútta. Myndin er gerð eftir skáldsögu Hannelore Cayre sem kom út á íslensku 2019. Petit pays (Litla land) fjallar um hinn tíu ára gamla Gabríel sem lifir áhyggjulausu lífi í úthverfi Búj- úmbúra í Afríkuríkinu Búrúndí. En þegar borgarastríð skellur á í landinu, og þjóðarmorð er framið í nágrannaríkinu Rúanda, breytist allt. La Vérité (Sannleikurinn) eftir japanska leikstjórann Hirokazu Koreeda var tilnefnd til Gyllta ljóns- ins og í henni mætast stórleikkon- urnar Catherine Deneuve og Juliette Binoche í fyrsta sinn í kvikmynd.  Allar frekari upplýsingar um hátíðina eru á bioparadis.is. Franska hátíðin Afdrifarík ást grípur ungu mennina. Isabelle Huppert er Múttan. Hörmungarnar í Rúanda breyta öllu. NETFLIX The Dig Leikstjórn: Simon Stone Aðalhlutverk: Ralph Fiennes, Carey Mulligan, Lily James Streymisveiturnar hafa blessunar- lega verið duglegar að gefa út nýtt og ferskt efni á meðan kvikmyndahús út um allan heim hafa staðið meira eða minna tóm. Kvikmyndinni The Dig, sem kom á Netflix um mánaða- mótin, hefur verið vel tekið á Íslandi þar sem hún hefur haldið sig í efstu sætum vinsældalista efnisveitunn- ar. The Dig er byggð á bók John Prest on og fjallar um sannsögulega atburði í kringum frægan forn- leifauppgröft í Suffolk árið 1939 þegar Bretland var á barmi heims- styrjaldar. Ralph Fiennes og Carey Mulligan eru í forgrunni sem sjálfmenntaði fornleifafræðingurinn Basil Brown og Edith Pretty sem lætur gamlan draum rætast með því að fá Brown til þess að grafa upp forna greftr- unarhauga á landareign hennar. Þrátt fyrir að á milli þeirra séu bæði kynslóðabil og stéttamunur tengjast þau í sameiginlegum forn- leifafræðiáhuganum auk þess sem Brown verður einhvers konar föð- urímynd fyrir Robert son hennar. Eitt meginþema myndarinnar liggur á mörkum óljósrar fortíðar og óráðinnar framtíðar og kristallast í sambandi Roberts sem dreymir um að vera geimfari og Basil sem hefur áhuga jafnt á ráðgátum himintungl- anna og því sem leynist neðanjarðar og opnar augu drengsins fyrir því að fortíðin og það sem við skiljum eftir okkur er ekki síður verðugt rann- sóknarefni. Uppgröfturinn vekur athygli víða um Bretland og fleiri fornleifafræð- ingar bætast í hópinn þar á meðal Lily James í hlutverki ungrar konu í ástlausu hjónabandi, Peggy Piggott, og eiginmaður hennar. Ástarsamband Peggyar og Rory Lomax, frænda Edithar, verður efni- viður í fremur slaka hliðarsögu sem nær hápunkti þegar allt of langt er liðið á myndina til þess að áhorf- endur nái nokkurs konar tengingu við þau og samband þeirra. Eins og áður segir byggir myndin á samnefndri bók um raunverulega atburði en eins og gengur tekur höf- undurinn sér skáldaleyfi til þess að dýpka söguna. Ástarsambandið er þannig heldur misheppnuð tilraun til að krydda söguna og hefði þurft mun betri útfærslu til þess að ná til- ætluðum árangri. The Dig fer vel af stað en atburða- rásin er aftur á móti fremur hæg og myndin missir svolítið dampinn þegar á líður. Aðalleikararnir ná manni hins vegar strax með öflugri persónusköpun. Ralph Fiennes tekst að láta Basil Brown, alvörugefinn og orðfáan mann, virðast áhugaverðan og leyndardómsfullan fremur er leið- inda sveitadurg sem vill bara fá að vinna eins síns liðs í drulluhaug. Carrey Mulligan er einnig stórgóð sem hin ljúfa en veikburða Edith Pretty en úr andliti hennar skín hver tilfinning og hugsun Edithar sem virðist í túlkun hennar mun eldri og reyndari en hún er í raun. Breska sveitin gegnir vitanlega stóru hlutverki í myndinni og mikilfenglegu landslaginu eru gerð góð skil með einstaklega fallegri myndatöku. Grá skýin eru áberandi í myndinni þar sem skuggi seinni heimsstyrjaldarinnar vofir yfir og kuldinn og bleytan eru aldrei langt undan. Edda Karitas Baldursdóttir NIÐURSTAÐA: The Dig er lágstemmt drama sem hafði alla burði en nær ekki almennilega flugi. Góður leikur og myndatakan bjargar deginum. Hægur uppgröftur Ralph Fiennes og Carey Mulligan lyfta The Dig upp úr grafarhaugnum á hærra plan með öflugum leik. KVIKMYNDIR The Little Things Leikstjórn: John Lee Hancock Aðalhlutverk: Denzel Washing- ton, Rami Malek, Jared Leto Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur í kófið þannig að því fylgdi nánast sæluhrollur að fá loksins aftur að setjast í bíósal til þess að horfa á raðmorðingja- mynd. Loksins, loksins er aftur ógn og skelfing í bíó! The Little Things fer meira að segja ansi vel af stað og upphafs- atriðið gefur fögur fyrirheit þar sem líklega morðóður eltihrellir leikur sér sem villiköttur að lítilli mús þar sem hann lokkar unga konu í bíleltingaleik eftir myrkum og afskekktum þjóðvegi þar sem spennuþrungin feigð svífur yfir svörtu malbikinu. Strax á fyrstu mínútunum kemur í ljós að myndin gerist 1990 og því miður kemur fljótlega í ljós að hún gæti einnig hafa verið gerð fyrir 30 árum og maður hefur í raun séð þetta allt saman oft áður. Og betur gert. Fálmað í djúpinu Gott ef ekki eimir hreinlega enn eitthvað eftir af gömlum töktum og stemningum úr til dæmis The Silence of the Lambs og Se7en. Ekki leiðum að líkjast svo sem en geymsluþol þess sem var gulls ígildi í spennuhryllingi tíunda áratugar- ins er takmarkað. Breytir því hins vegar ekki að hér er margt vel gert og leikstjór- inn John Lee Hancock leikur sér með alls konar skemmtilegar hug- myndir, klisjur og pælingar í hæg- fara djúpköfun ofan í myrkustu fylgsni mannssálarinnar. Hancock hefði samt mátt nostra aðeins við og uppfæra eigið hand- rit sem hann skrifaði fyrir þremur áratugum þar sem allt er þetta heldur ómarkvisst og við sitjum að lokum uppi með þá tilfinningu að hann hafi svikið okkur um eitt- hvað magnað sem hann eyddi hálfri myndinni í að undirbyggja áður en hann missti sjónar á því. Þótt The Little Things sé örfáum áratugum á eftir áætlun getur þó talist henni til tekna að seigf ljót- andi og ágeng framvinda sem kennd er við hægan bruna er mjög í tísku þessi misserin og hér er svo sannar- lega boðið upp á sous vide mat- reiðslu á hugmyndum Nietzsches um hættuna sem búin er þeim sem starir ofan í hyldýpið í leit sinni að skrímslum til að berjast við. Tveir góðir og einn í lagi Denzel Washington og Rami Malek leika tvo ólíka lögreglumenn, Joe Deacon og Jim Baxter, sem rýna sig að barmi sturlunar ofan í hyl- dýpið þar sem þeir gætu mögulega fundið Jaret Leto í subbulegu gervi Albert Sparma sem er kannski per- vertískur raðmorðingi. En kannski ekki. Þar liggur efinn og spennuraf- geymir myndarinnar. Þegar leiðir Joe og Jim liggja saman er sá fyrrnefndi búinn að vera smábæjarlögga í einkennis- búningi í fimm ár eftir að hafa brunnið harkalega út í rannsókn á máli morðingja sem mjög líklega er þarna byrjaður að reyna á taugar Jim, sem tók við starfi hans í stór- borginni. Malek leikur Jim og er hér í fyrsta stóra k v ik my ndahlut verk inu síðan hann lék Freddy Mercury með ógleymanlegum tilþrifum í Bohemian Rhapsody þar sem túlkun hans á illmenninu í James Bond-myndinni No Time To Die er enn fast í COVID-limbóinu. Malek er ekkert að ofreyna sig hérna og hefði þurft að gera aðeins meira en herða á yfirbitinu og hvessa augun til þess að falla ekki í skuggann af Washington og Leto sem gera gæfumuninn fyrir reikula myndina og ljá henni bæði slagkraft og ákveðna vigt. Washington er svo sem sjálfum sér líkur en er bara alltaf svo traust- ur og öruggur að hann hefur ekk- ert fyrir því að selja áhorfendum að hann sé maðurinn sem í krafti reynslu sinnar, öryggis, mannkosta og með auga fyrir smáatriðunum geti haft hendur í fituklepruðu hári morðingjans. Jared Leto toppar síðan báða mót- leikarana sem hinn grunaði. Ógeðs- legur og slímugur skíthæll sem er til alls vís og þar sem Leto hefur ein- hvern veginn áru ógeðslega leiðin- legs manns hefur hann ekkert fyrir því að töfra fram mannskepnu sem unun er að hatast við. Alveg óháð því hvort hann er sekur eða saklaus. Þórarinn Þórarinsson NIÐURSTAÐA: Drungaleg stemningin í The Little Things er komin tilfinnan- lega til ára sinna og þrátt fyrir fínar og myrkar pælingar, á köflum áþreifanlega ógn og ágætis spennu tekst traustum Denzel Washington og ógeðslega góðum Jared Leto ekki að koma í veg fyrir að manni finnist eins og að með myndinni sé verið að svíkja mann um eitthvað sem hefði getað orðið miklu meira og betra. Störukeppni í dimmu djúpi Denzel Washington er traustur að vanda og leggur sín mikilvægu lóð á vogarskálarnar í The Little Things. 4 . F E B R Ú A R 2 0 2 1 F I M M T U D A G U R28 L Í F I Ð ∙ F R É T T A B L A Ð I Ð LÍFIÐ

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.