Heilbrigðisskýrslur - 01.12.1988, Blaðsíða 125
Hlutfall kvenna, sem voru endurkallaðar til viðbótarmyndatöku eftir úrlestur
hópskoðunarmynda, var 4,1%, sem er fremur lágt. Jákvætt forsagnargildi
hópskoðunarrannsóknar var 14%, svipað og annars staðar (6, 7, 8). Að lokinni
viðbótarmyndatöku og töku stungusýnis, þegar þess var þörf, gengust 101 af
479 endurkölluðum konum (21%, eða 0,9% af öllum hópnum) undir
skurðaðgerð (4 á báðum brjóstum). Af þeim reyndust 65%, þ.e.a.s. um 2/3
hlutar hafa krabbamein. Er það svipað hlutfall og í sænskum rannsóknum (6,
7), en um fjórum sinnum hærra en tíðkast í Bandaríkjunum (8). Með öðrum
orðum voru um 1,5 skurðaðgerðir framkvæmdar á hvert fundið krabbamein,
samanborið við meira en 6 aðgerðir vestan hafs. Skurðaðgerðir, sem leiða
aðeins í ljós góðgynja breytingar, eru þannig mjög fáar, aðeins um þriðjungur
þess sem tíðkaðist hérlendis árið 1980, miðað við fjölda fundinna krabbameina
(9). Hjá 57 konum með brjóstakrabbamein (86%) var það tekið með
fleygskurði, þannig að þær misstu ekki brjóstíð (þar með taldar tvær konur,
sem fengið höfðu krabbamein báðum megin). Er það mjög hátt hlutfall og
mikill ávinningur í augum flestra kvenna.
Skipuleg hópskoðun með bijóstamyndatöku á íslandi mun vera hin fyrsta sem
nær til heillar þjóðar, og sennilega einnig hvað snertir bein tengsl hennar við
leghálskrabbameinsleit, sem gerir hana að vísu þyngri í vöfum, en hefur ýmsa
kosti. Á heildina litið virðist fyrsta reynsla af hópskoðuninni lofa góðu. Þótt
endanlegar tölur um þátttöku liggi ekki fyrir, er ljóst, að hún mætti vera betri,
einkum meðal kvenna yfir fimmtugt, eigi kostnaður og fyrirhöfn að skila
umtalsverðum árangri í formi lækkunar dánartölu vegna sjúkdómsins, þegar frá
líður. Neikvæð umræða um gagnsemi rannsóknarinnar meðal kvenna undir
fimtugu verður vonandi ekki til þess að fæla eldri konur frá þátttöku, og full
ástæða er til að beina þeim tilmælum til lækna, hjúkrunarfræðinga og annars
starfsfólks heilsugæslunnar, að það hvetji konur fremur en letji í þessu efni.
Neikvætt viðhorf er ábyrgðarhluti, og ekíd öfundsvert að standa síðar frammi
fyrir sorg og ásökunum þeirra kvenna, sem hafa leitt hjá sér boðun til
hópskoðunar en greinst síðan með langt genginn sjúkdóm. Með þessu er ekki
gefið í skyn, að myndataka sé óbrigðul greiningaraðferð. Hvetja þarf konur til
að fylgjast með brjóstum sínum milli hópskoðana og senda þær aftur til
rannsóknar, komi upp grunsamleg einkenni.
123