Börn og menning - 01.04.2011, Page 28
28
Börn og menning
úr
Gerður Kristný
Drekar, draugar og dálítil prinsessa
Diane var fögur kínversk stúlka sem sótti
með mér taltíma í frönsku í Nice fyrir margt
löngu síðan. Kínverska nafnið hennar var
of óþjált fyrir okkur Vesturlandabúana að
bera fram og þess vegna var hún kölluð
Diane. Við vorum mörg hver orðin ágæt
í frönsku. Skammlaust gátum við spjallað
við sölumennina á blómamarkaðinum um
gerberur og gladíólur og á fiskmarkaðinum
báðum við hikstalaust um hnakkastykkið af
þorskinum í stað styrtlunnar. Já, við vorum
alveg orðin fær um að ræða heimspekinga
og hönnuði svo heimamenn skildu okkur.
Franskan hennar Díönu var af allt öðrum
meiði. I hvert skipti sem hún opnaði munninn
flugu rauðir drekar, litrík Ijósker og margra
alda gamlir Ming-vasar um skólastofuna.
Við máttum hafa okkur öll við að reyna að
halda þræði. Samt var Diane óhrædd við
að tjá sig og það virtist ekki snerta hana
hið minnsta þótt kennarinn missti stundum
þolinmæðina, gripi inn í miðja frásögn og
segði hraðmæltur: „Já, já, þetta er komið
gott. Næsti!" Hann var ekkert sérstaklega
fint fölende, þessi maður, og hikaði ekki við
að hrista mæðulega hausinn þegar Diane var
komin á blússandi skrið án þess að nokkur
áttaði sig á hvert hún stefndi eða hvaðan
hún hefði lagt af stað. Alltaf mætti Diane
samviskusamlega í tíma og hlustaði stillt á
okkur hin spjalla þar til hún fékk færi á að
renna sér inn í frásögnina. Samstundis komu
drekarnir fljúgandi og horfðu glottuleitir á
okkur af öxlum hennar.
Með tímanum púslaðist saman mynd í
huga mér af lífi þessarar kínversku stúlku.
Eins og svo margir Kínverjar var hún
einkabarn og höfðu foreldrar hennar kostað
hana til tungumálanáms í Frakklandi. Þegar
við ræddum um fjölmiðla sagði Diane frá
því að þegar hún var lítil hefði hún haft
það fyrir venju að hafa kveikt á öllum
sjónvarpstækjunum heima hjá sér í einu
þegar foreldrar hennar voru í vinnunni. „Af
hverju?" spurði kennarinn. „Þá fannst mér
ég ekki vera jafnein," svaraði Diane. Nokkru
síðar ræddum við gæludýraástríðu Frakka og
þá kom í Ijós að hún hafði einmitt eitt sinn átt
gæludýr. „Pabbi og mamma gáfu mér apa
til að leika mér við. Ég á jú engin systkini,"
sagði Diane og brosti við minninguna. Svo
varð hún aftur alvarleg og bætti fjarræn við:
„En hann dó úr kulda."
Þótt ég skildi ekki alltaf mikið í sögunum
hennar Diane eru þær mér minnisstæðari en
margt annað sem ég hef heyrt um dagana.
Mér hefur að minnsta kosti oft verið hugsað
til einkabarnsins sem bjó við vellystingar -
eins og fjöldi sjónvarpstækja og heill api
hljóta að teljast til - en var samt svo ósköp
einmana. Mörgum árum síðar dró ég því
Diane fram til að skapa prinsessu sem leiðist.
Hún er komin til íslands þar sem ætlast er
til að hún fari í gönguferð upp um fjöll og
firnindi með afa sínum og ömmu en hana
langar það ekki. Það er ekki fyrr en hún
kynnist öðrum einangruðum manni, sjálfum
forseta íslands, að brúnin á henni tekur að
lyftast. Þau halda saman á vit ævintýranna.
með kransaköku í annarri og hönd hvors
annars í hinni. Satt best að segja þarf fólk oft
ekki meira til að sigrast á einmanaleikanum.
Leikritið mitt er um það en líka draug,
kú, ráðskonu og landnámshænu. Þeir sem
mæta með fálkaorðuna sína fá að klappa
landnámshænunni (hléinu.