Börn og menning - 01.04.2011, Blaðsíða 32
32
Börn og menning
lesandanum við hana, allt til enda? Það er
gaman að fylgjast með krökkunum og því
sem þau taka sér fyrir hendur. Sagan miðast
öll við að snúa frá því neikvæða til hins
jákvæða. Bæta samfélagið, hjálpa þeim sem
minna mega sín eða bara að læra heima. í
byrjun er áhugi sögupersóna á námi í algeru
lágmarki en áður en Óli veit af hefur hann
skrifað ritgerð upp á níu komma fimm og er
stoltur af því. Kannski á sagan að sýna hvað
það getur verið gaman í skólanum ef maður
sinnir náminu. En það sem sagan klárlega
sýnir er að það er langskemmtilegast að vera
vinur, eiga vini en lang-langskemmtilegast
að eiga kærustu/kærasta. Það er toppurinn
á tilverunni. Þessum unglingum liggur ekkert
á að reyna sig í brjáluðum ástarleikjum -
kærustupörin kyssast af miklum móð og láta
þar við sitja - þau sem eldri eru ganga lengra.
Má þar nefna systur Óla, hana Öddu, hún
er til dæmis farin að sofa hjá kærastanum
þar sem þau eru trúlofuð og byrjuð að búa
saman - þótt því sambandi Ijúki svo með
hvelli.
í umsögn um bók Þórðar sem birtist í
Morgunblaðinu rétt fyrir jól 20101 má lesa
að sagan fjalli öðrum þræði um einelti.
Og vissulega má finna einelti í sögunni.
Bekkjarsystir Óla, Súsanna, tælensk, fær
nafnlaus hótunarbréf. Þessi aðferð til andlegs
ofbeldis minnir helst á Dularfullu bækurnar
eftir Enid Blyton. Stafirnir eru klipptir út
úr ýmsum tímaritum, þeim raðað saman
í Ijótar dylgjur um fólk sem hefur það eitt
unnið til saka að hafa annan húðlit en
hinn venjulegi íslendingur. Krakkarnir, með
Össa í fararbroddi, leggjast yfir bréfin og
leysa málið á einni kvöldstund. Höfundur
notar tækifærið með sögu sinni að klípa
í samfélagið því lögreglan gerir ekkert til
að leysa gátuna um nafnlausu bréfin. Þessi
leynilögguhugmynd hjá Þórði er sniðug og
fellur örugglega einhverjum lesendum vel
í geð en ólíklegt er að svona lagað gerist í
raunveruleikanum. Allflestir skólar búa yfir
einhvers konar verkferli sem fer í gang þegar
vart verður við einelti.
Sagan fjallar miklu meira um vináttu,
sanna, fallega vináttu milli unglinga sem
styðja hver annan. Öll setja þau sér göfug
markmið og vinna að þeim leynt og Ijóst. Össi
nær af sér kílóum og dregur fleiri með sér í
það að léttast. Óli eyðir örlítið lengri tíma í
heimalærdóm og finnur að það borgar sig.
Svo mætti áfram telja. Vinur sonur bróðir
er sannarlega Ijúf saga um unglinga og
merkilegt nokk- foreldra, sem taka ríkan þátt
í sögunni. Sagan er að vissu leyti raunsönn,
en kjarninn er hið notalega samband sem
ríkir á milli unglinganna en einnig innan
fjölskyldunnar. Foreldrar og unglingar sem
geta talað saman þannig að báðir hafi gagn
og gaman af, getur það flokkast undir
raunsæi? Vissulega! Það má líka segja sögur
af því.
Höfundur er framhaldsskólakennari
1 Hólmfríður Gisladóttir. (2010, 22. des.). Þjóðlífið
fátæklegt án unglinga. Sótt 11.3. 2011 af http.H
www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html7grein_
id= 1361388&searchid=d03bd-051 f